Vefritinu ÚR VÖR var ýtt úr vör þann 15. mars árið 2019 og fagnaði því nýlega eins árs afmæli. Í vefritinu er fjallað um listir, menningu, nýsköpun og frumkvöðlastarf á landsbyggðinni og hafa birst þegar þetta er skrifað yfir 160 greinar í þessum málaflokkum. Þessa dagana rær vefritið lífróðri og búið að setja á fót áskriftarsöfnun fyrir vefritið til að tryggja útgáfuna.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
Það eru hjónin Aron Ingi Guðmundsson og Julie Gasiglia sem standa að baki vefritinu, en Aron Ingi er ritstjóri og Julie hönnuður. „Hugmyndin að verkefninu vaknaði kviknaði er við bjuggum á Patreksfirði og settum á fót menningarmiðstöðina Húsið-Creative Space þar í bæ. Okkur fannst fjölmiðlaumfjöllun á Íslandi of höfuðborgarmiðuð og fannst að það vantaði umfjöllun um það magnaða starf sem fram fer á landsbyggðinni hringinn í kringum landið. Staðbundnir miðlar fjalla vissulega um hitt og þetta sem á sér stað á svæðinu, en okkur fannst vanta einhvern vettvang sem fjallaði á einum stað um málefni allan hringinn í kringum landið, að höfuðborginni undanskilinni. Ég (Aron Ingi) hef starfað í gegnum tíðina sem blaðamaður, m.a. fyrir Fréttablaðið og sem lausapenni og eftir að hafa velt hugmyndinni fyrir okkur þá leituðum við að bakhjörlum og settum m.a. á fót söfnun á Karolina Fund til að ná að ýta verkefninu úr vör og það tókst sem betur fer! “
Segðu okkur frá þema verkefnisins?
„Reglulega birtist vel unnið og ítarlegt efni og er vefritið svokallaður rólegur fjölmiðill, þar sem fólk getur tekið sér góðan tíma í að lesa efnið. Ekki er því um fréttavef að ræða og því eru ekki æsifréttir á boðstólum, heldur jákvæðar og uppbyggjandi umfjallanir sem geta veitt fólki innblástur og verið sameiningarvettvangur sem eflir og styrkir landsbyggðina. Yfirskriftin er „Litlir staðir, stórar hugmyndir“ en við viljum sýna hvernig fólk lifir lífi sínu á litlu stöðunum sem skipta svo miklu máli.
Allir sem maður heyrir í varðandi verkefnið, hvort sem það eru viðmælendur eða aðrir eru sammála um mikilvægi þessa miðils. Það gefur okkur vind í seglin sem er mikilvægt því við viljum halda áfram. En það er eins með þetta og svo margt annað að það kostar peninga að halda þessu úti. Við viljum halda áfram og bæta í ef eitthvað er. Við höfum áhuga á að bæta við enskum hluta í vefritið og byrja einnig með hlaðvarpsþætti, auk þess myndum við vilja láta fylgja hljóðskrá með hverri grein, svo fólk geti átt þess kost að hlusta á efnið.
Þetta yrðu spennandi nýjungar og með því að fá fólk í lið með okkur til að styðja við verkefnið, fá lesendur til að fjármagna vefritið, þá er þetta verkefni orðið verkefni okkar allra!“