Miðnætti leikhús í samvinnu við Leikfélag Akureyrar og Tjarnarbíó: Djákninn á Myrká – sagan sem aldrei var sögð
Handrit og söngtextar: Agnes Wild og leikhópurinn
Leikstjórn: Agnes Wild
Leikmynd og búningar: Eva Björg Harðardóttir
Lýsing: Lárus Heiðar Sveinsson
Tónlist og hljóðmynd: Sigrún Harðardóttir
Leikarar: Birna Pétursdóttir, Jóhann Axel Ingólfsson
Leikhópurinn Miðnætti leikhús á rætur norðan heiða en hefur nú lagt land undir fót og sótt
höfuðstaðinn heim til að sýna Djáknann á Myrká – söguna sem aldrei var sögð. Undirtitillinn hljómar dálítið eins og öfugmæli, því ef það er eitthvað sem Miðnætti leikhús gerir, þá er það einmitt að segja söguna – kannski eins og hún hefur aldrei verið sögð, kannski eins og hefði átt að segja hana frá upphafi eða jafnvel eins og hún fær loksins að vera sögð. Hvað sem því líður, fer ekki á milli mála að Miðnæturfólkið segir söguna af Djáknanum á Myrká, Guðrúnu, vinnukonu á Bægisá og fjöldamörgu öðru fólki í sveitinni á kostulegan hátt og óborganlegan! Það er auðséð að frásagnargleðin og leikgleðin ræður ríkjum í leikhóp miðnættisins!
Það mætti ætla að sagan af djáknanum á Myrká er kunnari en svo að þurfi að eyða á hana mörgum orðum. Þó má rekja efni hennar stuttlega, lesendum til hægðarauka við að átta sig á þræði hennar, þótt hann sé löngu orðinn hluti af okkar sameiginlega menningararfi, sem flestir gætu trúlega rakið í svefni.
Guðrún, áðurnefnd vinnukona prestsins á Bægisá, er í þingum við djáknann, sem er að Myrká; sá á gráföxóttan hest sem heitir Faxi. Nú ríður djákninn til Bægisár og býður Guðrúnu til jólagleði að Bægisá og kveðst munu sækja hana á tilteknum tíma. Þetta er auðvitað að vetri til og þegar djákninn er á leið heim á Myrká eftir fundinn með Guðrúnu er komin asahláka og leysing og þegar hann ríður yfir brúna á Hörgá fer ekki betur en svo að brúin brotnar undan honum og hestinum, djákninn ferst en hesturinn kemst til Myrkár. Nú fara engar fréttir milli Myrkár og Bægisár, þannig að Guðrún á ekki von á öðru en að djákninn sæki hana fyrir jólagleðina eins og um var samið. Þegar barið er að dyrum á Bægisá á tilsettum tíma fer Guðrún út og sér þar fyrir Faxa og mannveru hjá, sem hún telur vera djáknann, sem þó er eitthvað undarlegur í háttu. Hún hefur brugðið um sig hempu, en ekki haft tíma til að fara í ermarnar og sest á bak hestinum fyrir aftan djáknann. Tungl veður í skýjum en þegar ský rekur frá tungli sér Guðrún aftan á hnakka djáknans og glittir þar í bera höfuðkúpuna. Djákninn ríður með Guðrúnu til kirkjugarðsins á Bægisá og ætlar þar að tæla hana með sér í opna gröf, en þegar hann kippir í hempu hennar kemur sér vel að hún hafði ekki farið í ermarnar, djákninn steypist ofaní gröfina sem lokast á eftir honum, en Guðrún bregður á það ráð að kippa í klukkustrenginn og hringir án afláts uns menn koma frá Myrká og bjarga henni til bæjar. Draugur djáknans – því það var hann sem hafði sótt Guðrúnu til Bægisár og ætlað að trylla hana ofaní gröfina – ofsótti Guðrúnu eftir þetta og þurfti að kveðja til galdramann frá Skagafirði til að kveða hann niður. Það tókst, en Guðrún varð aldrei söm og áður.
