Nordic Art Association vinnur með listamönnum í að leita leiða til að auka sölu og sýnileika á listaverkum jafnhliða því að auðvelda listaverkasöfnurum að finna og kaupa einstök listaverk. Markmið Nordic Art Association er að að gera listina aðgengilega fyrir alla, þjóna listamönnunum og listaverkasöfnunum með því að netvæða sýningarferli og söluferli listaverka og auka sýnileika listamanna á alþjóðlegum vettvangi.
Kjarninn tók Brand Karlsson, framkvæmdastjóra Nordic Art Association, tali.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?„Ég byrjaði að mála með munninum eftir að ég lamaðist fyrir neðan hálsinn af dularfullum ástæðum. Það var Edda Heiðrún Backman sem opnaði þann heim fyrir mér og studdi mín fyrstu skref ásamt Derek Mundel listakennara.“Segðu okkur frá þema verkefnisins?
„Mér fannst það eyðileggja svolítið gleðina af því að mála að þurfa að fókusa á að selja verkin mín. Þannig að þetta verkefni spratt svolítið út frá því að auðvelda og sjálfvirkni væða það allt saman. Mig langaði líka að leika mér með hlutsölu verka í gegnum bálknkeðju (e. Blockchain) en þegar ég leitaði þá fann ég ekkert sem bauð upp á slíkt. Stuttu seinna stigu örlögin inn og Geoffrey, æsku vinur kærustunnar minnar kom í heimsókn. Þegar ég sagði honum frá hugmyndinni þá leist honum rosa vel á hana, svo vel að hann seldi húsið sitt í Hollandi og flutti inn til mín, hérna erum við búnir að vinna að þessu síðan.
Hugmyndin hefur þróast mikið síðan við byrjuðum. Við erum búin að hitta marga listamenn og halda nokkrar vel sóttar kynningar. Við viljum vinna fyrir listafólkið, gera þetta sem gagnlegast. Opnunin verður í Iðnó 22.feb. Þar verða allskonar gjörningar og gott party! Svo í kjölfarið munu koma reglulegar uppfærslur og viðbætur.“
Hér er hægt að skoða og styrkja verkefnið.