Borgarleikhúsið: Vanja frændi
Höfundur: Anton Tsjekhov
Þýðing: Gunnar Þorri Pétursson
Leikstjóri: Brynhildur Guðjónsdóttir
Leikmynd: Börkur Jónsson
Búningar: Filippía I. Elísdóttir
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson
Tónlist: Bjarni Frímann Bjarnason
Leikgervi: Elín Sigríður Gísladóttir
Hljóð: Þórður Gunnar Þorvaldsson
Leikendur: Jóhann Sigurðarson, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Valur Freyr Einarsson, Hilmir Snær Guðnason, Halldór Gylfason, Margrét Helga Jóhannsdóttir, Arnar Dan Kristjánsson.
Vanja frændi er eitt af fjórum höfuðverkum Antons Tsjekhovs, hin eru Máfurinn, Þrjár systur og Kirsuberjagarðurinn; það er óumdeilt að þessi fjögur verk njóta sérstöðu í vestrænni leiklistarmenningu og eru þar af leiðandi sett upp reglulega af leikhúsum um allan hinn vestræna heim. Þá nýtur fyrsta leikrit hans, Platonov, einnig nokkurra vinsælda og er þá ekki minnst á nokkra einþáttunga hans, sem einnig er hampað og svo smásögur hans.
Það fer að mörgu leyti vel á að taka Vanja frænda til sýninga nú – verkið talar á ýmsan hátt til okkar samtíma og nægir að nefna umhverfisumræðuna sem Astrov læknir stendur fyrir þegar hann vill ganga í augun á hinni fögru Jelenu með því að sýna henni uppdrætti sína af þróun gróðurfars í sveitinni. Þetta atriði gæti nánast verið skrifað nú, en ekki fyrir rúmum eitthundrað árum og segir það eitt sitthvað um hversu forspár Tsjekhov var og sá fyrir um margt það sem öðrum var hulið og þá má ekki síst þreifa á þessum eiginleika skáldskapar hans þegar kemur að hinu mannlega eðli – en hann náði, ásamt þeim Ibsen og Strindberg að lýsa hinn nýju félagsveru sem maðurinn í vestrænum heimi var óðum að breytast í.
Það var svo í Listaleikhúsinu í Moskvu undir stjórn föður nútíma leiklistar, Konstantíns Stanislavskí, að leikhúsið braust úr viðjum gamaldags, upphafins leikstíls og náði tökum á þeim sálfræðilega leikstíl sem varð til þess að texti og samræðustíll Tsjekhovs öðlaðist þá dýpt og heimspekilegu vídd sem gerði persónur hans líkt og af holdi og blóði, sem áhorfendur gátu skilið og látið sér þykja vænt um. Þetta var ný tegund af realisma, stilltari og hógværari og bar með sér meiri skilning á manninum en áður hafði verið í leiklistinni. Verk Tsjekhovs fólu þar með í sér byltingu sem má að sumu leyti segja að enn sjái ekki fyrir endann á í leiklistarmenningu Vesturlanda. En á sama tíma er komið að endalokum gullaldar rússneskra bókmennta þegar Tsjekhov kemur fram á ritvöllinn og gerist talsmaður þeirra sem sjá á bak keisaraveldinu og upplifa hnignun þess; öld upplausnar og úrkynjunar blasir við og hafi einhvern tímann verið til framtíð er hún endanlega horfin.
Þetta kann að hljóma fremur myrkt og væri það eflaust ef um væri að ræða annan höfund en Tsjekhov – en hann er þvílíkur snillingur að glæða persónur sínar slíku lífi að nánast hver einasta setning sem úr munni þeirra kemur verður að dásamlegri kómík – því hvað er hægt að gera annað en skopast að lífinu þegar ekkert er framundan, ekkert gerist, ekkert breytist.
Vanja frændi gerist á sveitasetri því sem Aleksandr Vladimírovitsj Serebrjakov (Jóhann Sigurðarson), prófessor á eftirlaunum hefur erft eftir fyrri konu sína. Hann býr sjálfur í Moskvu ásamt nýrri konu sinni, hinni ungu og fögru Jelenu Andrejevnu (Unnur Ösp Stefánsdóttir), en sveitasetrið er rekið af dóttur hans af fyrra hjónabandi, Sofíu Aleksandrovnu (Katrín Halldóra Sigurðardóttir), kölluð Sonja, og móðurbróður hennar, Ívan Petrovitsj Vojnítskí (Valur Freyr Einarsson). Tekjurnar af sveitasetrinu hafa verið sendar til Moskvu og farið í uppihald prófessorsins og hans nýju konu.
Ívan Petrovítsj Vojnítskí er kallaður Vanja og er sá frændi, sem leikurinn er nefndur eftir. Það er því nokkuð augljóst að samband þeirra Sonju og Vanja er í brennidepli í þeirri sögu, sem Tsjekhov vill segja. Hann er frændi hennar. Það má þó vekja athygli á því þó ekki sé nema til gamans að heiti verksins á frummálinu er „Djadja Vanja“, en „djadja“ er eins konar gælunafn barns á þeim manni sem er annað hvort móður- eða föðurbróðir og á sér enga hliðstæðu í íslensku; en notkun gælunafnsins bendir þó til hvers eðlis samband þeirra Sonju og Vanja er – þau eru skyld, en ekki jafningjar, í það minnsta ekki tilfinningalega.
Á setrinu búa einnig móðir Vanja og hinnar fyrri eiginkonu prófessorsins, María Vasílevjna Vojnítskaja (Sigrún Edda Björnsdóttir) og fóstran gamla, Marína (Margrét Helga Jóhannsdóttir); þá koma einnig við sögu Míkhaíl Lvovítsj Astrov, læknir (Hilmir Snær Guðnason) og Ílja Íljítsj Teljegín, kallaður Vaffla (Halldór Gylfason), eignalaus óðalsbóndi. Jefim, vinnumanni (Arnar Dan Kristjánsson), bregður fyrir af og til.
