Landnámssetur: Auður og Auður
Höfundur og sögumaður: Auður Jónsdóttir
Auður Jónsdóttir hefur ákaflega þægilega og viðkunnanlega nærveru. Hún birtist líkt og huldukona á Söguloftinu í Landnámssetri eftir að áhorfendur/áheyrendur hafa fengið sér sæti, yfir hreyfingum hennar hvílir látleysi og hógværð, hún er hlédræg í framkomu og þegar hún hefur sögu sína fetar hún sig varlega inn í söguheiminn, leiðir okkur varfærnislega í upphafi ferðalags sem á eftir að reynast um tveggja klukkustunda langt – en það má vera staðreyndin; í tilfinningunni er sögustundin eins og andartak. Eftir að Auður hefur náð tökum á áheyrendaskaranum er eins og tíminn hverfi, söguheimur Auðar er eitt einasta hér og nú.
Það verður auðvitað ekki hjá því horft að fyrir hvern einasta Íslending sem man afa Auðar, nóbelsskáldið Halldór Laxness, eru sögupersónurnar þekktar – hversu þekktar skal ósagt látið, því það er nú einu sinni þannig að það veldur hver á heldur þegar um opinberar persónur er að ræða. Þær hafa tilhneigingu til að vera býsna ólíkar sjálfum sér eftir því hver horfir og hver lýsir og Halldór Laxness og eiginkona hans seinni hluta ævinnar, afi og amma Auðar Jónsdóttur eru engin undantekning á því. En hér, á Sögulofti Landnámsseturs fáum við að kynnast afa og ömmu Auðar eins og hún þekkir þau, og þó einkum ömmu hennar, Auði, sem hún heitir eftir og sem hún sat hjá í eldhúsinu og átti samskipti við jafnt á barnsaldri sem á unglingsárum. Það er sú Auður amma sem mótaði barnið og unglinginn og það er þeirra sameiginlega saga sem sögð er undir heitinu „Auður og Auður“.
Það skal játað, að sá sem hér skrifar hefur ekki lesið Ósjálfrátt (úr því skal bætt hið snarasta!) en það kemur ekki að sök, frásögn Auðar er eins sjálfstæð og hægt er og hvergi háð bókinni. Það verður ljóst á frásögn Auðar á Söguloftinu að saga Eyju er saga hennar sjálfrar og nú stígur Auður skrefið til fulls og leiðir okkur í gegnum sjálfsævisöguna milliliðalaust. Sú saga er í raun samtvinnuð úr örlögum hennar sjálfrar og ömmu hennar og stendur fyllilega undir sínu sem sjálfstæð og heilsteypt frásögn. Hún er þroskasaga Auðar rithöfundar.
Inn í þá sögu fléttast einnig minningar af nóbelskáldinu, afanum og fyrir hvern þann sem er þó ekki sé nema pínulítið ‚starstruck‘, þá er svona ‚name-dropping‘ vel til þess fallinn að áheyrandi sperri eyrun; þetta er með þekktustu brögðum í bók góðra sögumanna og bregst aldrei. En hér er meiri dýpt í ‚frægranafnaslettunum‘ en venja er – það fræga fólk sem hér er nefnt til sögunnar eru áhrifavaldar í sögu Auðar og hún afhjúpar hvernig þessi áhrif virka, hún er opin og hreinskilin með það hvernig þetta fræga fólk, áhrifavaldarnir í lífi hennar, hafa líkt og góðir leiðsögumenn leitt hana sjálfa frá því að vera ráðvilltur unglingur sem hvað sem gáfum og góðri greind leið, tók stöðugt rangar ákvarðanir, yfir í að vera sá rithöfundur sem blundaði í brjósti hennar og tókst á endanum að brjótast út og blómstra.
Það er fremur erfitt að ímynda sér að Auður Jónsdóttir, þessi lágvaxna kona með þennan blíðlynda svip, geti hafa verið vandræðaunglingur. En saga hennar er trúverðug og hún styður með nægilega mörgum fallegum, mannlegum dæmum að vandræðaunglingar eiga líka skilið að njóta skilnings og fá það svigrúm sem þarf til að láta draumana rætast.
Og þegar að er gáð eins vel og unnt er og öllu á botn hvolft – erum við ekki öll á einhvern hátt þess ‚vandræðaunglingur‘ sem þarf svigrúm til að láta draumana rætast – og þurfum á stundum bakhjarla og bjargvætti sem leiða okkur áleiðis á lífsbrautinni þar til við getum látið okkar eigin drauma, langanir og þrár ráða för.
Það er ekki amalegur boðskapur að fá með sér í veganesti þegar sögustundinni á Sögulofti lýkur, sögukonan, huldukonan, kvödd og haldið út í veturmyrkrið í Borgarnesi og áleiðis heim. Ríkari en var.