Tjarnarbíó í samvinnu við Óskabörn ógæfunnar: Rocky
Höfundur: Tue Biering
Leikstjórn: Vignir Rafn Valþórsson
Leikmynd og búningar: Enóla Ríkey
Ljós: Jóhann Bjarni Pálmason og Magnús Thorlacius
Hljóð: Ísidór Jökull Bjarnason
Leikarar: Sveinn Ólafur Gunnarsson, Sveinn Óskar Ásbjörnsson
Hver kannast ekki við söguna af minnipokamanninum sem uppgötvar allt í einu að jafnvel hann gæti staðið uppi sem sigurvegari ef rétta tækifærið býðst og hann sjálfur ákveður að leggja allt í sölurnar til komast á verðlaunapallinn?
Hér er hugtakið minnipokamaður notað sem íslenskun á enska hugtakinu „underdog”, sem er sá einstaklingur sem almennt er talinn að tapa muni keppni. Upphaflega varð hugtakið til í kringum hundaat á seinni hluta átjándu aldar og „underdog” var þá sá hundur sem menn bjuggust við að myndi tapa hundaatinu meðan „top dog” var álitinn líklegur sigurvegari. Það álit stjórnaði síðan því á hvorn hundanna var veðjað.
Þetta er velþekkt þema í sagnaheiminum, hinum goðsögulega sem og hinum veraldlega, enda hvað er lífið nema keppni – sem þýðir þá væntanlega að sumir muni vinna og aðrir muni óhjákvæmilega tapa. Það er sum sé allt morandi í minnipokamönnum og spurningin hvort maður sjálfur lendi í þeirra hópi eða standi uppi sem sigurvegari. Minnipokamenn eru líka býsna fjölskrúðugur hópur: Það má nefna Hans klaufa, flæking Chaplins, Davíð sem barðist gegn Golíat. Það mætti jafnvel nefna Fjalla-Eyvind úr okkar eigin sagna- og bókmenntaheimi og svo má nefna alla þá, sem láta heltakast af ameríska draumnum og telja að þeir muni meika það – eins og Rocky. Allt eru þetta minnipokamenn sem eiga sér draum, lítt líklegir til að láta drauminn rætast, en svo gerist það einsog fyrir kraftaverk að draumurinn rætist þrátt fyrir allt og gæfan blasir við þeim. End of story. Allir glaðir.
Og hvað gerist þá? Hvað gerist ef minnipokamanninum nægir ekki kraftaverkið, að hafa unnið sigur, ef það er ekki nóg að gæfan blasi við honum á sama hátt og hún blasir við „okkur”? Hvað gerist ef hann vill hefna sín á „okkur”, sem áður neituðu að trúa á hann, fannst fjarstæðukennt að hann gæti hafið sig upp af botninum og komist til metorða? Ef Hans klaufi hefndi sín á bræðrum sínum, ef flækingur Chaplins léti vitlausu lögguna og ríkisbubbann finna til tevatnsins, ef Davíð hefði útrýmt Filistunum?
Þetta er sú hugsun sem danska leikskáldið, leikstjórinn og leikarinn Tue Biering lagði upp með þegar hann fór að rýna í söguna af Rocky, hnefaleikakappanum sem Sylvester Stallone hefur leikið í átta kvikmyndum (sú níunda mun vera í vinnslu). Rocky er í upphafi dæmigert fórnarlamb hins ameríska draums, hann fær þá flugu í höfuðið (Rocky I og II) að hann geti jafnvel sigrað hinn óviðjafnanlega Apollo Creed – og gerir það á endanum. Tue Biering leyfir þessari sögu að halda áfram og sýnir hvernig hún gæti þróast í okkar nútíma – og það er allt annað en fögur upplifun.
Hin ósköp sakleysislega saga um minnipokamanninn sem meikar það líkt og snýst upp í öndverðu sína og verður að því sem er mun hættulegra og erfiðara viðureignar. Er kannski hægt að tala um “siðrof” – sem virðist vera umræða sem líkt og óvart hefur komist upp á yfirborðið?
Rocky finnur sig vera minnipokamanns og til þess að sigrast á þeirri tilfinningu verður hann að vinna með sjálfsvirðingu sína. En virðing – og þá ekki síður sjálfsvirðing – er varhugavert vopn. Ef maður eflir sjálfsvirðinguna og upphefur með því sjálfan sig, felur það þá ekki í sér að virðing manns gagnvart „hinum” þverr að sama skapi. Þar er að finna hina spennandi mótsögn sem Tue Biering tekur fyrir og tengir við nútímann. Skyndilega verður saga Rockys óþyrmilega áleitin, hún fjallar um þann veruleika sem blasir við okkur sjálfum.
