Þjóðleikhúsið: Útsending
Höfundur leikrits: Lee Hall; byggt á kvikmyndahandriti eftir Paddy Chayefsky
Þýðing: Kristján Þórður Hrafnsson
Leikstjórn: Guðjón Davíð Karlsson
Leikmynd Egill Eðvarðsson
Búningar: Helga I. Stefánsdóttir
Lýsing: Halldór Örn Óskarsson
Tónlist: Eðvarð Egilsson
Hljóðmynd: Aron Þór Arnarsson, Kristján Sigmundur Einarsson og Eðvarð Egilsson
Myndbönd og grafík: Ólöf Erla Einarsdóttir
Leikarar: Pálmi Gestsson, Birgitta Birgisdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Hallgrímur Ólafsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson, Sigurður Sigurjónsson, Arndís Hrönn Egilsdóttir, Örn Árnason, Snæfríður Ingvarsdóttir, Arnar Jónsson, Edda Arnljótsdóttir, Baldur Trausti Hreinsson, Hildur Vala Baldursdóttir og Gunnar Smári Jóhannesson.
Leikhúsinu og leiklistinni á ekkert mannlegt að vera óviðkomandi. Stefnur og straumar í mannlegri hegðun, breytingar í lífsháttum og lífsáherslum – allt á þetta erindi upp á þær fjalir sem sýna okkur heiminn, svo vísað sé í orð meistara Shakespeares – leiklistin er sú listgrein sem segir okkur mannfólkinu söguna af okkur sjálfum, hún er sá spegill sem við eigum að geta borið okkur við.
Þegar litið er til verkefnavals undanfarinna ára hjá Þjóðleikhúsinu verður það ekki beinlínis sakað um að bregða upp þeim spegli sem við eigum að geta borið okkur við. Leikgerðir eftir kvikmyndum hafa verið býsna áberandi, og nú síðast er boðið uppá leikgerð eftir Lee Hall, þess sama og gerði leikgerð eftir kvikmyndinni Shakespeare in love sem hér kallaðist Shakespeare verður ástfanginn; Lee Hall var fyrst kynntur hér á landi með söngleiknum Billy Elliott, sem sýndur var í Borgarleikhúsinu.
Útsending er leikgerð uppúr tæplega fimmtíu ára gamalli kvikmynd, Network, sem vann til þó nokkurra óskarsverðlauna á sínum tíma, m.a. fyrir besta handrit, sem samið var af Paddy Chayefsky og kvikmyndin hefur síðar hlotið ýmsa vegsemd. Árið 2000 var hún valin til varðveislu í United States National Film Registry sem menningarlega, sögulega og fagurfræðilega framúrskarandi listaverk. Tveimur árum síðar hlaut hún viðurkenningu fyrir að hafa lagt nýja línu hvað varðar bandaríska afþreyingu og árið 2005 var handritið valið af báðum samtökum rithöfunda í Bandaríkjunum sem eitt af tíu bestu handritum í sögu kvikmynda þar vestra og árið 2007 var henni skipað í 64. sæti á lista yfir 100 bestu bandarísku kvikmyndirnar. Þetta er allt seinni tíma upphefð; á sínum tíma hlutu leikarar og handritshöfundur bæði óskarsverðlaun, Golden Globe verðlaun og BAFTA verðlaun, auk þess sem leikstjórinn, Sidney Lumet, og aðrir aðstandendur hlutu fjölda tilnefninga.
