Að verða betri manneskja

Leiklistargagnrýnandi Kjarnans fjallar um Gilitrutt í leikstjórn Benedikts Erlingssonar í Þjóðleikhúsinu.

Gilitrutt Mynd: Þjóðleikhúsið
Auglýsing

Þjóðleikhúsið: Gilitrutt

Leikgerð, brúðugerð, leikmyndahönnun og tónlist: Bernd Ogrodnik

Leikstjórn: Benedikt Erlingsson

Búningar: Þórunn Elísabet Sveinsdóttir

Leikmunagerð: Móeiður Helgadóttir

Leikarar: Jón bóndi, Freyja húsfreyja, Gilitrutt, Krummi, hestur Jóns bónda, ótal kindur, farfuglar og Bernd Ogrodnik

Það heyrir til undantekninga að skrifað sé um sýningar sem hafa verið á fjölunum í nær áratug. En hér er um að ræða sýningu sem er fyrir löngu orðin klassísk og hefur alla burði til að vera það áfram um ókomna tíð; auk þess á hún það svo fyllilega skilið að um hana sé fjallað, hún er feykigóð og svo er hún ástaróður höfundarins, Bernd Ogrodniks, til Íslands. Það verður einfaldlega ekki hjá komist að vekja athygli á henni svo áhorfendur megi rata á hana, njóta hennar og meðtaka þann mikilvæga boðskap sem hún hefur geyma.

Nú væri við hæfi að láta lesendur giska á hvað þessi sýning heitir og það væri vissulega í anda sögunnar – en hér skal ekki tvínónað við hlutina og sýningin nefnd sínu rétta nafni þegar í stað: Gilitrutt! Og veit nú heimur allur (og húsfreyja í ofanálag) hvað hún heitir.

Auglýsing

Þjóðsagan um Gilitrutt er ein af perlum íslenskra þjóðsagna, og hefur mjög líklega verið sögð til varnaðar börnum (og trúlega fullorðnum líka!) sem sýndu minnstu tilhneigingu til að slá slöku við eða gera sig sek um eina af verstu dauðasyndunum: letina – letina, sem aðeins kemur illu til leiðar og er ávísun á langa vist í hreinsunareldinum. Sú heimsmynd – um refsinguna sem beið þeirra sem gerðu sig seka um einhverja af hinum alræmdu dauðasyndum og ríkti á sínum tíma var mjög trúlega mikilvægur hluti af andlegum innviðum þjóðarinnar, en er nokkuð örugglega liðin undir lok. Engu að síður er máltækið forna í fullu gildi: sitjandi kráka sveltur, en fljúgandi fær. En með nýjum tímum breytast einnig hinir andlegu innviðir.

Gilitrutt er í stuttu máli ævintýri um lata bóndakonu, Freyju, sem bónda sínum til mikillar raunar nennir ekki sinna búverkum. Hann krefur hana um að spinna ull og vefa í vaðmál en því nennir hún ekki. Þá birtist ófrýnileg kerling sem býðst til að spinna ullina og vefa í vaðmál innan tilskilins tíma gegn því að bóndakonan geti komist að nafni hennar. Bóndakonan er guðs lifandi fegin að sleppa við vinnuna og gengur að þessum skilmálum. Þegar á líður verður hún þó æ örvæntingarfyllri yfir því að geta ekki komist að nafni kerlingar og trúir á endanum Jóni bónda fyrir raunum sínum. Hann skilur að kerlingin sé tröllskessa sem muni taka konu hans frá honum takist henni ekki að komast að nafni kerlingar. Fyrir tilviljun kemst svo bóndinn að nafni kerlingar þegar hann gengur framhjá kletti og heyrir högg þegar vefur er sleginn og sér þá kerlingu þar sem hún syngur nafn sitt: Gilitrutt. Hann segir konu sinni frá því sem hann hefur séð og heyrt og þegar kerlingin kemur með vefinn getur bóndakonan giskað á nafnið og sloppið úr klóm tröllskessunnar. Það er að sjálfsögðu óþarft að geta þess að bóndakonan lærir sína lexíu og verður uppfrá þessu bæði iðin og vinnusöm.

Gilitrutt Mynd: Þjóðleikhúsið

Sagnaminnið um Gilitrutt lifir með mörgum þjóðum og finna má þjóðsögur sem spinna í kringum það á ótal vegu; íslenska þjóðsagan er frekar einföld, amk. eins og hún kemur fyrir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar; og þótt spyrja megi ýmissa spurninga um hvers vegna atburðir gerast eins og raunin er í þjóðsögunni, þá er boðskapurinn ákaflega skýr: leti er af hinu illa.

Spurningin er, hvort og hvernig hægt sé að gera þennan boðskap lifandi fyrir ungu nútímafólki, en sýningin er sniðin að yngstu áhorfendunum.

