Þjóðleikhúsið: Atómstöðin – endurlit
Leikstjóri: Una Þorleifsdóttir
Höfundur leikgerðar: Halldór Laxness Halldórsson í samvinnu við Unu Þorleifsdóttur
Höfundur skáldsögu: Halldór Laxness
Leikmynd og búningar: Mirek Kaczmarek
Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson
Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson
Hljóðmynd: Aron Þór Arnarsson, Kristinn Gauti Einarsson og Gísli Galdur Þorgeirsson.
Dramatúrgur: Gréta Kristín Ómarsdóttir
Leikarar: Ebba Katrín Finnsdóttir, Björn Thors, Birgitta Birgisdóttir, Arnmundur Ernst Bachman, Snæfríður Ingvarsdóttir, Hallgrímur Ólafsson, Stefán Jónsson, Oddur Júlíusson, Snorri Engilbertsson, Hildur Vala Baldursdóttir, Edda Arnljótsdóttir og Eggert Þorleifsson.
Það er án efa engin tilviljun að „járntjaldið“ blasir við áhorfendum þegar gengið er inn í sal stóra sviðs Þjóðleikhússins. „Járntjaldið“ er brunavarnartjaldið milli sviðs og salar en hér er það hluti af leikmyndinni – enda fjallar Atómstöðin um þá tíma þegar járntjaldið var dregið fyrir milli austurs og vestur eftir lok síðari heimsstyrjaldar; sagt er að enginn minni maður en Churchill hafi gert hugtakið frægt í ræðu sinni í Fulton í Missouri árið 1946. En þótt Churchill sé eignaður heiðurinn af hugtakinu á það sér eldri sögu: það mun hafa verið hin þýskættaða Elísabet drottning af Bæjaralandi og Belgíu sem sagði þetta fyrst manna árið 1914 (!!!) og Göbbels ku hafa nýtt sér járntjaldsmyndina til að lýsa hvaða skelfing myndi gerast ef Sovétríkin myndu nú vinna síðari heimsstyrjöldina. Svona herma nú karlarnir eftir konunum án þess að láta þeirra getið!
Járntjaldið skapar semsagt ákveðin hugrenningatengsl við þá tíma þegar skáldsaga Halldórs Laxness, Atómstöðin, varð til og var út gefin og þá ekki síður ákveðna stemningu yfir sýningu Þjóðleikhússins á Atómstöðinni – endurlit; skáldsaga Laxness olli miklu pólítísku fjaðrafoki og var aukinheldur skrifuð við bergmálið af járntjaldsskellinum sem festi í sessi þau skil milli austurs og vesturs sem við búum enn við; hvort leikgerðin nú sé á sama hátt skrifuð inn í okkar samtíð er spennandi spurning.
Leikgerðin er skrifuð af dóttursyni skáldsins, Halldóri Laxness Halldórssyni, betur þekktur sem Dóri DNA og hefur hann notið aðstoðar leikstjórans, Unu Þorleifsdóttur við leikgerðina. Leikgerðarhöfundur sýnir afaverkinu fyllsta trúnað en leggur þó í að rjúfa þráð hinnar upphaflegu sögu og leyfa nútímanum að skipta sér af. Það er enda rökrétt; hugtakinu „endurlit“ er bætt við titil sýningarinnar og væntanlega er þá hugsunin að sjá hversu vel hin upphaflega saga rímar við raunveruleikann eins og hann birtist okkur í dag.
Nú skal tekið fram að undirritaður sá Atómstöðina – endurlit tvisvar sinnum, í fyrra skiptið á frumsýningu en í síðara skiptið 4. sýningu þann 13. nóvember og var það í raun tilviljun að sú sýning varð fyrir valinu. En Atómstöðin – endurlit er um margt flókin sýning að byggingu og útliti og ekki síður þegar kemur að nálgun á frumsögunni og þótti undirrituðum því vissara að hafa vaðið fyrir neðan sig og sjá sýninguna tvisvar. Það er þó engin trygging fyrir því að umsögnin verði gáfulegri, svo því sé haldið til haga!
