RaTaTam í samvinnu við Bogarleikhúsið: HÚH! Best í heimi
Höfundur: RaTaTam
Leikstjórn: Charlotte Bøving
Leikmynd og búningar: Þórunn María Jónsdóttir
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson
Hljóðmynd og tónlist: Helgi Svavar Helgason og RaTaTam
Myndbönd: Aron Martin Ásgerðarson
Leikarar: Albert Halldórsson, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Guðrún Bjarnadóttir, Halldóra Rut Baldursdóttir, Hildur Magnúsdóttir.
RaTaTam hefur á undanförnum árum sett á svið sýningar um áleitin samfélags- og tilfinningamál: heimildasýningin Suss! var samin af leikhópnum og fjallaði um heimilisofbeldi, Ahhh ... byggði á textum Elísabetar Jökulsdóttur og þar var meginþemað ástin í mismunandi myndum. Báðar þessar sýningar voru líkt og ferskur andblær í íslenskt leikhúslíf enda brá við öðruvísi efnistökum en venjan er. Kannski má það þakka því að leikstjóri hópsins, Charlotte Bøving, er af dönsku bergi brotin og hefur því hugsanlega annað sjónarhorn en íslenskt samstarfsfólk hennar. Þótt margt af okkar íslenska leikhúsfólki sæki sér menntun erlendis eru rætur þess óhjákvæmilega tengdar íslenskum jarðvegi, íslenskri menningu og íslenskum andlegum innviðum sem að sjálfsögðu móta einstaklinginn og setja mark sitt á starf hans – sem hugsanlega má ögra fyrir tilstilli listræns stjórnanda með sterka, vel mótaða og sjálfstæða sýn á viðfangsefnið og skýra aðferðafræði hvað varðar með hvaða listrænu meðulum skuli úr efninu unnið. Ekki skal frekar fjölyrt um það hér, enda krefst það ítarlegri rannsókna en kostur er í stuttri og hraðsoðinni gagnrýni.
Nú hefur RaTaTam skapað þriðju sýningu sína sem sækir efni í samfélag og sjálfsvitund og hefur að þessu sinni yfirgefið heimilislegt leiksvið Tjarnabíós og hafið samstarf við Borgarleikhúsið og leikur á Litla sviðinu. Vistaskiptin eru mögulega til bóta; þó væri það sár þróun ef Tjarnarbíó endar á því að verða eins konar fæðingardeild fyrir stóru leikhúsin, sem hirða til sín „áhugaverðustu” hópana. Það er kannski ástæða til að hvetja sjálfstæðu leikhópana til að móta sér einhvers konar stefnu í þessum málum til að forðast að verða leiksoppar í þróun sem stýrist af stóru leikhúsunum, því fjármagni sem þau fara með og valdi þeirra á hinu listræna sviði. En þetta má skoða sem útúrdúr.
HÚH! Best í heimi er stutt, hnitmiðuð og áleitin leiksýning sem fjallar um muninn á þeirri sjálfsímynd sem við vörpum út í kosmósið og þeim ímyndum sem við gerum okkar besta til að fela og kjósum að halda útaf fyrir okkur. Þar finnum við kvíðann, höfnunina, skömmina, og mótlætið sem heltekur líf okkar og sem við erum reiðubúin að leggja ýmislegt og margt í sölurnar fyrir að opinbera aldrei. Sýningin samanstendur af nokkrum sögum þar sem hver persóna leiksins er í fyrirrúmi og fullyrt er að allar séu sögurnar sannar; um það skal ekkert fullyrt, en þó tekið fram, að hver einasta saga var fram sett á einlægan og trúverðugan hátt sem styður fullyrðinguna um sannleikann – hins vegar má minna á tilvitnun í leikskrá, þar sem segir:
„Sögur eru uppfinning mannsins. Allar sögur eru ósannar, einmitt vegna þess að þær eru sögur.“
Þessi tilvitnun ku vera sótt í bók ísraelska sagnfræðingsins og heimspekingsins Yuval Noah Harari sem ber hið ögrandi heiti „21 lessons for the 21st Century” eða „21 hugmynd um 21. Öldina“ (enska orðið „lesson” þýðir vissulega „kennslustund”, en Harari er meira í mun að vekja til umhugsunar en „kenna” lesendum sínum; því vel ég orðið „hugmynd”, sem er auk þess í samræmi við sænskt heiti bókarinnar) og um Harari má sannlega segja að hann er höfundur sem kann að ögra og vekja upp spennandi hugsanir með lesendum sínum. Hann vakti m.a. máls á þeirri hugmynd í bók sinni „Sapiens. A brief history og Mankind” að þegar akuryrkjutímabil hófst og maðurinn fór að sá hveiti skipulega hafi maðurinn í raun farið að þjóna hagsmunum hveitisins og að hveitið hafi þannig breytt lífsháttum mannsins. Slíkur umsnúningur sjónarhorns eggjar óneitanlega til skapandi hugsunar og HÚH! Best í heimi sækir ómælda næringu í slíkan umsnúning.
