Páll Pampichler Pálsson kom til eins árs dvalar frá Austurríki en ílengdist á Íslandi í 48 ár. Nýlega kom út bók um lífshlaup Páls á þýsku og nú hefur bókin verið þýdd yfir á íslensku og efni hennar aukið til muna. Til dæmis birtast í henni fyrsta sinn skrá yfir um 140 tónverk Páls. Það eru þau Rut Ingólfsdóttir, Helga Hauksdóttir og Sigurður Ingvi Snorrason sem hafa veg og vanda af útgáfu bókarinnar en þau eru vinir og samstarfsmenn Páls til fjölda ára.
Hvað kom til að þið réðust í þetta verkefni?
„Okkur fannst að Páll ætti þetta inni hjá okkur.
Páll er ekki einungis góður vinur okkar heldur átti hann sem stjórnandi og tónskáld ríkan þátt í ótrúlegri uppbyggingu tónlistarlífs á Íslandi. Hann var um áratuga skeið stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Karlakórs Reykjavíkur, Lúðrasveitar Reykjavíkur, Kammersveitar Reykjavíkur og Skólahljómsveitar Vesturbæjar.
Í bókinni segir frá uppvexti Páls, fyrstu árunum á Íslandi og heilladrjúgu starfi hans í þágu tónlistarinnar. Þá höfum við og fleiri íslenskir tónlistamenn ritað kafla um kynni okkar af Páli og bætt í bókina skemmtilegum ljósmyndum frá ferli Páls.“