Svarið er jafn einfalt og það er snjallt: Með því að sýna þrennu trúnað og traust – sögunni, listrænum meðulum leikhússins og hinum ungu áhorfendum; það er fyrir töfra Bernd Ogrodniks sem leikhúsmanns, að honum tekst að gera Gilitrutt svo gersamlega að sinni eigin sögu að það er eins og við séum að horfa á splunkunýja sögu, hann trúir líka á hana og mátt hennar og beitir af einstöku næmi og þekkingu frásagnarmöguleikum leikhússins og svo treystir hann af einlægni áhorfendum sínum til að meðtaka söguna og taka þátt í henni – sem er grundvöllur innlifunar og samkenndar.

Bernd Ogrodnik heldur fyllsta trúnað við söguna í leikgerð sinni, en gerir á henni nokkrar mikilvægar breytingar. Í meðförum Bernds verða atburðir sögunnar skýrari og skiljanlegri, enda krefst hin leikræna frásögn þess. Það er t.d. afar mikilvæg og að sama skapi snjöll breyting þegar hann bætir hrafninum í hóp persóna leiksins. Það er einkar viðeigandi breyting. Hrafninn hélt sig einatt við byggð og bæi þar sem matar var von og um hann spannst margvísleg þjóðtrú sem var fallin til að vekja bæði von og ótta. Kannski er einna þekktust þjóðsagan af hrafninum og Vilborgu Herjólfsdóttur landnámsmanns í Vestmannaeyjum, en sá hrafn lokkaði Vilborgu frá bænum og bjargaði henni frá því að lenda undir skriðu sem hefði ella orðið henni að bana.

Hér fær hrafninn það mikilvæga hlutverk að sýna muninn á þeim hjónum, Jóni bónda og Freyju, konu hans og hvaða afleiðingar sá munur hefur; Jón bóndi er örlátur og man eftir því að gefa hrafninum meðan Freyja húsfreyja er löt og gleymir krumma. En hrafninn veit sínu viti og leiðir Jón bónda að lausn gátunnar sem verður til þess að frelsa megi húsfreyju úr heljargreipum Gilitruttar. Þetta er hugvitsamleg lausn, því þá er frelsun húsfreyju rökrétt, hún verður af völdum hins (hálf)guðlega valds, en hrafninn er vissulega hluti af þeirri guðlegu náttúru sem okkur ber að umgangast af virðingu ef okkur á vel að farnast í lífi, starfi og leik. Boðskapur sögunnar nálgast þannig það, sem hefur verið einkenni á lífshlaupi íslensku þjóðarinnar: samspilið milli manns og náttúru, hvernig maðurinn hefur verið náttúrunni háður um lífsviðurværi sitt. Gilitrutt í meðförum Bernds Ogrodniks ýtir undir þann skilning – sem er bæði nútímalegur og mannlegur í senn.

Bernd Ogrodnik gerir allar brúður sjálfur, hann hannar og smíðar leikmynd og semur og flytur alla tónlist í Gilitrutt, eins og reyndar flestum ef ekki öllum sýningum sínum. Hér eru brúðurnar smáar, sem kallar á sérstaka áherslu á fókus, sem Bernd ferst einstaklega vel úr hendi, enda fylgja áhorfendur hverri augngotu hans og bendingu.

Leikmyndin er haganlega gerð og af miklu hugviti og þá má einnig segja að tónlistin sé kapítuli útaf fyrir sig; flaututónar og hlýlegir tónar harmonikku ásamt langspili sem leikið er undir slætti Jóns bónda er meðal þess sem myndar hljóðmynd sýningarinnar og á ósvikinn þátt í að efla töfra sagnalistar Bernds Ogrodniks.

Brúðuleikhús er sérstök tegund leiklistar sem lýtur sínum eigin lögmálum og býr yfir sínum einstöku töfrum og til eru mörg mismunandi afbrigði brúðuleikhúss. Hér er brúðustjórnandinn, Bernd, sýnilegur áhorfendum og á stundum verða samskipti hans og brúðanna hluti af frásögninni, sem er hlýlegt og auðveldar áhorfendum að samsama sig sögunni; hann byggir líka upp sterk tengsl við áhorfendur, heilsar þeim í upphafi með flautuleik, leiðir þá inn í salinn á Leikhúsloftinu og er allt til loka í góðu sambandi við áhorfendur, örvar þá til að vera með í réttunum þegar Jón bóndi fer að smala og útskýrir þar sem þess þarf og býður áhorfendum að koma fram að sýningu lokinni og skoða inn í undraheim leikhússins baksviðs.

Bernd Ogrodnik er einn af fremstu brúðuleikhúslistamönnum okkar tíma sem hefur ferðast til fjölda landa með brúðusýningar sínar. Hann á sitt heimasvið í Þjóðleikhúsi okkar Íslendinga og það er vissulega mikill heiður fyrir bæði okkur sem þjóð sem og leikhúsið sjálft. Það er full ástæða til að hvetja börn á öllum aldri að taka foreldra sína, afa og ömmur í seiðandi heim Leikhúsloftsins og upplifa hvernig Freyja húsfreyja tekur sinnaskiptum og verður betri manneskja.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiFólk