Bland í poka er safn nýrra barnalaga eftir Snorra Helgason. Platan hefur að geyma 10 lög flutt af Snorra og hljómsveit hans ásamt úrvalaliði gestasöngvara m.a. Sögu Garðarsdóttur, Valdimar Guðmundssyni, Hugleiki Dagssyni, Halldóru Geirharðsdóttur, Katrínu Halldóru Sigurðardóttur og Teiti Magnússyni.
Teiknarinn Elín Elísabet Einarsdóttir hefur gert teikningar við öll lögin á plötunni sem munu fylgja útgáfunni ásamt textum og gítarhljómum í lítilli bók sem hönnuðurinn Bobby Breiðholt setur upp.
Fólk getur valið hvort það kaupi bókina með eða án geisladisks þannig að ef þú og fjölskyldan þín hlustið aðallega á tónlist í óefnislegu formi t.d. á Spotify þá getur þú fjárfest í þessari eigulegu bók og notið þess að blaða í henni á meðan hlustað er á tónlistina.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Ég var að vinna að tónlist byggða á íslensku þjóðsögunum í nokkur ár sem að kom svo út á plötunni Margt býr í þokunni árið 2017. Til þess að gera þá tónlist þurfti ég að lesa mikið af þjóðsögum og sökkva mér ofan í þann heim sem þær eru sprottnar úr með öllum sínum morðum og sifjaspelli og almennum drunga. Oftar en ekki var ég að vinna að þessari þjóðlagatónlist í algeri einangrun í þröngum dal við mynni Súgandafjarðar, nánar tiltekið í Galtarvita. Til þess að viðhalda geðheilsunni í allri þessari einangrun með höfuðið á kaf í öllu þessu myrkri fór ég nánast ósjálfrátt að semja tónlist sem var algjör andstæða við það, lítil, skrítin og björt barnalög. Þetta var nánast eins og varnarviðbragð.
Segðu okkur frá þema verkefnisins?
„Það er í raun og veru ekkert ákveðið þema fyrir utan það að fagna krafti og gleði barnsandans. Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi kæruleysislegrar og gleðilegar popptónlistar og langaði til að semja svoleiðis tónlist. Tónlistin á þessari plötu er undir miklum áhrifum frá britpoppi eins og blur og sillí hliðum bítlana.
Um það leiti sem ég var að semja þessa tónlist var ég líka mikið að hlusta á brasilíska tónlist frá 7. og 8. áratugnum og áhrif frá því má einnig vel greina í tónlistinni sbr. lagið Litla kisa sem er eftir brasilíska tónlistarmanninn Caetano Veloso með nýjum texta eftir mig.
Svo þegar kom tími á að ganga frá útgáfunni þá heyrði ég í Bobby Breiðholt hönnuði og Elínu Elísabetu Einarsdóttur teiknara og við fórum strax mikið að spá í klassísku skandinavísku barnaplötunum og bókunum og teikningunum sem fylgja þeim: Tove Jansson og múmínálfaheimurinn, Torbjörn Egner og Kardímommubærinn og Dýrin í Hálsaskógi og Einar Áskell eftir Gunnillu Bergström. Þá kviknaði sú hugmynd um að gera teikningar við öll lögin dálítið í þessum stíl sem myndi fylgja plötunni í lítilli bók með söngtextum og gítarhljómum. Þannig getur fólk, börn og fullorðnir, skoðað þessa bók á meðan hlustað er á tónlistina hvort sem það er á Spotify eða á geisladisk.“