Ákveðnum lykilorðum er varpað upp á skjá fyrir ofan höfuð leikenda – það er auðvelt að missa af þessum hluta sviðsmyndarinnar, en á þessum skjám birtast eins konar lyklar að orðum og athöfnum leikendanna í þeim atvikum sem um er fjallað. Nokkur dæmi:
- „Dugnaður”
- „Fullkomin skírnarveisla”
- „Ég vil bara vera elskuð”
- „Margir þeir sem fá ávísað þunglyndislyfjum fá jafnframt örvandi lyf”
- „Ég er ekki nóg”
- „Líkamsskömm”
- „Hvar er Raufarhöfn”
Eins og sjá má á þessum fáu dæmum, er víða drepið fingri á samfélagsástandið og líðan einstaklingsins innan þess samfélags. Og þótt fyrirsagnirnar geti virst sundurleitar og komi eins og fljúgandi sitt úr hvorri áttinni, tekst leikhópi og leikstjóra furðu vel að mynda rauðan þráð og samhengi í samfélagsrýnina sem er bæði beitt, nákvæm og fyndin. Því fyndin, það er sýningin og er reyndar tónninn sleginn þegar í heiti hennar, HÚH! vísar í víkingaklappið margfræga og framhaldið, „best í heimi” til alræmds þjóðarhroka; vantar ekki nema „miðað við höfðatölu” og þá verður greinilegt í hve tómri tunnu hér bylur.
Það er ekkert sérstaklega auðvelt að vera Íslendingur, hvað þá ungur Íslendingur, svo ekki sé talað um að vera ungur kvenkyns Íslendingur þegar þarf að vega sig og meta andspænis þeirri andlegu kúgun sem slík viðmið eru í raun (reyndar ber blessunarlega lítið á kynjamismun í þeirri mynd sem hér er máluð upp og það bendir til þess að leikhópurinn og leikstjóri líti á málið sem sammannlegt og það er vel!)
Við búum í heimi þar sem allt fer fram á ofsahraða, kyrrðarstundir þurfa að vera þrælskipulagðar inn í annasama og þrönga dagskrá þar sem allt á að bera þess vitni að við séum meðða – svo aftur sé vísað í leikskrá sýningarinnar, þar sem knappur texti myndar eins konar stefnuskrá eða grunnviðhorf sýningarinnar.
Ekki verður svo um HÚH! Best í heimi fjallað öðruvísi en að nefna leikmynd og búninga Þórunnar Maríu Jónsdóttur. Hún hefur áður unnið með RaTaTam í Suss! og Ahhh ... og það er óhætt að segja að bæði leikmynd hennar og búningar mynda órjúfanlegan hluta af þeirri sögu, sem sögð er. Hér er rými Litla sviðs Borgarleikhússins nýtt til fullnustu og góðir möguleikar skapaðir og nýttir til fjölbreytilegs hreyfimynsturs; leikmyndin og leikrýmið takmarkar hvergi möguleika á óvæntum staðsetningum, tilfærslum og inn- og útkomum heldur ýtir undir þá hugsun að lífið sé frekar flókið og krefst þess að vera ekki sett á afmarkaðan bás. Þetta styrkist enn frekar með kaðalstiganum sem gerir leikurum kleift að fara upp á svalir Litla sviðsins; sú fjarlægð og sá hæðarmunur sem þar með skapast eykur við vídd sögunnar og það verða á köflum ákaflega fyndin atriði sem þannig skapast. Búningarnir eru litríkir og fjölbreytilegir í sama anda og lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar fellur vel að leikrými og leik.
Hljóðmynd og tónlist Helga Svavars Helgasonar og leikhópsins er í öndvegi í sýningunni og veitir dýpri skilning á efni auk þess sem tónlistin skapar, styrkir og eflir þann kómíska tón sem einkennir sýninguna frá upphafi til enda.
Margt mætti segja um frammistöðu leikaranna í sýningunni; þeir segja hver sína sögu og fullyrt er að þær sögur séu allar sannar. Má vera og skiptir kannski ekki höfuðmáli. Meira er um vert að þær falla allar að okkar íslenska veruleika og eru hér fram settar af kostulegu innsæi, íróníu og húmor – og óendanlegri ást á manneskjunni. Leikhópurinn er svo jafn í frammistöðu sinni að engum einum eða fáum verður hér hampað. Hins vegar skal vakin athygli á einu, býsna mikilvægu atriði, en það er beiting raddar og meðferð hins talaða máls. Hér hafa leikstjóri og leikhópur unnið kraftaverk, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Það er auðfundið að hver einasti leikaranna lítur á röddina sem mikilvægt verkfæri; leikhópurinn allur mætir til leiks með þjálfuð og vel ydduð talfæri og það er hreint ótrúlegt að heyra hvers hver leikari er megnugur þegar kemur að röddinni og blæbrigðum hennar og hve fjölbreytileg raddbeitingin er og flæðið fallegt á milli tals og söngs. Þá er ekki síður mikils vert að hópurinn hefur að fullu leyti aðlagað raddmyndina að Litla sviðinu, þannig að engu skiptir hvar hver er, það heyrist skýrt til allra og hver einasti tónn, talmáls eða söngs, á sér tilgang í flutningi hverrar sögu.
HÚH! Best í heimi er sýning sem á erindi við nútímamanninn, og hver sem finnur til nútímamannsins í sjálfum sér gerir sjálfum sér gott að horfa á sig og umheiminn með írónískum sjónglerjum RaTaTam.