Hugrún Fjóla, sem gengur nú undir listamannsnafninu Fjóla, er Kundalini jógakennari, stærðfræðingur og möntrusöngkona. Hún hefur síðastliðin ár ferðast á milli jógahátíða í Evrópu og Bandaríkjunum með ukulele-ið sitt og önnur hljóðfæri í farteskinu. Hennar einstaka rödd, framkoma og útfærslur af klassísku Kundalini jógamöntrunum hafa vakið mikla athygli á hátíðunum og hefur eftirspurn eftir framkomu hennar og uppteknu efni verið mikil. Í mars á þessu ári ákvað hún því loks að láta verða af því að taka upp sína fyrstu plötu, sem hún gerði í Skálholtskirkju með upptöku- og tónlistarmanninum Arnari Guðjónssyni.
Platan er nú á lokastigi og rafræn útgáfa hennar er væntanleg í fyrri hluta desember. Fjóla hefur því blásið til styrktarsöfnunar í gegnum Karolina Fund til að hjálpa sér leggja loka hönd á verkefnið.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Hugmyndin að plötunni var búin að liggja lengi innra með mér, en það tók tíma að finna rétta farveginn fyrir hana. Fyrir 6 árum síðan ákvað ég að fara í jógakennaranám og kynntist þá fyrst morgunástundun Kundalini jóga, sem kallast „Sadhana" Vatnsberaaldarinnar, en það er saman sett af hugleiðslu, jóga og möntrusöng, alls 2,5 klst. ástundun, sem er mjög snemma eða helst einhvern tímann milli kl. 3:30 og 7 að morgni. Möntrusöngurinn er rúmlega klukkutími af ástunduninni, en það eru 7 möntrur sem við kyrjum, hver með sína ákveðnu lengt. Lengd mantranna, taktur og framburður hefur allt sérstök heilunaráhrif á undirmeðvitund okkar, hugann, taugakerfið og heilastarfsemi, og frá fyrstu kynnum við möntrurnar varð ég hugfangin.
Svo eftir að hafa verið boðið til Englands, Þýskalands og jafnvel til Bandaríkjanna til að taka upp, en finna í hvert skipti að eitthvað var ekki alveg „eins og það átti að vera", þá rann upp fyrir mér að ég ætti að koma heim og taka upp í Skálholtskirkju. Svo fimm árum eftir að hugmyndin kviknaði, þá lét ég loks verða að því.“
Segðu okkur frá þema verkefnisins?
„Þemað er þakklæti og „Naad", sem þýðir „heilagt hljóðflæði". Ég tengdist þessu kosmíska heilaga hljóðflæði persónulega í gegnum möntrunar og það gjörbreytti mér og lífi mínu. Þakklætið sem ég ber til „Naad"-sins er dýpra en orð geta tjáð, svo ég tjái það með að syngja og spila, framkalla hljóma og tóna sem víbra með „Naad"-inu til að aðrir megi upplifa umbreytingarkrafta þess, en þessi umbreyting kemur einmitt fram í formi þakklætis, svo við erum komin heilann hring. Sem mér finnst dásamlega stærðfræðileg hringrás: þakklæti fyrir „Naad"-ið, framkallar „Naad"-ið, sem framkallar þakklætið.“