Áður en járntjaldinu er lyft flytur Hildur Vala Baldursdóttir eins konar formála sem tengdur er útgáfusögu skáldsögu Laxness og þeirri staðreynd að Laxness er óneitanlega á stall hafinn sem einn fremsti rithöfundur vorrar þjóðar – þetta er fyndið stílbragð og dregur úr hátíðleikanum sem kynni annars að fylgja nafni höfundar og höfundarverki hans; það er augljóst að eitthvað annað er í vændum en að bregða upp svipmyndum úr sögunni, enda er ekki endurlit í vændum? Hildur Vala er klædd í hergrænan samfesting sem boðar engin vettlingatök. Þetta stílbragð er svo endurtekið eftir hlé; járntjaldið niðri og Hildur Vala flytur þá formála um væntanlegan ágóða Þjóðleikhússins af sýningunni - fagni hún því láni að verða vinsælt kassastykki!
Þetta stílbragð er í ætt við „verfremdung“ austurþýska leikhúsmannsins Bertold Brecht; hugtakið einatt þýtt með framandgerving, og er þá átt við að hlutirnir eru teknir úr sínu hefðbundna samhengi til að forðast innlifun áhorfandans (sem er borgaralegt fyrirbæri – það á að „skilja“ það sem fram fer, ekki „lifa sig inn í“ það) og sú sýning sem í hönd fer er morandi í slíkri framandgervingu.
Þegar járntjaldinu er lyft og sviðið blasir við er horft inn í ferningslaga gímald, eins konar risakassa sem nær yfir allt sviðið og virðist jafnt á alla vegu – frá vinstri vegg til þess hægri, frá sviðbrún og inn í sviðsbotn. Þennan kassa höfum við reyndar séð í svipuðu formi áður – fyrir fáum árum var Makbeð komið fyrir í viðlíka rými og sömuleiðis gerðist Loddarinn í svona kassa, þótt vissulega væri unnið með það rými á annan hátt. Hér er rýmið alhvítt, nánast sterílt – er þetta atómstöðin sjálf, sem horft er inn í? – og það eina sem breytir ásýnd þessarar leikmyndar fyrir utan hreyfingar og stöður leikaranna er lýsingin, en hún er líka galdri líkust og þeim sem þetta ritar er til efs að hafa séð fallegri lýsingu, svo vel vinnur hún úr formum, línum og yfirborðsáferð leikmyndarinnar, svo vel fylgir hún sögunni, áherslum og blæbrigðum leiks og leikstjórnar. Ólafur Ágúst Stefánsson nær að töfra fram hughrif sem þjóna heildinni og leikmyndin með lýsingu Ólafs Ágústar verður einstök. Á sviðsgólfinu standa bekkir sem þjóna öllum sviðsmyndum, hvort sem það er kirkjan sem faðir Uglu byggir í afdal í fjarska, heimili Búa Árland, heima hjá organistanum eða útivið í Reykjavík – alls staðar nær leikmyndin að anda frá sér réttu andrúmslofti. Það er fallegur leikhúsgaldur, sem fyrst og fremst má þakka hönnun Mireks Kaczmareks.
Hönnun leikmyndar og sömuleiðis búninga er í höndum hans, en þau Una Þorleifsdóttir leikstjóri hafa áður unnið saman farsællega í ≈[um það bil] árið 2015; í leikmynd Atómstöðvarinnar gætir áhrifa frá evrópskum leikhúsmönnum fyrri hluta nýliðinnar aldar, Appia, Craig, svo hinir þekktustu séu nefndir, en hér má einnig greina skemmtileg áhrif frá dadaistum og – svo nefndur sé að lokum – Bertolt Brecht sem áður er getið. Allir þessir leikhúsmenn teljast góðir fulltrúar þess alþýðuleikhúss, sem braust fram uppúr umbrotum kringum aldamótin 1900 og er það vissulega við hæfi þegar um ræðir Atómstöð Halldórs Laxness. Eldri.