Öll þessi upphefð hefði átt að vekja grunsemdir verkefnavalsnefndar Þjóðleikhússins. Ef eitthvert listaverk er talið svo amerískt að það eigi alla þessa upphefð skilið þar vestra er það mikið álitamál hvort það eigi erindi á svið íslensks þjóðleikhúss. Í þessu tilviki er um að ræða kvikmynd sem segir sögu sjónvarps í ákveðnum tíma og á ákveðinni stund: Bandaríkin um miðjan áttunda áratug síðastliðinnar aldar. Í sögu Bandaríkjanna hafa ákveðnir hlutir gerst, sem beinlínis varða sjónvarp og viðhorf manna til þess: Víetnamstríðinu var nýlokið og var það að mati margra beinlínis vegna þess að það var komið í sjónvarpstækin heima í stofu almennings. Þá var það vegna gagnrýninnar fjölmiðlunar að sjálfur Bandaríkjaforseti neyddist til að segja af sér til að forðast réttarhöld sem hefðu nokkuð örugglega leitt til hneisulegrar afsagnar hvort eð er – sjónvarp á þessum tíma var að vinna sér sess sem trúverðugur miðill og það er alveg hárrétt sem Howard Beale segir í einni af lykilsenum Útsendingar, að það sem við vitum um umheiminn er fengið úr sjónvarpi. Honum óar við því og sjálfsagt eigum við að hafa af þessu nokkrar áhyggjur líka – en hér má skoða málið frá tveimur hliðum.
Fjölmiðlafræðingurinn Marshall McLuhan staðhæfði eitt sinn – og mér vitanlega hefur enginn andmælt þeirri staðhæfingu – að „the Media is the Message“; með því átti hann við að fjölmiðillinn sjálfur mótaði og væri boðskapurinn sem áhorfandinn tæki til sín. Það snýst ekki aðeins um hvað fjölmiðillinn segir um umheiminn (líkt og Howard Beale hafði áhyggjur af) heldur einnig hvernig – þ.e. að allt væri brotið niður í þær smáu einingar sem hentuðu miðlinum en sem breyttu þekkingunni og afskræmdu hana þannig að hún aftengdist raunveruleikanum og yrði allt annar raunveruleiki. Þetta sést ekki síst í því sem á okkar tímum kallast „fake news“, þar sem fjölmiðillinn er látinn ganga erinda annarra hagsmuna en þeirra sem halda fram staðreyndum og sýna raunheima eins og þeir eru. Er nema von að menn eins og Howard Beale fari villur vega í slíkum heimi. Heimi, sem þeir geta hvorki höndlað né skilið.
Þetta hygg ég hefði verið skynsamlegt að listrænir stjórnendur Útsendingar hefðu haft í huga og látið marka sýninguna meira en raunin var. Í Network – Útsendingu – gengur höfuðpersónan Howard Beale af göflunum, öllum er ljóst að hann ruglast í ríminu við að neyðast til að horfast í augu við þann persónulega harmleik að missa vinnuna og þar með missa fótanna. Þar með verður Útsending náskyld gríska harmleiknum sem er í sjálfu sér góðra gjalda vert, en áhorfandanum er færður sá boðskapur að vilji maður líkt og Howard blessaður gagnrýna kerfið, fylgir því sá böggull skammrifi að maður verður fyrst geðveikur, síðan skotinn til bana af hryðjuverkamanni, sem birtist líkt og Deus ex machina til að hnykkja á þeim boðskap. Er þá ekki beinlínis verið að segja að manni sé hollast að taka ekki mark á fjölmiðlum en láta það eiga sig að gagnrýna þá, hvað þá reyna að breyta þeim – þeir eru slík skrímsli að það er ógerlegt án þess illa fari.
Það er einkennileg tilfinning að sjá leikmynd Egils Eðvarðssonar á sviði Þjóðleikhússins. Hún er í sjálfu sér glæsileg, trúverðug og þjónar vel tilgangi sínum, en hún er engu að síður líkt og aðskotahlutur á sviði Þjóðleikhússins, passar engan veginn inn í leikhúsbygginguna og stingur algerlega í stúf við arkitektúr og útlit Þjóðleikhússins. Hefði kannski verið heppilegra að finna annað rými fyrir sýninguna? Þungamiðja leikmyndarinnar er myndverið, þar sem saman sitja upptökustjórar og aðrir starfsmenn útsendingarinnar og til þess að samræður manna á milli fái notið sín gagnvart áhorfendum þurfa leikarar að færa sig fram á sviðsbrún og ræða saman þar; þetta gerir að verkum að sumar sviðshreyfingarnar eru ankannalegar, það þarf að færa samtölin fram á sviðsbrún til að þau nái til áhorfenda. Annar kostur, sem nokkuð er beitt, er að sýna samtöl á stórum skjá sem hangir fyrir ofan og blasir við áhorfendum; sú lausn er í sjálfu sér ágæt svo langt sem hún nær, en það tekst þó ekki að skapa heildstæða listræna lausn sem hentar sýningunni.
