Blóðhófnir er tónverk Kristínar Þóru Haraldsdóttur og myndverk Tinnu Kristjánsdóttur, skrifað við samnefnt verðlaunaljóðverk Gerðar Kristnýjar. Tónverkið er flutt af tónlistarhópnum Umbra ásamt gestum, en allar spila þær á strengjahljóðfæri og forn hljóðfæri og syngja. Til stendur að gefa verkið út á geislaplötu á næstu misserum með stillum úr myndverkum Tinnu, sem prýða bæði hulstur og bók.
Blóðhófnir byggir á fornri sögu úr Skírnismálum, sem Gerður Kristný snéri í nútíma söguljóð og segir sögu Gerðar Gymisdóttur jötunmeyjar, sem tekin var gegn vilja sínum úr heimahögum sínum í Jötunheimum til að giftast goðinu Frey, beitt hótunum og valdi. Magnað ljóðverk sem á sterkt erind til samtímans.
Lilja Dögg Gunnarsdóttir söngkona fer listilega með hlutverk ljóðmælanda, Gerðar Gymisdóttur, sem er burðarhlutverk verksins.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
Lilja: Hugmyndin kviknaði í raun á bókakaffihúsi. Ég var þar stödd að súpa kaffi og glöggva í bækur. Þá greip mig ljóðabálkur Gerðar Kristnýjar – sem ég las upp til agna uppnumin. A þessum tímapunkti var ég nýhætt að kenna miðaldabókmenntir MS og hafði snúið mér alfarið að tónlist – svo efniviður ljóðabálksins stóð mér einhvern veginn strax mjög nærri – enda eytt dágóðum tíma undanfarin ár í að garfa í Eddukvæðunum. Þarna var vegferð Umbru líka farin vel á stað og við lesturinn fannst mér það skrifað í skýin að við, hljómsveit sem er með skýran fókus á forna tónlist, ættum að láta semja fyrir okkur verk upp úr ljóðabálki Gerðar. Kristín Þóra kom strax upp í kollinn – einhverra hluta vegna, en hana þekkti ég nú barasta ekkert en hafði heyrt hana flytja verk Þórunnar Grétu Sigurðardóttur á Myrkum músíkdögum og fannst það svo magnað! Ég vissi til þess að hún væri að semja sjálf. Við Umbrur kynntum okkur svo hana og höfðum samband í kjólfarið.
Kristín Þóra: Það var í rauninni mikil gjöf þegar Umbrur höfðu samband við mig, því ekki svo löngu áður hafði ég skoðað ljóðverkið og hugsað „VÁ, þetta!“ ... og vissi að ég myndi gjarnan vilja vinna með það einhvern tímann. Og hljóðfærasamsetning Umbru fannst mér kjörin: Kvennraddir og girnisstrengir, en það er týpan af strengjum sem var notuð í gamla daga, þeir eru einhvern veginn bæði með hlýtt og hrátt sánd á sama tíma, og með mikilli jörð finnst mér. Það er nefnilega svo mikil jörð í ljóðinu hennar Gerðar Kristnýjar. Við vildum að verkið færi út fyrir hefðbundinn ramma tónverks og fengum Tinnu, sem er leikkona, til að vera með í sköpun verksins. Hún hafði mjög skýra sýn og innsæi í ljóðverkið, sem gerði mikið fyrir heildarverkið. Við settum verkið upp í sinni fyrstu mynd í tónleikhús uppfærslu árið 2016 og kjölfarið langaði mig til að gera eitthvað meira með þetta, þ.á.m. að taka það upp, og Umbrur voru til í það. Ég óskaði líka eftir að Tinna myndi hanna umslag og bók geisladisksins með myndefninu. Ég setti tónlist við þá hluta sem voru leiklesnir 2016 og Blóðhófnir fékk að eiga sitt annað heimili við upptökur og mix með Sturlu Míó Þórissyni í Masterkey Studio á Seltjarnarnesi. Hann hefur farið fínum höndum um alla hljóðvinnslu og mikið fyrir þessa útgáfu.
Segið okkur frá þema verkefnisins
Lilja: Þema verksins hverfist í mínum huga í kringum ljóðmælandann Gerði – mér finnst við allar vera hún í flutningnum, öll hljóðfærin og mannsröddin. Kristínu tekst svo vel að skila efniviðinum á áhrifaríkan hátt, þjáningin og örlög Gerðar birtast á afgerandi hátt í öllu tónmálinu.
