Hugmyndin um bestu plötuna hverju sinni byggist eingöngu á skoðun minni og þekkingu. Skoðunin er oftast mjög sterk en þekkingin getur verið allavega. Þannig hika ég ekki við að tilnefna bestu plötuna og þá skiptir engu hvort ég þekki allar útgáfur viðkomandi mjög vel eða bara þessa einu – já eða eitthvað þar á milli.
Ég er þess vegna alltaf til í rökræður og uppfræðslu frá lesendum sem annað hvort vita betur eða telja sig vita betur. Aðalmálið er að hlusta á og ræða hljómplötur sem heild, bestu plötuna í hvert skipti.
Hljómsveitin Metallica var stofnuð árið 1981 í Los Angeles, í Kaliforníufylki Bandaríkjanna. Metallica hefur gefið út 10 breiðskífur á ferlinum:
Kill 'Em All (1983)
Ride the Lightning (1984)
Master of Puppets (1986)
...And Justice for All (1988)
Metallica (1991)
Load (1996)
Reload (1997)
St. Anger (2003)
Death Magnetic (2008)
Hardwired... to Self-Destruct (2016)
Þetta var ótrúlegt ár í heimi Thrash-málmsins. Anthrax gaf út sitt meistaraverk, Among the Living réttu ári eftir að Metallica sendi frá sér Master of Puppets en í millitíðinni hafði Megadeth gefið út Peace Sells... but Who’s Buying og Slayer hrært í Reign in Blood. Allt þetta á einu ári. Og síðan hafa þessi bönd verið réttilega kölluð Hin fjögur fræknu – The Big Four.
Villi! Skilaðu plötunum mínum, helvítis Naglbíturinn þinn!
Ég heyrði fyrst í Metallica 1988. Held ég allavega, þetta rennur aðeins saman. Ég var tíu ára og velti ekki mikið fyrir mér í hvaða röð plöturnar höfðu komið út og svoleiðis. Ég eignaðist þær svo sennilega á árunum 1990 og 1991, allar fjórar sem þá höfðu komið út auk forláta smáskífusafns, sex 12 tommu smáskífur í svörtum pakka. Í þeim pakka var stórt plakat af bandinu þar sem Lars Ulrich sendir umheiminum fingurinn. Óóógeðslega töff. Þetta plakat hékk uppi í bílskúrnum hjá Agga vini mínum þar sem við stofnuðum fyrstu hljómsveitina okkar í janúar 1991. Böbbi söng, eins og hann gerir í Skálmöld, og Aggi trommaði, eins og hann gerir meðal annarra verka í Ljótu hálfvitunum. Billi spilaði á bassa og ég á gítar. Eftir að hafa eignast svörtu plötuna 1991 lánaði ég Villa Naglbít allar þessar plötur og hann mér Hendrix-safnið sitt í staðinn. Og við það situr í dag. Mér hafa áskotnast önnur eintök af flestum Metallica-plötunum síðan en ég vil endilega fara að endurheimta mínar gömlu. Vilhelm!
Load er söluhærri en Kill 'Em All
Ég hef þá skoðun að Master of Puppets sé síðasta efalausa plata Metallica, síðasta platan þar sem allir voru fullkomlega handvissir um hvernig allt átti að vera. Bandið var búið að vera starfandi í fimm ár, gefa út tvær plötur, drekka marga gáma af áfengi og spila á stórkostlega mörgum tónleikum. Allt gekk upp og stefnan var bara í eina átt. Áfram! Metnaðurinn var ótrúlegur og dugnaðurinn sömuleiðis.
Fyrstu plöturnar tvær eru báðar meistaraverk en þó gjörólíkar, sú fyrsta óhefluð og hrá, næsta eins og talsvert úthugsaðri útgáfa af þeirri fyrri og þegar hér var komið sögu skyldi fullkomna þessa þróun. Það tókst. James Hetfield, sem er besti gítarleikari heimsins, og Lars Ulrich, sem er alls ekki besti trommuleikari heimsins, eru ótrúlegt lagasmíðateymi og þarna á algerum hápunkti. Cliff Burton bassaleikari kom talsvert minna að smíðunum en kryddaði þó allt saman með blöndu af snilligáfu og innsýn í klassíska tónlist. Kirk Hammet tók nú eiginlega bara gítarsóló, en gerði það svo sem ágætlega. Útkoman er þaulhugsað brjálæði, framkvæmt af mönnum sem þá voru tiltölulega nýskriðnir yfir tvítugt og graðir eftir því. Platan er hreinlega yfirþyrmandi og svo mjög að hún breytti þungarokkinu til frambúðar. Ég viðurkenni samt að hún var ekkert endilega uppáhaldið mitt framan af. Þegar svarta platan án titils kom út hlustaði ég mikið á hana en fann þó fljótt að þar var komin stefna sem hentaði mér síður en það sem hafði gerst á fyrstu fjórum plötunum.
