Andri Snær Magnason, listamaður, hefur um langt skeið verið í hópi framsæknustu rithöfunda þjóðarinnar og sá sem hefur haft hvað mest áhrif á þjóðmálaumræðu á Íslandi í seinni tíð.
Hann hefur einstakt lag á því að nálgast mikilvæg mál - ekki síst á sviði umhverfismála og náttúruverndar - með því að stíga út fyrir rammann sem áður mótaði umræðuna og búa til nýjan vígvöll rökræðunnar. Fyrir vikið verður til nýtt sjónarhorn, ný sýn.
Ný göng, nýir hellar, nýir dalir
Þetta víkkar út rammann. Að þessu leyti hefur Andri Snær haft svipuð áhrif á samfélagið og frumkvöðlar. Þeir þenja út heildarmynd samfélagsins þegar vel tekst til, og reyndar líka oft þegar það tekst ekki vel til.
Dyr opnast sem áður voru lokaðar. Þeir lýsa inn í ný göng, nýja hella, nýja dali.
Draumalandið var slík bók en það á einnig við um aðrar bækur hans. Sagan af Bláa hnettinum hefur farið sigurför um heiminn og ég gerði mér ekki almennilega grein fyrir hversu djúpstæð áhrif sú bók hefur haft víða um heim fyrr en ég flutti úr landi. Ég þurfti bókstaflega að flytja til útlanda til að átta mig á þessu.
Ég lauk nýverið við að lesa bók Andra Snæs, Um tímann og vatnið, sem kom út í gær. Ég var reyndar heppinn að fá Andra Snæ í kaffi hér heim til okkar í Kirkland, í útjaðri Seattle, þar sem hann sagði mér frá bókinni og spurningunum sem hann er að takast á við í henni.
Það eitt kveikti mikinn áhuga en ég var samt ekki alveg viss um hvernig þetta ætti eftir að koma út í bók. Hann var þá að undirbúa fyrirlestur í Elliot Bay Book Company, einni virtustu og líflegustu bókabúð Seattle borgar og raunar Vesturstrandarinnar allrar, ef út í það er farið. Í kringum búðina er bókasamfélag þar sem bókaormar allra landa sameinast.
Um hvað er svo bókin? Þegar stórt er spurt, er stundum fátt um svör, en mér finnst það ekki eiga við um þessa bók. Bókin er heilsteypt stórvirki, þar sem tekist er á við mikilvægustu spurningar samtímans.
Hvernig við mannfólkið erum að fara með jörðina með öllu tilheyrandi - hafinu, landinu og samfélögunum sem við höfum búið til.
Bókin er um þetta. Hún fangar það sem Greta Thunberg hefur fangað með skörpum skilaboðum sínum, og bylgjunni sem hún bjó til. Hún fangar líka hugfarsbreytinguna sem við vitum að þarf að eiga sér stað, og veltir því upp hjá lesandanum hvort við séum viljandi að horfa framhjá því sem er að gerast. En um leið er bókin staðfesting á mikilvægi listamanna í þessari umræðu. Eins og sagan sýnir þá eru það þeir sem stinga á kýlum, róta upp í botnfastri leðju.
Einn helsti styrkur bókarinnar er að hún er skrifuð af stílsnilld en um leið töluverðri ákveðni. Þegar þess þarf þá er broddur í textanum, enda er Andra Snæ dauðans alvara í skrifunum.
Staðreyndirnar sem dregnar eru fram í bókinni um þau hættumerki sem sjást nú þegar á jörðinni, ekki síst í hafinu, eru sláandi áminning um að við getum ekki haldið svona áfram. Um leið er bókin ferðalag eins og hann er svo góður í að setja saman fyrir lesandann. Við sögu komu áhrifamestu hugmyndasmiðir veraldarsögunnar og líka minnstu smáatriði úr hversdagsleikanum. Allt teiknar þetta upp mynd af náttúrunni og viðkvæmni hennar, samfélagi okkar og því sem er að gerast í hafinu, jöklunum, söndunum og fjallshlíðunum.