Kristín Þóra: Já, það var hugmyndin, að hefja upp raust Gerðar og umvefja hana ást. Það skín í gegnum bæði tónlist og myndverk. Við vonum að við séum að skapa rými til að hlusta og hugleiða svolítið þessa sögu sem endurtekur sig allt of oft í raunveruleikanum enn þann dag í dag. Ljóðverkið hennar Gerðar Kristnýjar er ekki bara ný útgáfa af gamalli sögu úr fornöld heldur sterk ádeila á feðraveldið, sögð á virkilega ljóðrænan og áhrifaríkan hátt. Þarna er mikil náttúrufegurð, viljastyrkur, kvennakraftur, ást og tryggð. Við fáum hreinlega að lifa og anda með Gerði Gymisdóttur, jörðinni hennar, landinu hennar, hjartanu hennar áður en henni er rænt úr heimahögunum og það langaði okkur til að koma til skila. Tinna hafði þessa sterku innsýn og nálgun, að vera sú Gerður Gymisdóttir í gegnum alla söguna frekar en að setja ofbeldið, sem kemur utan frá, í forgrunninn, sem var mjög hjálplegt fyrir mig, því ég veigraði mér við að setja tónlist við ofbeldi eða draga það meira fram sem er svo sterkt og beitt í textanum. Myndverkið veitir þannig sterka nærveru Gerðar Gymisdóttur og upplifanir hennar, fínlega ofið inn í texta og tónlist með mikilli dýpt og nánd. Ég hélt mig líka við veröld Gerðar, sat lengi með ljóðinu lifði mig inn í það án þess að skapa tónlist, en fór síðan smám saman að fikra mig að hljóðfærum og þá var ekki lengi að verða til heill heimur í kringum Gerði og röddin hennar margfaldaðist í margra kvenna kór. Þannig viljum við heiðra ljóðverkið, Gerði Gymisdóttur og allar þær konur sem hún talar fyrir. Þótt undirliggjandi þema sé völd, ógnir og ofbeldi, er heildarverkið óður til kvenna.
Lilja: Ég ýmist syng eða leiktala allan ljóðabálkinn. Það er ótrúlegur kynngikraftur í þessum bálk . Það er auðvelt að hverfa inn í hann og magnað tónmál Kristinar - en ég finn líka að ég þarf að stíga algerlega út úr sjálfri mér til að gera það. Að sumu leyti þarf ég að detta í smá trans til að ná í hugrekki og miðla þessu verki og öllum þeim hrikalegu og ljúfsáru tillfinningum sem fylgja því.
Kristín Þóra: Lilja Dögg er með mikið burðarhlutverk sem krefst mjög mikils og hún fer alveg stórkostlega með þetta. Hún er með æðislega rödd og túlkun, með mikilli breidd og það var svo gaman að vinna með það í ferlinu -að geta leyft mér eiginlega hvað sem er þegar ég var að semja fyrir hana. Allar þessar frábæru konur sem koma að verkinu skila sínu svo ofsalega vel og maður finnur hvað ljóðverkið hennar Gerðar Kristnýjar hefur sterk áhrif á alla sköpun í kringum það. Verkið þykir aðgengilegt, tónlistin styður við textann og er undir beinum áhrifum af honum og endurspeglar svolítið bæði gamla og nýja tíma. Ég hugsa að þetta sé svona plata sem maður sest niður og hlustar á eins og maður sest niður að lesa bók. Hverju lagi fylgir stilla úr myndverki Tinnu og þannig færum við myndrænu víddina og upplifunina til hlustandans í þessari útgáfu. Það er líka gaman frá því að segja að uppfærslur okkar hafa fengið rosalega góðar móttökur. Verkið var valið á meðal 1100 umsókna til flutnings á MATA Festival í New York í fyrra og nýverið fluttum við verkið fyrir fullu húsi í Iðnó við frábærar móttökur.
Á Karolina Fund erum við að safna fyrir hluta af öllum þeim kostnaði sem er á bakvið útgáfuna. Í umbun erum við með ýmsan varning sem tengist verkinu beint, en einnig eru hægt að fá lagasmíð, útsetningu, tónlistarkennslu og dag í Masterkey studio.