Tryggvi er einn af þeim listamönnum sem hefur gleymst í tímanna rás. Hann átti stóran þátt í því að gera sjálfstæðisbaráttu Íslendinga myndræna en hann var helsti hönnuður Alþingishátíðar 1930. Tryggvi teiknaði skjaldarmerki Íslands og var fyrsti atvinnuteiknarinn og brautryðjandi í auglýsingateiknun á Íslandi. Andrés Úlfur Helguson safnar nú fyrir bók um lífshlaup og list Tryggva Magnússonar á Karolina Fund.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
Það má segja að hugmyndin að útgáfu á ævisögu um langafa minn hafi ekki orðið að veruleika fyrr enn að amma mín Þórdís Tryggvadóttir ákvað að láta hið gríðarmikla myndasafn Tryggva af hendi til varðveislu til frambúðar. Eftir mikla vinnu í samstarfi með Landsbókasafn Íslands og fleiri listaunnendur, sérfræðinga og fjölskyldu var ekkert annað í stöðunni enn að koma þessu verkefni á koppinn.
Segðu okkur frá þema verkefnisins
Í Ævisögunni um Tryggva Magnússon verður líf hans og ferill rakinn í máli og myndum þar sem stuðst verður við áður óbirt safn hans sem og áður útgefið efni. Þessi frumgögn, sem í fyrsta skipti fá að líta dagsins ljós, gegna því veigamiklu hlutverki í allri umfjöllun og innsýn í líf málarans og eru þungavigtin í komandi skrifum um ævi og starfsferil listamannsins. Þetta voru miklir umbrotatímar í íslensku þjóðlífi. Þar fór mest fyrir sjálfstæðisbaráttu landans, sjálfsímyndasköpun nýfullvalda þjóðar og hvernig Íslendingar álítu sig menningarlega frábrugðna öðrum, sem þjóð með sameiginlegan uppruna og sögulega fortíð.
Tryggvi var brautryðjandi í grafískri hönnun og gríðarlega afkastamikill listamaður og var hann fenginn í að teikna allt sem fólki dátt í hug á þessum tíma. Hann myndskreytti tugi barna- og ævintýrabóka. Hann var ritstjóri og aðal teiknari skopádeilublaðsins Spegilsins í yfir tuttugu ár. Hann var einn af þeim merku listamönnum sem tók þátt í að hanna og myndskreyta allt fyrir Alþingishátíðina 1930. Hann teiknaði jólasveinana með ljóðum Jóhannesar úr Kötlum. Tryggvi var fyrsti auglýsingateiknari Rafskinnu árin 1935-1945 og árið 1944 var teikning hans af landvættunum viðurkennd sem opinbert skjaldarmerki lýðveldis Íslands. Þessi upptalning er alls ekki tæmandi og verður það talsverð áskorun að koma því öllu fyrir í einni bók. Ef það er einhver þarna úti sem býr yfir einhverjum fróðleik um Tryggva og vill deila honum með höfund er bent að netfangið skjaldarmerkið@gmail.com.
Hér er hægt að skoða og taka þátt í útgáfunni.