Þjóðleikhúsið tapar veðmáli!

Leiklistargagnrýnandi Kjarnans fjallar um Shakespeare verður ástfanginn sem er til sýningar í Þjóðleikhúsinu um þessar mundir.

shakespeare3.jpg
Auglýsing

Þjóðleikhúsið: Shakespeare verður ástfanginn

Leikverk byggt á kvikmyndahandriti eftir Marc Norman og Tom Stoppard

Aðlögun að leiksviði: Lee Hall

Þýðing: Kristján Þórður Hrafnsson

Leikstjórn: Selma Björnsdóttir

Tónlist: Jón Jónsson og Friðrik Dór

Leikmynd: Finnur Arnar Arnarson

Búningar: María Th. Ólafsdóttir

Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson

Tónlistarstjórn og útsetningar: Karl Olgeirsson

Hljóðhönnun: Kristinn Gauti Einarsson og Kristján Sigmundur Einarsson

Sviðshreyfingar: Þórey Birgisdóttir

Leikarar: Aron Már Ólafsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Stefán Hallur Stefánsson, Edda Björgvinsdóttir, Örn Árnason, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Jóhann G. Jóhansson, Guðjón Davíð Karlsson, Þröstur Leó Gunnarsson, Atli Rafn Sigurðarson, Björn Ingi Hilmarsson, Sigurður Sigurjónsson, Hákon Jóhannesson, Bjarni Snæbjörnsson, Hilmir Jensson, Davíð Þór Katrínarson, Ágúst Örn B. Wigum, Ragnheiður Steindórsdóttir, Þórey Birgisdóttir, Eygló Hilmarsdóttir og Skotta.

Shakespeare verður ástfanginn – Shakespeare in love – byggir á leikgerð Lee Hall, sem byggir á handriti eftir Marc Norman og Tom Stoppard sem kvikmyndað var og frumsýnt undir lok síðustu aldar og vakti feykivinsældir, enda einvalalið leikara sem þar fór með vel saminn texta sem sótti innblástur í texta og tíma Shakespeares og samtímahöfunda hans, einkum Christopher Marlowes, sem einnig var frægt leikskáld þá, en hlaut aldrei viðlíka vinsældir og Vilhjálmur sjálfur – sem varð og er eitt ástsælasta leikskáld veraldar! Eða í það minnsta hins vestræna heims.

Shakespeare verður ástfanginn er rómantískur gamanleikur og því hefur svosem verið haldið fram að hann hafi fyrst og fremst verið skapaður handa þeirri kynslóð kvenna (35+?) sem heldur menningunni uppi og sækir gjarnan í rómantík og gleði, kannski til að gleyma sinni leiðinlegu millistéttartilveru og ástlausu hjónaböndum. Ekkert skal þó fullyrt um það hér, en þó er óhætt að staðfesta að Shakespeare verður ástfanginn er vissulega rómantískur gamanleikur og ekki heyrðist eða sást betur á frumsýningu Þjóðleikhússins en að hann væri bara ágætlega saminn og auk þess vel og lipurlega þýddur af Kristjáni Þórði Hrafnssyni.

Auglýsing

Um sýningu Þjóðleikhússins verður það einkum sagt að leikhústæknin bæði ber af og ber sýninguna sem slíka ofurliði. Svo litið sé fyrst á söguþráðinn, þá hefst Shakespeare verður ástfanginn á því að hinn ungi og óþekkti Shakespeare þarf sakir skulda að skila af sér handriti að leiksýningu – hann þjáist hins vegar af ritstíflu og kemst ekkert áleiðis fyrr en tvennt gerist í lífi hans: starfsbróðir hans, Christopher Marlowe, kemur honum til hjálpar og ýtir sköpunargáfu hans úr vör og svo verður hann yfir sig ástfanginn af hinni fögru aðalsmær Víólu og sú ást leysir krafta hans úr læðingi og gerir honum kleift að halda skrifunum áfram. Víóla er vissulega yfir sig hrifin af Shakespeare en það er öðru fremur ást hennar á leiklistinni og draumurinn um að gerast leikari sem knýr hana – en eins og þekkt er var leikhúsið konum lokaður heimur á tímum Shakespeares. Það kemur í ljós að Shakespeare karlinn skuldar fleiri leikhúsjöfrum peninga uppá loforð um handrit og nú verður hann alldeilis að leika mörgum skjöldum til að halda æru og lífi. Það sjónarspil kostar á endanum bæði ástina hans, hana Víólu, og líf hollvinar hans, Christopher Marlowes, og þótt Shakespeare haldi lífi í lok leiksins hefur hann endanlega tapað æru sinni og sakleysi, enda kennir hann sér um sviplegan dauða Marlowes. Endirinn er sumsé frekar angurvær, en þökk sé Elísabetu I, Englandsdrottningu, fellur allt í ljúfa löð áður en yfir lýkur og Vilhjálmur og Víóla fá hvort annað um það leyti sem tjaldið fellur.