Sú saga sem sögð er í Rocky Tue Bierings er afar sannfærandi, og er bæði vel byggð og undirbyggð. Hún er harmræn í þeim skilningi að þegar Rocky eygir loks möguleika á að takast á við – og jafnvel sigra!!! – ofurmennið Apollo Creed verður hvergi aftur snúið, örlögin taka við taumunum og stýra för til hinna harmrænu endaloka. Uppreisn minnipokamannsins Rocky beinist gegn okkur, góða fólkinu, okkur sem sitjum í salnum! Þessu venjulega fólki sem vill ekkert nema velja hvaða hvítvín skal drukkið með humarnum í kvöld – slagur Rockys er ekki okkar slagur, en við eigum engrar undankomu auðið. Örlög okkar, góða fólksins, eru innsigluð um leið og Rocky rís upp með sjálfsvirðinguna að vopni.
Rocky er óþægileg sýning. Hún kemur við kaunin á manni og ónotin verða raunveruleg, líkamleg á köflum. Sveinn Ólafur Gunnarsson fer með hlutverk sögumannsins, sem byrjar ósköp sakleysislega á því að tala um aðdáun sína á Rocky – kvikmyndum Sylvester Stallones – og rifjar upp söguþráðinn með okkur, titilstefið, leiðir okkur inn í hugarheim Rockys og vekur athygli okkar á því þegar Rocky horfir til stjarnanna og uppgötvar að hann getur hugsanlega rifið sig upp úr minnipokamennskunni, orðið maður með mönnum, öðlast sjálfsvirðinguna á ný. Þetta er sakleysislegt í upphafi, en smám saman læðast ónotin að. Leikur Sveins Ólafs er magnaður, honum vex hægt og rólega ásmegin, leiðir okkur inn í hugarheim minnipokamannsins sem misbýður vantrú okkar á honum og smám saman nær hann valdi á okkur og við engum engrar undankomu auðið. Rocky í meðförum Sveins Ólafs gerir „okkur”, góða fólkið, að „hinum” og aðstæður allar snúast við. „Við” töpum, „við” verðum minnipokafólkið, lúserarnir.
Þetta er feikivel gert, bæði í texta Tue Bierings og ekki síður í leik Sveins Ólafs. Hann beitir smáum, ísmeygilegum meðulum til að koma því á framfæri sem segja þarf og við erum algerlega með á nótunum eftir því sem líður á frásögnina. Spennan eykst og þegar við uppgötvum að ekki verður aftur snúið er það of seint. Hér skal ekki uppljóstrað um endinn, en hann er óvæntur. Óvæntur og ógeðfelldur. Og – það sem kannski er óhugnanlegast af öllu: endirinn ber með sér ákveðna fegurð, estetísk hinnar fullkomnu og óafturkræfu niðurlægingar; það er engu líkara en eigi sér stað nútíma krossfesting. Endirinn er ritúalskur – og má hér minna á leikmynd Enólu Ríkeyjar og lýsingu Jóhanns Bjarna Pálmasonar og Magnúsar Thorlacius – og það er engu líkara en Sveinn Ólafur og við áhorfendur rennum saman og maður spyr sig: er þetta það sem í vændum er?
En svo kemur eftirmáli og hann er meira en óvæntur: ung kona birtist á sviðinu og les texta af snjallsíma, þar sem hún virðist réttlæta gjörðir Rockys – baráttu hans gegn „góða fólkinu” og viðhorf hans til „okkar hinna” – sem eru líka innflytjendur, flóttamenn, allt það sem er ógnin við minnipokamennina og tekur frá þeim það sem er þeirra: söguna, menninguna, vinnuna, sjálfsvirðinguna, möguleikana á frama ... já, allt. Þessi unga kona heitir Margrét Friðriksdóttir og ku vera bæði þekkt og umdeild fyrir skoðanir sínar, sem eru andstæðar fjölmenningu og andstæðar skoðunum „góða fólksins”.
Það er vissulega ákveðið stílbragð að hleypa Margréti Friðriksdóttur að í lok sýningar og það stílbragð má kalla „verfremdung” og kenna við Brecht; það mun auk þess sótt í handrit og upphaflega sýningu í Danmörku. Fyrstu viðbrögð undirritaðs voru að þessi eftirmáli væri óþarfur, að hann drægi úr áhrifaríkum endi hinnar eiginlegu sýningar. Við nánari umhugsun er raunin önnur. Eftirmáli Margrétar er í raun nauðsynlegur, hann hrekur okkur úr leikhúsinu og aftur í raunveruleikann og minnir okkur á að hvar sem Rocky er – goðsagan, mýtan, draumurinn um sigur minnipokamannsins – þar er líka að finna alls konar Margrétar Friðriksdætur sem hafa misskilið hvað lífið snýst um í raun. Engin gildi gera sig sjálf – það verður að berjast fyrir mannkærleika, mildi og mannúð!
Rocky er svo sannarlega áleitin og sönn sýning sem tekur á þeim raunveruleika sem við búum við. Enginn ætti að láta Rocky framhjá sér fara!