Sem fyrr segir er Network tæplega hálfrar aldar gömul saga og hér er farin sú leið að halda sögunni „í períóðu“ – búningar eru 1976-ish og ekkert er gert í texta eða í leik til að færa söguna til nútíma; hins vegar er tæknibúnaðurinn allur – sjónvarpsskjáir, myndatökuvélar og annað af því tagi – úr nútíma og það er stílbragð sem gengur ágætlega upp.
Sagan í Útsendingu er næsta einföld. Howard Beale er þáttastjórnandi í fréttaþætti sem líður fyrir að áhorfið minnkar og á endanum er honum sagt upp eftir tuttugu og fimm ára starf. Hann fyrtist við og hótar því að svipta sig lífi í beinni útsendingu og allt í einu er þáttur hans orðinn miðpunktur athyglinnar og Howard fær að halda áfram á skjánum. Hann fer að tjá sig um heimsmálin, grimmdina, hræsnina og blekkinguna í þjóðfélaginu og hvetur á endanum fólk til að rísa upp. Á sama tíma leitar samstarfskona hans hófanna við hryðjuverkafólk sem gengur á endanum inn í myndver og kálar Howard.
Í kynningarefni Þjóðleikhússins er sagt að hér sé á ferðinni spennandi leikrit sem veki fjölda spurninga um vald fjölmiðla og áhrif þeirra á líf fólks. Eiginlega er eina spurningin sem vaknar þegar horft er á Útsendingu er afhverju í ósköpunum er verið að taka þessa bandarísku hálfrar aldar gamla sögu til sýningar?
Það virðist nokkuð augljóst að verkefnavalsnefnd Þjóðleikhússins hefur verið að horfa á aðsóknartölur Breska Þjóðleikhússins, en sýning þess ku hafa verið á fjölunum bæði í London og New York og auk þess unnið til fjölda verðlauna. En hér á sviði hins íslenska Þjóðleikhúss verður úr heldur þunn súpa sem segir íslenskum áhorfendum lítið, enda fjölmiðlaheimur okkar Íslendinga talsvert frábrugðinn fjölmiðlaheimi í hinum enskumælandi heimi. Það er staðreynd, sem hefði mátt taka með í reikninginn þegar verið var að velta fyrir sér hversu sniðugt það væri að taka Útsendingu til sýningar. Þá hefðu menn kannski komist að þeirri niðurstöðu að það væri hreint ekkert sniðugt að taka Útsendingu til sýningar!
Ekki verður hjá komist að segja eitthvað um frammistöðu leikara og þá einkum Pálma Gestssonar í hlutverki Howards Beals. Skemmst frá að segja þá vinnur Pálmi leiksigur – svo langt sem það nær. Hann býr yfir frábærri tækni og beitir henni hér til fulls, hvert smáatriði túlkunar hans er svo gríðarlega vel unnið að aðdáun vekur. Það hefði vissulega verið betri kostur að gáfur þessa frábæra leikara hefðu fengið að njóta sín í sögu sem eitthvert erindi ætti til íslenskra leikhúsáhorfenda en það er eins og Pálmi sé yfir það hafinn, leikur hans er sterkari en sjálf sagan sem verið er að segja, aflmeiri en sjálft Þjóðleikhúsið – Pálmi nær að gæða Howard því lífi að hann kemur okkur við og örlög hans varða okkur einhvers. Það er ekki lítill leiksigur í sögu sem að öðru leyti hrærir vart við áhorfendum og sem, þegar öllu er á botninn hvolft, hefur ekkert að segja íslenskum áhorfendum og á ekkert erindi upp á fjalir Þjóðleikhúss okkar.
Það hefur lítið upp á sig að gera grein fyrir frammistöðu annarra leikenda og aðstandenda sýningarinnar. Eiginlega er bara að vona að þessi sýning hverfi sem fyrst af fjölunum og að Pálmi Gestsson fái raunverulegt hlutverk að bíta í.