Hvað um það – í sögunni um Djáknann á Myrká má finna merkilegt frásagnartæknilegt stílbragð, sem hún er nokkuð ein um í íslenskum sagnaarfi. Sagan breytir sumsé um sjónarhorn í miðjum klíðum og um stundarsakir. Frá því að vera eins hlutlæg frásögn og hugsast getur – eins og líkt er farið um flestar þjóðsögur – gerist það að frásögnin lýsir því sem Guðrún ein er til vitnis um: fundinum með draug djáknans, hinni þöglu reið til Myrkár þar til kemur að Hörgá þar sem Guðrún sér hvítan blett í hnakka draugs og síðan reiðinni í kirkjugarð þangað til komið er að Guðrúnu hringjandi klukkunum. Það kemur hvergi fram í sögunni að Guðrún hafi sagt neinum öðrum frá atvikum en það er skýrt tekið fram að hún hafi aldrei orðið söm eftir sem áður. Í þeirri frumgerð sögunnar sem við þekkjum úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar er málið leyst þannig að vitnað er til tveggja ólíkra tilbrigða sögunnar – í öðru tilbrigðinu er það tilviljun sem veldur því að Guðrún sér hinn hvíta blett í hnakka draugs, í hinu lyftir hún hatti djáknans og sér þá blettinn. Áheyranda er gefinn frjáls kostur með það hvoru hann trúir, en með því að gefa kost á tveimur tilbrigðum er trúverðugleiki sögunnar styrktur.
Þetta getur valdið nokkrum vandræðum hverjum þeim, sem ætlar að túlka söguna í öðru listformi og í þeim dæmum sem undirritaður man í svipinn hefur þetta staðið í mönnum; það hefur einfaldlega ekki tekist að skapa trúverðuga sögu þegar kemur að því að Guðrún er ein til frásagnar og ber þar tvennt til: annars vegar er valkosturinn úr sögunni, áhorfandi fær bara eitt tilbrigði sögunnar og fær því ekki að velja og hins vegar er sagan sögð með Guðrúnu sem aðalsöguhetju. Hversu viðfelldin sem Guðrún kann að þykja er það nú engu að síður hún sem gengur í gildru draugs djáknans og það hlýtur því að ganga illa upp að gera hana að hetju sögunnar.
Það er því ótrúlega gaman að sjá, að miðnættisfólkið skýtur sér fimlega hjá þessu vandamáli og leysir það á frábæran hátt, einfaldlega með því að treysta leikhúsforminu og áhorfendum þess. Lausnin er því eiginlega jafn einföld og hún er snjöll – en það er með hana eins og egg Kólumbusar, það þarf einhver að láta sér detta þetta í hug!
Hér er það einfaldlega gert með því að breyta í sífellu um sjónarhorn! Og það er hægt með því að leikhúsatburðurinn sjálfur er söguheimurinn, það eru leikararnir sem kynna söguna og persónur hennar og svo eru það hinar ýmsu persónur sem fá hver sína „fimmtán mínútna frægð“ til að baða sig í; með því að treysta á samband þeirra Birnu og Jóhanns Axels við áhorfendur og að áhorfendur fylgi þeim eftir – ekki Guðrúnu! – þá er vandamálið með trúverðugleika sögumanns og/eða Guðrúnar hreinlega leyst. Þar með er líka annað vandamál úr sögunni, sem oft hefur valdið vandræðum þeim, sem miðla vilja menningararfi til nýrra kynslóða, en það er sjálft tungumálið og frásagnarstíllinn. Tungumál nítjándu aldar, þegar sagan af Djáknanum á Myrká er færð í letur, er býsna fornlegt nú, í upphafi hinnar tuttugustu og fyrstu aldar, og frásagnarstíllinn frábrugðinn því sem nú gerist í fjölmiðlum. Miðnætti leikhús færir frásögnina sem slíka til nútímans, beitir nútíma stílbrigðum í frásögn og framsetningu og hikar ekki við að færa sér í nyt öll kómísk áhrif sem vinna má af því. Ef eitthvað er, eykur það trúverðugleikann enn frekar og verður meðal annars til þess að atriðið þegar draugurinn er kveðinn niður verður áhrifamikið og átakanlegt. Eða, ef notast má við slanguryrði: gæsahúðarlegt!