Halldór Laxness yngri fylgir sögu afa síns sæmilega vandlega en hvenær sem þörf krefur er leikurinn rofinn og gerðar athugasemdir við rás atvika, sum deiluatriðin færð til nútíma, önnur beinlínis sögð óviðeigandi og til þess eins fallin að villa um fyrir fólki – Atómstöðin fjallar um sölu lands og kúgun borgarastéttar á hinni vinnandi alþýðu – ekki um eitthvert ástarævintýri borgaralegrar þingmannsdruslu með sveitastelpu – sú saga er afvegaleiðing, en það hugtak kemur fyrir oftar en einu sinni í sýningunni og er sem áminning um að borgarastéttin mun ávallt reyna að bregða fæti fyrir þá umræðu sem tekur á kjarna mála og leiða hana á villugötur. Frammígripin eru gerð af eins konar byltingarhópi, sem Piltur fer fyrir, leikinn af Snorra Engilbertssyni. Þessi Piltur og hópurinn á bak við hann telur sig höndla sannleikann og þjónar jafnframt því hlutverki að vera félagar á sellufundi í upprunalegum tíma sögunnar. En Pilturinn og byltingarhópurinn eru líka persónur í nútíma og hluti af þeim (ósamstæða) leikhóp sem setur Atómstöðina á svið hér og nú.
Það er hlaupið frjálslega á milli tímaskeiða og frammígrip þessa byltingarhóps nútímans fleyta sýningunni ágætlega áfram í upphafi en verða á endanum að nokkuð fyrirsjáanlegum stílbrigðum; hér hefði örugglega mátt stytta og þjappa – skapa þá samkennd með áhorfendum að „við vitum hvað er í gangi“ án þess að það sé sagt fullum fetum í hvert skipti.
En hér kemur einnig annað til: Atómstöð Halldórs Laxness (eldri) fjallar um annað og meira en bara sölu lands og hvort byggja skuli vöggustofu handa alþýðunni – sem voru vissulega brýnustu mál á sínum tíma. Sala lands er brýnt mál einnig í dag - það nægir að nefna breskan milljarðamæring og innlend og erlend orkufyrirtæki því til staðfestingar - en vöggustofur eru trúlega í augum nútímans frekar kátlegt barn síns tíma, eins og sellufundirnir. Hins vegar er þar að finna annað þema hjá Laxness, sem er mismunandi staða kynja og birtist í stöðu fjögurra kvenna í bókinni: Þær Ugla, Aldinblóð, Kleópatra og eiginkona guðsins Briljantín gjalda allar kynferðis síns á einn eða annan hátt, þrjár þeirra að minnsta kosti verða óléttar; Búi Árland kostar fóstureyðingu upp á dóttur sína Aldinblóð til að forða hneyksli, eiginkona guðsins Briljantín lætur föðurinn sjá um barnið meðan hún skemmtir sér með könum, Kleópatra eignast ekki barn, en er gleðikonan sem sefur einu sinni hjá þrjátíu mönnum eins og organistinn kemst að orði í velþekktri tilvitnun. Ugla ákveður að fara aftur heim í sveitina sína og eiga sitt barn. Hefði ekki mátt gera meira úr konunum og byltingarhópurinn mátt sjá að stöðu kvenna í nútímasamfélagi má ekki síður bæta nú einsog þá. En þetta er örugglega meðvitað val hjá höfundum handrits og sýningar og verður að teljast smekksatriði.
Í skiptingunum milli tíma og sögusviða – Reykjavíkur Atómstöðvar Laxness og þess nútíma sem við lifum í – hefði mátt sýna meiri dirfsku, þótt ekki væri nema til að gefa ástæðu bundna í tíma og rúmi fyrir því hve munurinn er mikill á upphaflegum texta og viðbótum Halldórs yngri og Unu. Þar sem texti bókarinnar fær að njóta sín er leiktextinn skáldlegur, jafnvel seiðandi, þökk sé stílsnilli höfundar og óbrigðulu valdi á áhrifum textans á áheyrendur/áhorfendur.
Það eru ekki síst langar einræður Uglu sem lokka og draga áhorfandann inn í heim hennar OG leikhússins enda er þetta sýning Uglu í fleiri en einum skilningi.