Aron Már Ólafsson í hlutverki Shakespeare. Mynd: Þjóðleikhúsið

Þetta er sumsé ljúfur rómantískur gamanleikur með angurværu ívafi. Slíkir leikir geta verið einkar þekkilegir og eiga reyndar oftar heima á fjölum einkaleikhúsa erlendis en virðulegra þjóðleikhúsa, en það fer lítið fyrir einkaleikhúsmenningu hér á landi og því hefur sá misskilningur einatt vaðið uppi að það væri hlutverk Þjóðleikhúss Íslendinga að standa skil á þess konar leiklist, sem margir kalla „léttmeti“. Það má ræða, enda þykir kannski hverjum sitt um það; hins vegar má vísa til reglugerðar um hlutverk Þjóðleikhúss þar sem segir um hlutverk þess:

“… að sviðsetja árlega fjölbreytt úrval innlendra og erlendra sjónleikja, glæða áhuga lands¬manna á leiklist, auðga leikhúsmenningu í landinu og stuðla að þróun sviðslista með því að efla íslenska leikritun og hlúa að nýsköpun á vettvangi leiklistarinnar. Þjóð¬leik¬húsið skal leggja sérstaka rækt við íslenska tungu og kappkosta að vera til fyrirmyndar um listrænan flutning leikverka.”

Það er skoðun undirritaðs að það er ekkert að því að Þjóðleikhús Íslendinga taki „léttvæga“ leiklist upp á sína arma. Það má vel hugsa sér að það „glæði áhuga landsmanna á leiklist“ og lífið er nú einu sinni fjölbreytilegt og má eflaust fela í sér að það sé hluti af skyldum þjóðleikhúss að sýna einn og annan rómantískan gamanleik með angurværu ívafi. Það er því einkar leitt að þess sér engin merki, hvorki í leikstjórn eða leik, að Shakespeare verður ástfanginn sé þess konar leikur. Hér vantar nefnilega átakanlega þrennt: rómantík, gaman og angurværð.

Það skal tekið fram, að sýning Þjóðleikhússins á Shakespeare verður ástfanginn er að mörgu leyti vel gerð og vönduð. Leikmynd Finns Arnar Arnarsonar er listavel gerð, nýtir til fulls sviðsrýmið og er auk þess hluti af frásögninni og á ekki lítinn þátt í að fleyta henni áfram. Það er gaman að sjá slíkt og þá ekki síður gaman að sjá hugmyndaríka og stílhreina lýsingu Ólafs Ágústs Stefánssonar; reyndar hefði sá sem þetta ritar gjarnan viljað sjá ívið betur andlit persóna verksins á forsviði, en það má flokka undir aðfinnslu þess sem farin er að daprast sjón, auk þess sem virtist eitthvað misráðið að lýsa með appelsínugulum blæ þegar persónurnar í atriðinu tala um að þær njóti birtu af mána. En þetta má kannski flokka undir smáatriði og smámunasemi af hálfu undirritaðs. En undir býr stærra vandamál.

Mynd: Þjóðleikhúsið

Tónlist Jóns Jónssonar og Friðriks Dórs er smekkleg svo langt sem hún nær, en hún ögrar hvergi rómantíkinni í gamanleiknum, skapar hvergi spennu og er á köflum óþægilega truflandi þar sem hún er látin óma undir samræðum persónanna á sviðinu, rétt eins og þegar verið er að skapa stemningu í kvikmynd.

Búningar Maríu Th. Ólafsdóttur eru fallegir og lyfta fram eins vel og hægt er tímabili sögunnar en ekki verður sagt að þeir hjálpi til við að skilja þá sögu sem verið er að segja; það verður ekki séð að neinn búningur geri meira en að setja karakter sinn í ákveðið tímabil og þar með búið.

Hér má þegar finna ákveðið misræmi í listrænni stefnu leiksýningarinnar: Leikmyndin er beinlínis hluti af framvindu sögunnar með hreyfingum sínum og þeim blæ sem skapast þegar hún er lýst á mismunandi hátt. Búningarnir, þótt fagrir séu, staðsetja tímabilið, en gefa ekkert í skyn um innbyrðis samhengi persóna, markar þeim aðeins ógreinilega stað í söguþræði og félagslegu samhengi – sem var þó nokkuð mikilvægt á þessum tíma.

Þegar kemur að leiknum er viðlíka stefnuleysi, svo ekki sé talað um reiðileysi, á ferðinni. Þó skal getið um frammistöðu nokkurra leikara, sem tekst að skara fram úr og sýna hvað um ræðir: Þröstur Leó Gunnarsson leikur Fennyman, einn af fjármálamönnunum og þróast yfir í að verða gripinn löngun til að taka þátt í uppfærslu leikritsins, sem loks hefur verið skrifað. Þröstur Leó glæðir þennan karl lífi, sál, rödd og önd þannig að í hvert sinn sem hann birtist þokar hann áleiðis stemningu og karakterinn fær þrívídd, hæð, dýpt og breidd. Auk þess heyrist hvert orð sem af hans munni hrýtur, skýrt, greinilega og mælt fram af innlifun með öllum þeim blæbrigðum sem þarf.