Sú svarta breytti þó auðvitað tónlistarlandslagi alheimsins og gaman að velta því fyrir sér að á meðan Master of Puppets er þriðja söluhæsta plata Metallica, 14.000.000 eintök seld á heimsvísu, er sú svarta kyrfilega á toppnum seld í 31.000.000 eintaka. Til samanburðar hefur Megadeth selt um 38 milljónir af plötunum sínum samanlagt, Slayer milli 15 og 20 og Anthrax minna. Metallica samanlagt? 121 milljón! Annar áhugaverður samanburður fyrir nörda er að plöturnar Load og Ride the Lightning hafa selst álíka mikið. Og einnig að hin arfaslaka Reload hefur selst meira en sjálf Kill 'Em All!
...And Justice for All er fyrsta mísstígið
Næstsöluhæsta plata Metallica er ...And Justice for All, 15.000.000 eintök seld. Og eftir á að hyggja var það þar sem bandið byrjaði að hnigna.
Justice var lengi uppáhaldsplatan mín og er að sumu leyti enn. En hún er fyrsta misstígið, eftir fyrsta áfallið. Á tónleikaferð um Evrópu við eftirfylgni Master of Puppets lést bassaleikarinn Cliff Burton í rútuslysi. Nóg hefur verið ritað um Cliff, líf hans og örlög, og óþarfi fyrir mig að eyða netplássi í það. Frekar bendi ég lesendum á hina stórkostlegu bók To Live Is To Die: The Life & Death Of Metallica's Cliff Burton eftir félaga minn Joel McIver og hlaðvarpið Dead Rock Stars sem hann heldur úti við annan mann og fjallar meðal annars um Burton.
Eins og gefur að skilja var dauði hans gríðarlegt áfall fyrir þá eftirlifandi sem unnu ýmist illa eða ekki úr aðstæðum. Það síðasta sem þeim datt í hug var að slaka á og eftir að hafa sjanghæjað Jason Newsted til sín á bassann óðu þeir beint í að búa til nýja plötu. Og sú plata er ofboðsleg. Hún er alveg gríðarlega góð. Sem sagt alveg framúrskarandi stórkostleg. En hún er ekki gallalaus. Fyrir það fyrsta hljómar hún mjög undarlega. Hún er hreinlega illa mixuð og þá helst fyrir þær sakir að bassinn heyrist sama og ekki neitt.
Gítarhljómurinn er á móti afar þrútinn, hlutirnir almennt á skjön og allt þetta má skrifa á þá félaga Ulrich og Hetfield sem voru allt í öllu, vinnuþreyttir og mögulega haldnir mikilmennskubrjálæði. Þeir vildu heyra meira í sér og minna í hinum. Ég vil þó árétta einu sinni enn að platan er meistaraverk þrátt fyrir allt þetta sem segir ýmislegt um gæði tónlistarinnar, og ég set hana hiklaust í annað sæti á heildarlista yfir plötur Metallica. En, þetta er fyrsti feillinn á ferlinum og framhjá því vil ég ekki líta. Til viðbótar bendir ýmislegt til þess að sumar ákvarðanir hafi verið teknar í óvissu. Sennilega hefur efinn ekki verið nema í hæsta lagi 3% en það er nóg. Allt fram af því hafði verið framkvæmt af 103% öryggi.
Muniði þegar DV var ekki mannskemmandi sorp?
Þegar við vorum að byrja í hljómsveit í skúrnum á Húsavík keyptum við hljóðfærin okkar ýmist glæný í Tónabúðinni á Akureyri eða notuð af þeim sem vildu selja. Þá komu smáauglýsingar DV sterkar inn. Þar í gegn keypti ég fyrsta gítarmagnarann minn, agnarsmáan Carlsbro sem ég á enn ásamt allskonar öðru góðgæti og það sama átti við um félaga mína. Aggi keypti Adam-trommusettið sitt auðvitað nýtt, forréttindapésinn sem hann var, en fann hinsvegar annað skemmtilegt í smáauglýsingunum. Nótnabækur Metallica fyrir gítar, fyrstu fjórar plöturnar. Og hann keypti.
