Leiklestrafélagið í samvinnu við Þjóðleikhúsið: Heimsókn í Herdísarvík
Höfundur: Sella Páls
Leikstjórn: Þórunn Magnea Magnúsdóttir
Lýsing: Páll Ragnarsson
Leikendur: Arnar Jónsson, Sigurjóna Sverrisdóttir, Jón Magnús Arnarsson, Ólafur Ásgeirsson, Kjartan Darri Kjartansson.
Leiklestur er fyrirtaks form til að koma á framfæri leikverkum sem ella hefðu ekki hlotið pláss á fjölum hinna stærri leikhúsa, eða þá leikverka hvers þanþol menn vilja reyna með því að það mæti áhorfendum/áheyrendum og hljóti þá viðbrögð; leikskáldsins sé síðan að vinna úr verkinu og slípa það til, sé þess talið þurfa.
Leiklestrafélagið var stofnað í október 2019 í þeim tilgangi að styðja og kynna verkefni félagsins og stóð síðastliðið haust fyrir fjórum leiklestrum á verkum Guðmundar Steinssonar í samvinnu við Kristbjörgu Kjeld.
Sella Páls hefur kynnt nokkur verka sinna í formi leiklestra á undanförnum árum og hér hefur hún skrifað verk um þann atburð þegar Jochum Eggertsson, Skuggi kallaður, heimsótti Einar Benediktsson skáld í Herdísarvík og dró þangað með sér ungan Stein Steinarr. Heimsóknin sú endaði með nokkrum ósköpum og þótt enginn sé vitnisburðurinn, leyfir Sella sér að skálda í eyðurnar og glæða þar með þjóðskáldið Einar lífi, ásamt sambýliskonu hans síðustu árin, Hlín Johnson, syni hennar, Jóni Eldon og svo auðvitað þeim fyrrnefndu, sem tóku hús á skáldinu.
Það má fara nokkrum orðum um þá persónu sem drífur söguna áfram, Jochum Eggertsson. Hann var samkvæmt alfræðiritinu Wikipedia rithöfundur og skáld, alþýðufræðimaður og skógræktarmaður, bróðursonur Matthíasar Jochumssonar skálds. Rit hans þykja nokkuð sérstæð og hafði hann kenningar miklar um landnám Íslands; m.a. hélt hann því fram að Suðurland hefði verið albyggt þegar landnámsmenn komu og var þar fyrir írskur þjóðflokkur sem naut andlegrar handleiðslu Krýsa, en höfuðstöðvar þeirra voru einmitt í Krýsuvík. Höfuðprestur Krýsa á 11. öld var Kolskeggur vitri og undir leiðsögn hans og Jóns nokkurs Kjarvalssonar hins gamla á Vífilsstöðum skópu þeir og lærisveinar þeirra menningararf Íslendingar. Kolskeggur kenndi Íslendingum að skrifa með latínuletri, orti sjálfur Hávamál og skrifaði margar Íslendingasagna. Þar kom að höfðingjum þóttu Krýsar orðnir helstil umsvifamiklir, brenndu Jón Kjarvalsson og menn hans inni á Vífilsstöðum og settust um Krýsuvík sem þeim tókst svo loks að vinna. Kolskeggur komst undan á arabískum gæðingi en náðist síðar og var felldur; eftir það var Krýsum útrýmt, Kolskeggur varð Kölski og Ari fróði á endanum fenginn til að afmá Kolskegg úr sögunni.
Það er því ekki nema von að Jochum leiti í Krýsuvík; hitt var minna lukkað, að taka með sér ungskáldið Stein Steinarr, því það kastast illilega í kekki millli hans og húsbóndans í Herdísarvík, Einars Benediktssonar, og enda þau samskipti á því að Einar rekur Stein á brott með þeim orðum til Jochums, að hann skuli aldrei taka þennan mann með sér aftur í Herdísarvík.
Meginflétta verksins snýst þó um Hlín Johnson og son hennar, Jón Eldon, og draum hennar að peningar skáldsins nýtist til að koma syninum til mennta.
Ú þessum efniviði hefur Sella Páls fléttað saman sögu sem heldur áheyranda vel föngnum og þótt eflaust megi eitthvað slípa til þá sögu sem hún segir, verður ekki horft hjá því að Sella skrifar lipran texta sem fer vel í munni leikaranna.
Arnar Jónsson las hlutverk Einars Ben, þjóðskáldsins sem er sér vel meðvitað um stöðu sína. Á þeim tíma sem leikurinn gerist fer heilsu Einars hrakandi, minnisleysið nær æ sterkari tökum á honum og Hlín veitir honum strangt aðhald þegar kemur að áfenginu; Arnar fór ákaflega glæsilega með hlutverk þessa hnignandi jöfurs og samleikur hans og Sigurjónu Sverrisdóttur í hlutverki Hlínar átakamikill. Jón Magnús Arnarsson fór með hlutverk „Skugga“ og gerði vel; Kjartan Darri Kjartansson las hlutverk Steins Steinarrs og náði trúverðugum tilþrifum í deilunni við goðsögnina Einar. Ólafur Ásgeirsson fór fallega með hlutverk Jóns Eldons, sonar Hlínar.
Að sýningu lokinni var boðið upp á umræður með leikurum, leikstjóra og höfundi og var auðfundið að þessar persónur sem verkið sagði frá, eru hvergi nærri horfnar úr vitund okkar Íslendinga þótt liðin sé nær öld frá því að þeir atburðir gerðist sem sagt var frá. Það bendir til þess að þetta verk megi vel hljóta náð fyrir augum leikhússtjóra atvinnuhúsanna og fá að koma fyrir augu áhorfenda í fullbúinni leiksýningu.