Halldóra Sigurðardóttir hefur starfað við þýðingar og leiðsögumennsku en hefur núna ákveðið að
gefa út sína fyrstu bók sem heitir Dauði egósins en þar kryfur hún málefni hjartans af mikilli
einlægni.
Hvaðan kom þessi hugmynd að skrifa þessa bók?
„Hún er eiginlega búin að vera að gerjast í mér í mörg ár en lengi vel vildi ég ekkert hafa með það að skrifa bók en ég fann sífellt fyrir meiri pressu og fann að ég yrði að koma upplifunum mínum í orð og koma þannig þessum skilaboðum frá mér. Það hefur ýmislegt gerst í mínu lífi og ýmsar upplifanir sem höfðu mikil áhrif og í kjölfarið fór ég að skoða fólk og aðstæður út fá öðru sjónarhorni og setja hlutina kannski í aðeins meira samhengi. Þetta er mjög persónuleg bók þar sem ég kafa djúpt ofan í erfiða hluti og samskipti við mismunandi fólk.“
„Það var í byrjun mjög stressandi tilhugsun og ég veit ekki hversu oft ég hef hætt við og hugsað með mér „nei Dóra hvað ertu að gera?“ En svo kom að því að ég tók ákvörðun og það var ekki aftur snúið og nú hugsa bara með mér að það er spennandi að prófa eitthvað nýtt. Leiðsögumennskan er eins og flestir vita komin í hlé, hversu langt vitum við ekki en eitthvað verður maður að hafa fyrir stafni á meðan.“
Um hvað fjallar bókin?
„Það er frekar erfitt að segja í stuttu máli, ég vil líka ekki gefa alveg söguþráðinn uppi en ég er aðallega að kryfja hvernig við erum búin að vera að horfa á lífið, þ.e. með augunum okkar og þessum hefðbundnu skynfærum og hvernig mörg okkar bregðumst við, svolítið eins og lauf í vindi en það er að mínu mati til betri leið. Við mannfólkið erum svo stórkostleg og svo miklu stærri og kraftmeiri en við gerum okkur grein fyrir og ég er svolítið að benda á það í þessari bók, þannig að skilaboðin eru mjög jákvæð í lokin þó ég þurfi að fara í gegnum erfiða hluti til að útskýra það. Bestu sögurnar að mínu mati eru sögur sem eru sannar og gefa lesandanum einnig tækifæri á að finna sig í sögunum. Þetta er því mjög mannleg bók og ég held að allir muni finna sig að einhverju leyti í henni.“
Þú þýddir Leyndarmálið var það ekki?
„Jú og ég fjalla aðeins um hana í bókina minni því þessi hún hafði gífurleg áhrif á mig þegar ég var að þýða hana og það er ekki laust við að ég hugsi með mér núna að þessi bók gæti jafnvel komið að góðum notum í kjölfar kreppunnar sem við okkur blasir núna. Ég tel að hún geti hjálpað fólki að horfa á lífið sitt og kreppuna með öðrum augum og finna kraftinn sem býr innra til að leysa öll þessi vandamál sem bíða okkar.“
Ertu langt komin með bókina?
„Já, ég er frekar langt komin með hana, er í fyrstu umferð að fara yfir textann og geri ráð fyrir að gefa bókina út í sumar, eða eins fljótt og mögulegt er.“
Eitthvað sem þú vilt segja okkur að lokum?
„Já mig langaði til að deila með ykkur að þetta er mjög áríðandi og krefjandi verkefni sem ég er að taka mér fyrir hendur, ég er að gefa ykkur hjarta mitt í þessa bók og mér þætti mjög vænt um ef þið mynduð leggja mér lið og styrkja útgáfu bókarinnar. Mig langar einnig að bæta við að ég ætla að gefa öllum föngum á Íslandi þessa bók og líka Kvennaathvarfinu, Vogi, Konukoti, Samhjálp og öllum þeim frábæru stöðum sem eru fyrir fólk í erfiðleikum, Það væri því dásamlegt ef þið gætuð hjálpað mér að láta þessa útgáfu verða að veruleika.“