„Nótna-“ er reyndar ekki alveg rétt því þetta voru svokallaðar tab-bækur þar sem tónlist er skrifuð niður eftir hinu verkamannsvæna Tablature-kerfi. Sennilega voru nú nótur þarna líka til málamynda en við stautuðum okkur miklu hraðar fram úr tabinu. Reyndar er líka ofsagt að þetta hafi verið bækur því það sem kom upp úr pakkanum var mappa með ljósrituðum sjóræningjaútgáfum af bókunum. Ég man að blöðin voru samt ljósgrá og rennislétt, miklu meira fansí en ljósritunarpappírinn sem maður fékk í skólanum. Ætli einhver muni eftir að hafa selt þetta norður í land snemma á tíunda áratugnum? Það væri gaman að heyra frá viðkomandi og hvar hann eða hún komst í svona fallegan pappír. Okkur fannst heilmikið til þessa koma og þarna opnaðist heimurinn. Við spændum lögin í okkur, sátum með gítarana og lásum í gegnum þessi ógurlegu riff sem við þekktum svo vel.
Og allt í einu fór þetta að meika sens. Þarna skildi ég í fyrsta skipti hversu miklu hljóðfærið stjórnar þegar tónlist verður til. Ég sá nákvæmlega hvernig þeir höfðu samið ákveðinn part og síðan leiðst yfir í þann næsta gagngert vegna þess að það var lógísk handahreyfing. Þannig bráði heilagleikinn af tónlistinni og hún opnaðist. Kannski var þetta ekki svona flókið. Kannski voru tónsmíðar ekki ljóðrænn sannleikur aðeins á færi þeirra sem höfðu meðfædda snilligáfu. Það sem ég tók með mér var ekki hljóðfærafimi eða rokkstjörnudraumar. Það sem ég saug í mig var verkfræðin. Hvernig kaflarnir voru smíðaðir og hvernig þeir tengdust hver við annan, blönduðust, þróuðust og breyttust. Hvernig flókið var látið hljóma einfalt, hvernig snúið var upp á hlutina og þeir bundnir í allsherjarflækju sem síðan leystist aftur að því virtist af sjálfu sér en samt svo alls ekki. Endalaus snilld! En snilldin var mest á Puppets. Og snilldin er mest á Puppets. Og þess vegna er hún best. Ég var hooked og verð til æviloka.
Trujillo, bassaleikarinn sem gerði hið ómögulega
Titillag plötunnar er mest spilaða tónleikalag Metallica frá upphafi og varla líður gigg hvar það heyrist ekki. Tvö lög til viðbótar heyrast mjög reglulega, Welcome Home (Sanitarium) sem er slakasta lag plötunnar og opnunarlagið Battery sem sennilega er besta lag Metallica fyrr og síðar. Önnur heyrast minna en þó er það misjafnt milli ára. Lengi vel var Orion, meistaraverkið sem Burton átti stærstan þátt í að semja og bassinn spilar risahlutverk í, álitið ósnertanlegt. Lag sem meðlimir Metallica sjá í sérstöku ljósi, líkt og sjá má í þessum stutta viðtalsstubbi:
Í seinni tíð hefur hinn ógurlegi bassamaður Robert Trujillo sem gekk til liðs við teymið árið 2003 ráðist í það stórvirki að spila lagið og það með miklum bravúr. Ekki að það sé tæknilega óleysanlegt þótt krefjandi sé, heldur var verkefnið helst að nálgast þennan heilaga sálm af að því er virtist óyfirstíganlegri virðingu.
Með þessu afreki Trujillo má segja að ekkert lag af plötunni sé utan færis á tónleikum. Ég er reyndar á því að ef þeir hefðu ekki fundið Trujillo væri Metallica ekki að fylla leikvanga í dag en það er önnur saga og lengri.
Ég hef fylgt Metallica þétt eftir í gegnum árin og hlustað gaumgæfilega á allar plöturnar þeirra. Allt sem gerðist eftir svörtu plötuna er misslæmt, sumt er afleitt og ekkert er gott. Eftir átta ára útgáfuhlé sendu þeir þó frá sér hina margumtöluðu Hardwired... to Self-Destruct árið 2016 sem er langsamlega besta verk þeirra í 25 ár. Í sjálfu sér má segja að platan bæti litlu sem engu við þótt hún sé ljómandi fín en þó má ekki gleyma því að velgengni og vel heppnuð útgáfa á borð við þessa gefur byr í seglin. Það er gaman á tónleikum með Metallica og auðvitað skemmta menn sér betur þegar þeir finna að þeir eru ennþá meððetta en ekki bara á vegum fornrar frægðar.
Og að síðustu: Fólk sem fallbeygir og segist hlusta á „Metallicu“ hefur rangt fyrir sér. Þetta er bannað.
Ég hvet ykkur öll til að hlusta á þetta meistaraverk í heild. Hér er mín skoðun en ég skal glaður rökræða hana: Master of Puppets er besta platan með Metallica.
Lagalisti:
01 – Battery
02 – Master of Puppets
03 – The Thing That Should Not Be
04 – Welcome Home (Sanitarium)
05 – Disposable Heroes
06 – Leper Messiah
07 – Orion
08 – Damage, Inc.