Guðlaug Sóley Höskuldsdóttir, eða gugusar, er 16 ára tónlistarkona sem er að gefa út sína fyrstu plötu. Hún sér sjálf um að semja tónlistina og taka hana upp. Árni Grétar, Futuregrapher, sér um að mixa og mastera plötuna.
gugusar hefur nú þegar gefið út 3 lög sem hægt er að finna á spotify og hafa þau fengið frábær viðbrögð.
Lagið I´m not supposed to say this er meðal annars á vinsældarlista rásar 2. Í fyrra tók gugusar þátt í músíktilraunum og var valin rafheili tilraunanna en hún er upprennandi listamaður sem á mikið inni.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Ég hef alltaf haft tónlistina í mér og fyrsta lagið sem ég samdi var klassískt píanó verk svo það má segja að tónlistin hafi þróast mikið síðan þá. Eftir að ég byrjaði að semja raftónlist þá komu lögin hvert á fætur öðru og þá fannst mér tilvalið að gefa út heila plötu.“
Segðu okkur frá þema verkefnisins?
„Lögin myndast oftast hjá mér á gítar eða píanó og ég færi þau síðan yfir í tövuna þar sem þau halda áfram að þróast þangað til ég er ánægð. Mér þykir mikilvægt að fylgja hjartanu og reyni ég að gera hluti sem eru öðruvísi eins og til dæmis að láta lengd laganna ekki endilega fylgja hefðbundnum stöðlum.
Platan Listen To This Twice er fysta plata gugusar og mun hún koma út í heild sinni 29. febrúar og eftir það kemur hún einnig á vínyl. Hægt er að taka þátt í útgáfunni með því að styrkja verkefnið á Karolinafund en þar er hægt að kaupa vínyl plötu í forsölu eða miða á útgáfutónleikana.“