Það er augljóst að í slíkum hópi, þar sem ættar- og fjölskyldutengsl og stéttarstaða eru eins fjölbreytileg og á köflum flókin, má finna efni í heilmikið drama. Og dramað fer af stað um leið og tvennt gerist: Prófessorinn kemur ásamt hinni ungu fögru eiginkonu sinni til dvalar á sveitasetrinu og tilkynnir þar eftir nokkra dvöl að hann hyggst selja setrið enda lítið á því að græða; þá veldur nærvera hinnar fögru Jelenu því að Astrov læknir fer á fjörur við hana, Sonju til mikillar sorgar, því hún elskar lækninn hita og ástríðu.
Yfir allri atburðarásinni hvílir svo hin velþekkta „tsjekhovska“ angurværð sem undirstrikar að hér er hver einasta persóna leiksins röng manneskja á röngum stað á röngum tíma. Hér er hvergi að vænta „happy end“. En gleymum ekki því, að Tsjekhov er húmoristi, jafnvel þótt hann hafi enga trú á lukkulegum endalokum. Hann er aukinheldur eins langt frá því að vera kaldhæðinn og unnt er, til þess þykir honum alltof vænt um persónur sínar. Og hann vill að okkur þyki vænt um þær líka.
Þetta er í stuttu máli efniviðurinn sem leikstjórinn Brynhildur Guðjónsdóttir og hennar listræna teymi hefur til að vinna úr til að skapa þeirra útgáfu af hugarheimi Tsjekhovs. Brynhildur kom, sá og sigraði með uppsetningu sinni á Ríkharði III á síðastliðnu leikári, þótti koma með ferska sýn á hinn valdasjúka Ríkharð og samtíð hans og fékk nær einróma lof fyrir verk sitt.
Það er því spennandi að sjá, hvort hið sama sé uppi á teningnum hér – er Tsjekhov gert bilt við, eða er honum kannski bylt við? Hér skal látið nægja að staðhæfa að sýning Brynhildar ber vitni um mikla og fölskvalausa virðingu fyrir Tsjekhov sem höfundi og hugmyndasmið. Sagan fær að njóta sín eins og hún er, og færð í búning sem telja má að henti vel þeirri okkar samtíð sem hún er sett niður í – eins og fyrr sagði er Tsjekhov glettilega forspár og framsýnn, sem bendir kannski til þess að manneskjan er sér lík, hvort sem var um þarsíðustu aldamót eða aldamótin seinustu, hvort sem er í rússneskri sveit eða íslenskri höfuðborg, nú, eða þá að það umbreytingaskeið sem hófst með hnignun keisaraveldisins og uppgangi iðnaðarsamfélagsins er hvergi nærri lokið enn og við erum ennþá manneskjur í leit að lífstilgangi.
Þegar gengið er inn í sal Borgarleikhússins blasir við einhver fegursta mynd sem sá sem hér skrifar hefur séð í leikhúsi – Börkur Jónsson og Björn Bergsteinn Guðmundsson skapa nær dulræna fegurð úr þeirri hnignun sem einkennir allt; flekar úr brúnleitum fjölum sem lýsingin smýgur á milli og sem hægt er að lyfta og láta síga eftir þörfum, móta sviðsrýmið sem getur ýmist verið úti í garði eða innandyra. Sveitasetrið er sagt stórt, herbergin telja á þriðja tuginn og í þessari leikmynd verða þau að völundarhúsi, galopnu og lokuðu í senn þar sem engin persóna virðist vita í raun hvar hún er stödd, hvaðan hún kemur eða hvert hún er að fara. Einu tilfinningarnar sem brjótast um í manneskjunum er fortíðarþráin, ástin og vonleysið og það er eins og þessar tilfinningar etji kappi hver við aðra. Fortíðin er að baki, liðin tíð sem mun aldrei koma aftur, ástin leitar án afláts í ranga höfn þar sem enginn er til að fagna henni, vonleysið er eiginlega eina tilfinningin sem hrósar happi með því að allt staðnar – prófessorinn hættir við að selja sveitasetrið og allt getur hrokkið í sama farið á ný.
Leikhópurinn er samhentur, samstilltur og samtaka um að skapa þau hughrif sem bera rás atburða áleiðis til endaloka; hér skiptir máli að láta ekki hina myrku tóna ná yfirhöndinni, þrátt fyrir vonleysið sem einkennir allar persónur Tsjekhovs og það er óhætt að segja, að leikhópurinn fleyti sér áfram á öldutoppum húmorsins án þess að draga nokkuð úr þeim harmi sem hefur hreiðrað um sig í brjósti hvers og eins. Hópurinn er samstilltur og samhljóma, sýningin er öguð og hvert smáatriði styður við þá meginlínu, sem Brynhildur leikstjóri hefur markað. Og ef rýnt er í þá meginlínu mætti kannski segja að hún sé sú að hvað sem líður vonleysi og lítt breytanlegum aðstæðum erum við þó alltént manneskjur og hér leyfa manneskjurnar sér þó að láta í ljósi ást og löngun hvers til annars og þótt þær þreifingar séu klaufskar, ómarkvissar og vandræðalegar þá mun sá dagur rísa – einhvern tímann, vonandi! – að við rötum út úr völundarhúsinu og lærum að taka við ástinni og gefa hana tilbaka, af því það er nú einu sinni hún sem viðheldur lífinu, er lífið sjálft.