Erna Marín Kvist, multikunstner, er höfundur og myndskreytir bókarinnar Ævintýri í Bulllandi. Þegar COVID-faraldurinn geisaði og samkomubann var innleitt dunduðu mæðginin Erna Marín og yngri sonur hennar, Sindri Nóel, sér við skrif barnabókar. Þau búa í nágrenni við Laugardalinn og notuðu umhverfi sitt sem innblástur við skrif bókarinnar.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Öll þurfum við okkar griðastað á skrýtnum og stundum erfiðum tímum. Eins og margir fundu örugglega fyrir þá vorum við mikið saman og mikið heima fyrir í samkomubanninu. Það var eiginlega nauðsynlegt að hafa eitthvað skemmtilegt og öðruvísi fyrir stafni og úr því þróaðist barnabókin Ævintýri í Bulllandi.“
Bókin fjallar um ævintýri Sindra og Sunnu sem eru að leika sér á leikvelli í Laugardalnum og gleyma sér í gleði og leik. Þau enda í Húsdýragarðinum þar sem þau bulla með alls konar kunnugleg ævintýri og búa jafnframt til sín eigin.
„Sjálf hef ég ótrúlega gaman af ævintýrum og töfraheimi barna. Börn eru gædd gáfum, næmni og sköpunargleði sem við fullorðna fólkið gleymum stundum í amstri dagsins. Börn og foreldrar hafa eflaust kynnst hvor öðru betur síðastliðnar vikur og fullorðnir jafnvel tengst betur sínu innra barni. Það finnst mér gjöful uppskera í kjölfar COVID. Markmið þessarar bókar er börn og fullorðnir geta átt góðar stundir saman með uppbyggjandi og jákvæðum skilaboðum.