Þá er Lára Jóhanna Jónsdóttur ekki síðri þegar kemur að sköpun karakters, hún leikur hina fögru Víólu og fer léttilega með þótt hún ætti í nokkrum vandræðum með talandann og burð raddar í upphafi, setti hljóminn helstil ofarlega í brjóstkassann sem dró úr mætti hljómbotns. Hins vegar átti hún í engum vandræðum með rödd eða raddbeitingu þegar hún brá sér í gervi alter egós Víólu og varð leikarinn Thomas Kent; þar sýndi Lára Jóhanna að hún hefur giska gott vald á þeim tæknilegu meðulum leikarans sem þarf til að glæða karakter lífi – og ekki svo lítilli kómík!

Aðrar persónur verksins urðu frekar máttlitlar þegar kemur að karaktersköpun. Meira að segja gamalreyndir leikhúsrefir eins og Örn Árnason og Sigurður Sigurjónsson fengu lítil tækifæri til að sýna hvers þeir eru megnugir og það má telja nokkurt afrek – eða ekki! – þegar tekst í einni sýningu að láta þá skila miðlungsverki!

Hvað sem segja má um einstaka ljósa punkta, líður sýningin fyrir það að enginn virðist vita hvaða sögu er verið að segja, né heldur hvort verið sé að setja á svið leikverk eða herma eftir kvikmynd. Hinir mismunandi þræðir sögunnar fá allir sama vægi, sem veldur því að áherslur hvers atriðis fara forgörðum vegna þess að þær verða jafnar og missa þar með gildi sitt sem áherslur, sem vörður sem fleyta sögunni áfram og gera okkur áhorfendum kleift að greina hismið frá kjarnanum. Hér er hreinlega enginn fókus, allt jafn óskýrt.

Auglýsing

Þessu má lýsa með tilvitnun í sýninguna sjálfa: Fennyman Þrastar Leó hrópar upp yfir sig þegar hann fær að vita að hann eigi að leika hlutverk lyfsalans: „Ég skal LEIKA lyfsa ... Nei, ég skal VERA lyfsalinn!“ – og gerir þar með grein fyrir því hvað felst í því að vera ekta á sviði. Betur að upphrópun Fennymans hefði fengið að vera einkunnarorð sýningarinnar allrar!

Allt þetta klúður – því klúður hlýtur þetta að kallast! – verður því miður að skrifast á verkstjórann og hinn listræna stjórnanda, leikstjórann Selmu Björnsdóttur. Hún er að mörgu leyti lipur verkstjóri og tekst nokkuð örugglega að halda góðum anda og stemningu með sínu liði. Það hefur hún sýnt gegnum tíðina. Það eru líka allir í stuði í sýningunni, það vantar ekki – en hér vantar átakanlega það sem kallað er persónuleikstjórn og auga fyrir því sem skapar samúð áhorfenda með persónum leiksins: ekta tilfinningu, fram borinni í einlægni og af auðmýkt. Þannig má í fáum og fátæklegum orðum lýsa list leikarans þegar hún rís hæst og áhorfendur láta hrífast með, ganga sögunni á vald og láta sig örlög persónanna sig einhverju varða.

Í Shakespeare verður ástfanginn ber því miður ekkert á því. Ég hef áður gagnrýnt Selmu fyrir að dekra við það sem kalla má retórískan leikstíl, þar sem lögð er minni áhersla á tilfinningalíf persónanna. Þetta var mein í sýningunni um Ronju ræningjadóttur, þar sem andi Astridar Lindgrens fór forgörðum vegna upphafins ræðustílstalanda; hér hverfur rómantíkin eins og dögg fyrir sólu og gamansemin fer fyrir lítið – svo ekki sé minnst á angurværðina elskulegu! – þegar leikarar byrja að belgja sig upp og æpa textann með tilheyrandi handapati og látum sem eiga ekkert skylt við karaktersköpun. Það er sömuleiðis nokkurt afrek – eða ekki! – þegar beinlínis er verið að flytja gamanleik!

Verst bitnar þetta þó á leikaranum í titilhlutverkinu, Aroni Má Ólafssyni. Hann er ungur leikari og hefur hér fengið tækifæri sem fáum hlotnast. Aron Már er kröftugur leikari með góða nærveru á leiksviði og á vel að geta valdið því hlutverki sem honum er trúað fyrir og sem hann skilar eins vel og hann hefur burði til, en hér hefur hann verið illilega svikinn um þá persónuleikstjórn sem hefði getað forðað honum frá verstu villunum þegar kemur að raddbeitingu og raddhljóm sem og sannfæringu í raddbeitingu og meðferð texta. Það verður ekki nógu oft á það bent, að það er á ábyrgð listrænnar stjórnar sýningar og stjórnar leikhússins sjálfs, að skilja ekki unga leikara sem eru enn í mótun úti á túni hvað þetta varðar.

Í Shakespeare verður ástfanginn er veðjað 50 pundum – óheyrilegri upphæð á tímum Shakespeares! – um það hvort leiklistin geti breytt viðhorfi manns til ástarinnar. Sýning Þjóðleikhússins gerir það ekki, því miður.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiFólk