Borgarleikhúsið: Sex í sveit
Höfundur: Marc Camoletti
Íslenskun og staðfærsla: Gísli Rúnar Jónsson
Leikstjórn: Bergur Þór Ingólfsson
Leikmynd: Petr Hloušek
Búningar: Stefanía Adolfsdóttir
Leikgervi: Guðbjörg Ívarsdóttir
Hljóð: Þorbjörn Steingrímsson
Leikendur: Jörundur Ragnarsson, Sólveig Guðmundsdóttir, Sigurður Þór Óskarsson, Vala Kristín Eiríksdóttir, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Haraldur Ari Stefánsson.
Það er óskiljanlegt að Borgarleikhúsið skuli draga upp úr kjallarageymslum sínum slitinn og aflóga gamanleik löðrandi í afdönkuðum staðalímyndum um kyn og kynhlutverk. Það hefði verið sök sér ef ætlunin hefði verið að sýna þessar gamalkunnu klisjur og fordómafullu mannsýn í nýju ljósi, bregða á þetta hugmyndafræðilega drasl einhverju nýju sjónarhorni í því skyni að fletta ofan af því, mannfyrirlitningunni sem það miðlar, innihaldsleysi þess, gagnsleysi og hreinlega skaðsemi. En hér er engu slíku til að dreifa. Sex í sveit er sett upp að því er virðist vegna þess að það var sett upp fyrir einhverjum áratugum og varð vinsælt þá. Í alvöru??? Er hægt að finna aumari afsökun fyrir verkefnavali??? Eiga áhorfendur ekkert betra skilið?
Það er sömuleiðis hreint ótrúlegt að leikstjórinn, Bergur Þór Ingólfsson, skuli setja nafn sitt við þetta verkefnaval og vinnslu þess fyrir leiksviðið; hann hefur öðrum fremur farið hamförum í að fletta ofan af karlpungum og kynferðisafbrotamönnum í anda metoo-hreyfingarinnar en á nú allt í einu þátt í að bera á borð fyrir almenning hluta af þeirri andlegu næringu sem slíkir menn nærast á og sem myndar þeirra samfélagslegu og andlegu innviði. Með fullum stuðningi og á kostnað Borgarleikhússins, sem er að minnsta kosti að hluta til rekið fyrir almannafé. Hér hefur dómgreindin svo sannarlega tekið sér ærlegt frí, svo mikið er víst. Og óþarfi að hafa um það fleiri orð – en skömmin hverfur ekki úr veggjum Borgarleikhússins í bráð!
En svo vikið sé að öðru: Hvernig tekst svo til með leikinn, hvað sem líður því hugmyndafræðilega hrati sem hann er gegnumsýrður af?
Söguþráðurinn er eins og vera ber í farsa, hæfilega einfaldur en þó þannig að hægt sé að flækja hann þar til allt virðist komið í óleysanlegan hnút sem síðan leysist á endanum þannig að allt falli í ljúfa löð. Hér er það Benedikt, leikinn af Jörundi Ragnarssyni, vel efnaður og velgiftur, sem getur varla beðið eftir því að eiginkonan Þórunn, leikin af Sólveigu Guðmundsdóttur, komi sér út á flugvöll til að fljúga til Egilsstaða til að annast veika móður sína. Benedikt er á nálum af því hann á von á ástkonunni Sóleyju, leikinni af Völu Kristínu Eiríksdóttur ásamt besta vininum Ragnari, leiknum af Sigurði Þór Óskarssyni; ætlunin er að eiga kósíhelgi í sumarbústaðnum með ástkonunni og vinurinn Ragnar er skálkaskjólið sem á að þykjast vera kærasti viðhaldsins ef á þarf að halda.
Hér er reyndar veikleiki í söguþræði: Ef eiginkonan er á förum, af hverju þarf þá Ragnar að koma líka til að vera eins og þriðja hjólið í ástarævintýri Benedikts? Jú, þegar Þórunn eiginkona fréttir að von sé á Ragnar vill hún hvergi fara af því að Ragnar er nefnilega viðhaldið hennar. Þetta stenst auðvitað enga skoðun, en má svo sem leyfa sér í farsa – en til að fela slíkar veilur í söguþræði færi betur á að velja annan leikstíl en hér er gert og verður vikið að síðar.
Nú stefnir í að margir vilji eiga kósíhelgi í bústaðnum og hættan blasir við að flett verði ofan af mörgum leyndarmálum. Inn í þennan söguþráð fléttast svo veisluþjónustukokkurinn Sólveig, sem leikin er af Katrínu Halldóru Sigurðardóttur og í litlu hlutverki í lokin birtist eiginmaður hennar, Benóný, leikinn af Haraldi Ara Stefánssyni.
Það er segin saga í farsa að persóna, sem lendir í vandræðum vegna lygi grípur til annarrar lygi til að forða sér úr vandræðunum og kemur sér þá einfaldlega í enn verri vandræði. Það er nákvæmlega þetta sem gerist allan fyrri hluta leiksins. Benedikt grípur til uppspuna, skreytni, skröks, ósanninda og lygi til að forða því að Þórunn komist að leyndarmálinu um ástkonuna; í vel leiknum farsa gerist þessi stigmögnun létt og lipurlega, Benedikt ætti í raun að finnast hann hafa aðstæður á valdi sínu, enda bendir glæsileikinn í sumarbústaðnum til þess að hann þurfi ekki að biðjast afsökunar á sjálfum sér. Og bendir það ekki til nokkurs sjálfsöryggis og vellíðunar í eigin ríkidæmi að geta leyft sér að gefa ástkonunni pels uppá einar litlar sexhundruðþúsund? Þess vegna kemur það ankannalega fyrir sjónir að Benedikt er eins og á nálum frá upphafi, taugaveiklaður og trekktur og hagar sér eins og unglingur sem ekki vill láta standa sig að laumureykingum! Benedikt er eins langt og hægt er frá því að vera sá valdsmannslegi karlhrútur sem finnst ekkert eðlilegra en að hann eigi sér ástkonu og viðhald. Með þessari lögn verður enginn þróun í karakternum, hann verður einvíður og fyrirsjáanlegur.
Þótt hér hafi Benedikt verið tekinn sem dæmi má svipað segja um aðrar persónur leiksins, einkum þau Ragnar og Þórunni. Þau eru frá upphafi í alltof upptrekktu hugarástandi, sektin geislar af þeim og það er alveg augljóst hverjum sem sjá vill að það er eitthvað ekki í lagi. En persónurnar sjá ekki það sem blasir við áhorfendum, enginn virðist vera upptekinn af neinu öðru en að fela sitt eigið leyndarmál. Með slíkum tökum verður enginn stígandi, engin vaxandi spenna og botninn dettur úr samleik og úr verður fremur afkáralegur ofleikur á köflum sem fær svo á sig fjarstæðukenndan blæ þegar Sólveig veisluþjónustukokkur birtist. Katrín Halldóra Sigurðardóttir hefur svo sannarlega sýnt og sannað að hún er stórkostleg gamanleikkona, en hér hefði svo sannarlega mátt draga úr látunum, þegar hún birtist í útidyrunum í mótorhjólagalla og gengur inn í húsið með stórkarlalegu, vaggandi kúrekagöngulagi – sem ber svo ekkert á þegar á leikinn líður!
Hér hefði á heildina litið þurft að beita mun léttari og tilgerðarminni leikstíl. Persónur eins og Benedikt, Þórunn og Ragnar verða fyndnar þegar þær missa tökin á aðstæðum eftir að hafa lengi barist við að láta eins og ekkert sé að. Svo gripið sé til líkingar úr myndmáli þöglu myndanna: Það er ekkert fyndið að sjá mann sem hefur fallið eftir að hafa stigið á bananahýði. Það er fyndið að sjá mann ganga í áttina að bananhýði og finna spenninginn yfir spurningunni hvort hann muni stíga á það eða ekki, hvort hann muni falla eða ekki. Spenningurinn er þeim mun meiri eftir því sem maðurinn er valdsmannslegri, því ekkert er fyndnara en að sjá ríkan mann verða fyrir skakkafalli. Enn fyndnara verður það ef hann sleppur hjá bananahýðinu en fellur í enn dýpri gryfju fulla af skítugu vatni sem enginn sá fyrir og sem hann þarf svo að klöngrast upp úr.
Þegar tjaldið er dregið frá í Sex í sveit hafa lykilpersónur verksins þegar dottið um bananahýðið – og fallið í gryfjuna að auki. Þegar þannig er fer húmorinn fyrir lítið, það er ekkert sérlega fyndið að koma þar að í söguþræði þar sem persónur leiksins eru að paufast upp úr drullupollinum.
Vala Kristín Eiríksdóttir á auðveldara viðfangs í hlutverki Sóleyjar ástkonu en geldur að sama skapi fyrir það hvað hún er af hálfu höfundar mikið bimbó. Hlutverkið hefði örugglega mátt gera beittara og fyrst textinn var staðfærður og aðlagaður íslenskum nútíma hefði að minnsta kosti Sóley mátt vera sterkari rödd hinnar almennu skynsemi, sem líka verður að vera til staðar í almennilegum farsa.
Þegar litið er á umgjörð verksins má segja að leikmyndin er helstil yfirþyrmandi og óhentug, fjarlægðir eru miklar og erfitt að skapa þá nánd sem getur orðið hættuleg þegar allir eru að ljúga hver að öðrum. Þá má einnig benda á, að snjallheimilið, „google home“, hefði mátt fá tilgang í gegnum alla sýninguna, þetta er sniðug hugmynd í upphafi en fjarar út og nýtist ekki atburðarásinni.
Jæja.
Með tilvísun í upphaf þessarar gagnrýni og það sem sagt er um hugmyndafræði sögunnar og leiksýningarinnar er óhjákvæmlegt annað en að beina þeim tilmælum til stjórnenda Borgarleikhússins að taka þessa sýningu af dagskrá. Hún er einfaldlega ekki Borgarleikhúsi sæmandi – allra síst í ljósi þess sem á undan er gengið!