Skrifstofuplanta er titillinn á nýrri plötu söngvaskáldsins Sveins Guðmundssonar sem er að koma út á næstu vikum. Hópfjármögnun, sem nú stendur yfir á Karolina Fund, snýst um að safna fyrir vinylútgáfu á plötunni.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Ég gaf út gömlu plötuna mína „Fyrir herra Spock, MacGyver og mig“ á geisladisk í lok árs 2013. Nokkrum árum seinna létu vinir mínir gera eitt stykki vínylplötu af „Fyrir herra Spock, MacGyver og mig“ og gáfu mér í útskriftargjöf.
Mér fannst svo gaman að fá plötuna mína á vinyl og eiga hana í plötusafninu mínu að ég ákvað að ef ég næ að taka upp aðra plötu þá myndi ég reyna að koma henni út á vinyl. Þannig að það er aðalmarkmið verkefnisins, að safna fyrir útgáfu á nýju plötunni á vinyl og eiga eitt sjálfur í safninu.“
Segðu okkur frá þema verkefnisins?
„Platan sjálf og lögin eru flest um sjálfan mig og eins konar sjálfsþerapía. Til dæmis lagið „Drasl“ var samið fyrir nokkrum árum er ég áttaði mig á því að hugarástand mitt og ástand eigna minna var það sama, það var allt í drasli, bæði heima hjá mér og í höfðinu mínu. Er ég áttaði mig á ástandinu fór ég að taka til, að innan sem utan. „Drasl“ er þegar komið út sem smáskífa af plötunni ásamt öðru lagi „Húð og hár“ á netinu.
Í grunnin eru lögin mín afar einföld en ná stundum að flækjast með fleiri hljóðfærum. Þannig eru sum lögin bara með rödd, kassagítar og bassa og önnur með áslætti, rafmagnsgítar, hljóðgervlum og allskyns óhljóðum. Öll lögin eru tekin upp í hljóðverinu Aldingarðurinn undir stjórn Magnúsar Leifs Sveinssonar. Hann er afar liðtækur á tökkunum sem og á hin og þessi hljóðfæri. Magnús Leifur á til dæmis afar skemmtilegt gítarstef í einu lagi sem er að koma út í þessum skrifuðu orðum og er titillag plötunnar. Ég ræði útsetningar laganna við hann, fæ álit og saman höfum við til dæmis smíðað hljóðgervlalínur til að lyfta lögunum upp hér og þar.
Eitt lag sem mig langaði til að koma inn á plötuna er samið við texta eftir Helgu systur mína. Hún samdi fyrir mörgum árum mjög fallegt og skemmtilegt ljóð á ensku sem ég fékk að aðlaga að mér og mínum stíl. Ég þýddi ljóðið yfir á íslensku og með hennar leyfi nefndi það „Ábót“. Það verður fyrsta lagið á plötunni og er svolítið morgunlag.
Svo er annað lag sem mig langaði mikið til að hafa með en það er ábreiða af lagi með hljómsveitinni Randver. Faðir minn, Guðmundur Sveinsson, var í þeirri sveit og söng lagið inn á plötu fyrir meira en 40 árum síðan. Lagð heitir „Dansinn“ er samið af gítarleikara Randver, Jóni Jónassyni, við kvæði alþýðuskáldsins Káinn. Ég fékk svo bróður minn Kristmund og föðurbróður minn Gunnlaug til að syngja það með mér á upptökunni.
Þannig að þó ég sé að miklu leyti einyrki í tónlistinni þá á ég góða að sem setja sinn brag á lögin.“