Ugla er eins og þekkt er miðpunktur sögunnar og Ugla er einnig sú persóna sem Atómstöðin – endurlit hverfist um. Það eru ekki mörg andartök sem Ugla hverfur af sviðinu og er þá einnig fjarvera hennar þrungin merkingu. Ugla Ebbu Katrínar Finnsdóttur er persóna tveggja tíma, hún er vissulega aðalkarakter þeirrar sögu sem verið er að leika, en hún er líka sú, sem uppgötvar þá sögu sem varð til fyrir um sjötíu árum og leiðir okkur inn í þann tíma – jafnframt því sem hún ræður litlu um bægslagang byltingarhópsins, finnur sig jafnvel í andstöðu við hann. Þar skapast ákaflega skemmtileg spenna sem vekur og heldur athygli áhorfenda og það er fyrst og fremst karakter Uglu sem tengir saman þessa ólíku tíma. Ebba Katrín tengir þá saman í leik, fasi og svipbrigðum glæsilega og af tæknilegu öryggi, texti Laxness leikur henni í munni og það er ekki síst Ebbu Katrínu að þakka að sýningin nær svo skilmálalaust og örugglega til okkar. Ebba Katrín vinnur stórkostlegan leiksigur í hlutverki Uglu og það er full ástæða til að óska bæði henni og íslensku leikhúsi til hamingju.
En textinn sem við er bætt er einkum til þess að gera athugasemdir við söguna úr nútíma, nútíminn talar líkt og við hina sjötíu ára sögu og það má virðast helstil einföld lausn á almennu spurningunni hvernig nútíminn yfirleitt nálgast þetta rúmlega sjötíu ára skáldverk. Má búast við jafn hatrömmum deilum um Atómstöðina og þegar bókin kom fyrst út. Það er vissulega spurning sem á fullan rétt á sér og svo það sé sagt hreint út: Hver getur ekki verið beturviti eftirá?!
Hefði ekki verið hægt að finna meira spennandi leið og nota forspárkraftinn sem í sögunni býr og láta nútímann tala til framtíðar? Til okkar, til barna okkar og barnabarna? Hefði ekki Atómstöðin, saga Halldórs Laxness, þá hlotið þann sess að verða að mögulegum áhrínsorðum um það sem koma skal?
Eins og áður var getið sá undirritaður sýninguna tvisvar. Og það verður að segjast eins og er að það voru tvær algerlega ólíkar sýningar, þótt engu hafi verið breytt. Hér var heldur ekki um að ræða að sýningin hafi vaxið, sem svo er oft kallað, þegar leikarar venjast því að leika fyrir áhorfendur, þeir verða öruggari og sýningin þéttist og þroskast. Nei, það var ekki það. Það var allt annað og meira, sem gerði Atómstöðina miðvikudaginn 13. nóvember að annarri sýningu en frumsýningardaginn 1. nóvember.
Þriðjudaginn 12. nóvember var fréttaskýringaþátturinn Kveikur sýndur á RÚV og fjallaði um mútu- og spillingarmál stærsta sjávarútvegsfyrirtækis Íslendinga, Samherja, og hvers konar viðskiptahætti það hefur viðhaft í Afríkuríkinu Namibíu. Það vildi svo einkennilega til – en þó eru eldri dæmi til um þetta í leikhússögunni – að Atómstöðin varð allt í einu að nútímasögu. Atómstöðin fjallaði allt í einu um Samherja, kapítalíska mútumenningu og hvernig við Íslendingar höfum komið fram við aðra þjóð sem hafði þó verið lofað öðru.
Viðbrögð áhorfenda voru allt önnur á 4. sýningu en á frumsýningu. 4. sýning fjallaði um Samherjamálið og hún var sett upp í bergmálinu af Kveik, ekki járntjaldinu milli austurs og vesturs. Sem segir sitthvað bæði um okkar pólítíska skilning, en ekki síður hvernig listaskáld vinnur með söguefni sitt. Löngu eftir að járntjaldið er fallið hefur Halldóri Laxness tekist sú list að glæða skáldverk sitt nýju lífi - í seinni sýningunni sem ég sá, þann 13. nóvember hefði Búi Árland allt eins getað heitið Þorsteinn Már Baldvinsson. Það hefði litlu breytt um þann pólítíska veruleika sem umlykur sýninguna.
Það er sjaldgæft að sjá sýningu á fjölum Þjóðleikhússins sem líkt og fyrir tilviljun talar til áhorfenda sinna og hefur fram að færa beinskeyttan og brýnan boðskap. Það er full ástæða að hvetja fólk að sjá Atómstöðina – endurlit.