„Lífshættir ríkasta hluta jarðarbúa hafa meiri áhrif á sýru- og hitastig hafsins heldur en fátækari hlutinn og ástandið er hvað verst þar sem allt er snyrtilegast á yfirborðinu. Þar er losun koltvíoxíðs á mann langmest og verðmætin sem fara til spillis í ruslahaugum ríkari landa eru margföld á við það sem gengur og gerist í fátækari ríkjum þar sem sóðaskapur er sýnilegur. (bls. 224)“.
Fyrir alla
Í bókinni felst ögrun við lesendur. Það er verið að minna þig á það, að þú getur kannski setið hér í rólegheitunum og lesið dásamlega hughrífandi bók, en að á meðan er í gangi stríð sem við mannfólkið bjuggum til að miklu leyti að óþörfu. Þetta er óþægilegur sannleikur, og um leið stærsta viðfangsefni samtímans. Það er ekki auðvelt að takast á við svona stórar spurningar án þess að fara út af leið, en mér finnst frumleg nálgun Andra Snæs setja bókinni skorður sem halda allan tímann.
Fyrir vikið er bókin fyrir fólk á öllum aldri, unga sem aldna.
„Á Skeiðarársandi er að verða til stærsti sjálfsáni birkiskógur á Íslandi. Getur stærsti skógur á Íslandi heitið Skeiðarársandur? Þá heitir skógurinn eftir jökulsá sem er horfin og sandi sem er falinn undir skógarbotni. Þar sem ís, möl og sandur kemur undan jökli er nýtt land sem hefur legið frosið undir fargi í mörg hundruð ár og við jökulröndina er nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar. Það er eins og landið sé hvorki ís, vatn né sandur, heldur allt í senn. Umbreytingin á sér millistig í óreiðu eins og Völuspá segir frá upphafi sköpunar: Sól það né vissi hvar hún sali átti, stjörnur það né vissu, hvar þær staði áttu, máni það né vissi, hvað hann megins átti. Óreiðan er ekki einskorðuð við jökulröndina. Enginn veit hvernig jafnvægi kemst á þegar lífshættir okkar hafa valdið því að jöklar heimsins verða að vatni, núverandi strandlengja verður sjór og akurlönd að eyðimörkum. Þegar ég verð níræður mun ég sýna þrítugu barnabarni mínu myndir af Skeiðarárjökli á rúllugardínu, jökli sem þrjár kynslóðir fengu tækifæri til að kynnast áður en hann hætti að vera til. Þegar ég tek ljósmynd af jöklinum er ég að taka upp söng gamallar konu til að varðveita. Eftir þúsund ár munu menn rýna í myndirnar eins og forn handrit og reyna að skilja hvað við vorum að hugsa. (bls. 188)“
Andi Guðmundar Páls svífur yfir
Við lesturinn á bókinni fann maður fyrir anda Guðmundar Páls Ólafssonar heitins og frænda míns, rithöfundar og náttúrverndarsinna. Stórvirki hans um náttúru Íslands eru tímalaus verk sem geyma galdra íslenskrar náttúru um ókomna tíð. Á vissan hátt er bók Andra Snæs eins konar brú á milli bókanna um fuglana, perlurnar, hálendið og vatnið.
Upp í huga minn koma heimsóknir Guðmundar Páls á Garðarsbrautina til mömmu og pabba, þegar hann kom í vinnuferðir norður og fékk að gista. Hlegið og pælt fram á kvöld, áður en náttúran var heimsótt ýmist á landi, flugi eða í kafi. Andri Snær hefur sama eiginleika og Guðmundur Páll þegar kemur að skrifum um Ísland. Það er virðing í textanum, sem er órjúfanlegur hluti af skilaboðunum.
„Þú verndar aðeins það sem þú elskar, þú elskar aðeins það sem þú þekkir. Þú þekkir aðeins það sem þér er kennt. - Guðmundur Páll Ólafsson (bls. 1)“
Bók Andra Snæs er tímamótaverk sem vekur lesendur til umhugsunar um hvar við erum stödd, og af hverju okkur má ekki vera sama um jörðina og Ísland sem hluta af henni. Jörðin getur endað eins og ruslahaugur ef við gætum okkar ekki.