Sýningin var unnin af leikhópi og listrænum stjórnendum í því sem í leikskrá er kallað „samsköpunar“ aðferð, á ensku „devised“. Í gamla daga, þ.e. í árdaga frjálsra leikhópa á Íslandi á sjöunda áratugnum, var slík hópvinna einfaldlega kölluð leiksmiðja, enda var hér starfandi leikhópur sem kallaði sig því nafni og sýndi nokkrar athyglisverðar sýningar á sínum tíma. Það er ekkert að því að nota það góða orð, leiksmiðju, yfir sýningu Miðnættis leikhúss.
Það má hafa fleiri orð um vinnu Miðnættis leikhúss um umbreytinguna á þjóðsögunni yfir í nútíma leikhúsverk – en látið nægja, að hér var fallegt þrekvirki unnið, sem svo sannarlega má kanna hvort henti ekki fleiri sögum úr menningararfi okkar Íslendinga og er Miðnætti leikhúss hvatt til þess.
Leikarar eru aðeins tveir, auk mjög virkrar hljóðmyndar, sem hönnuð er af Sigrúnu Harðardóttur. Þau Birna Pétursdóttir og Jóhann Axel Ingólfsson eru bæði ungir leikarar, hún útskrifuð frá Rose Bruford College of Theatre & Performance í London, hann frá Stella Adler Studio of Acting í New York. Bæði hafa þau leikið nokkuð hér á landi að námi loknu, mestmegnis norðan heiða hjá Leikfélagi Akureyrar. Þau bera þess merki að vera menntuð sínu hvoru megin Atlantsála, leikstíll þeirra er nokkuð mismunandi og má sjálfsagt benda á að Rose Bruford lagði á sínum tíma ívið meiri rækt við hið talaða mál en Stella Adler; báðir skólarnir styðjast þó að verulegu leyti við aðferð Stanislakvskíjs, sem kveður á um að leikarinn eigi að styðjast við tilfinningar sínar í karaktersköpun og leik; þó hefur Stella Adler bætt þar í og kveður líka á um að leikarinn skuli styðjast við ímyndunarafl sitt líka.
Sá leikstíll sem Djákninn á Myrká – sagan sem aldrei var sögð krefst er ákaflega hraður. Þau Birna og Jóhann Axel leika samtals um tuttugu hlutverk og hvert þeirra þarf að meitlast skýrum dráttum og hiklausum, ímynd karaktersins svo djúp og afdráttarlaus að hann beri sögu sína með sér. Það má styðja það rökum að þau sæki að sumu leyti hvort í sinn skólann við karaktersköpunina og hefði leikstjórinn, Agnes Wild, mátt stilla þau ívið betur saman hvað það varðar – Birna meitlar hvern karakter skýrum dráttum, en grunnum meðan karakterar Jóhanns Axels eru meira á dýptina en ekki að sama skapi skarpir. En þetta kemur þó lítið að sök; mestu skiptir að samleikur þeirra og tæknilegt öryggi er með ágætum og skilar sér í fjörlegri, bráðskemmtilegri og meinfyndinni sýningu sem gerir hvort tveggja í senn, að miðla mikilvægum menningararfi þjóðarinnar á sínum eigin forsendum og skapa eftirminnilega leiksýningu sem bara allir ættu að sjá!
Djákninn á Myrká – sagan sem aldrei var sögð er sýning sem hentar öllum aldri og kannski tilvalið fyrir kynslóðir að fara saman á hana. Eldri kynslóðin getur þá furðað sig á því eftirá hve vel yngri kynslóðir geta tekið til sín menningararfinn og gert að sínum. Ekki síst þegar hann er borinn á borð eins og Miðnætti leikhús gerir – með sköpunargleði og leikgleði að vopni og af virðingu fyrir arfinum og áhorfendum.