Bakkabræður teknir í samfélagssátt

Leiklistargagnrýnandi Kjarnans fjallar um Bakkabræður í uppsetningu Leikhópsins Lottu.

Leikhópurinn Lotta: Bakkabræður
Leikhópurinn Lotta: Bakkabræður
Auglýsing

Leikhópurinn Lotta: Bakkabræður

Höfundur: Anna Bergljót Thorarensen

Leikstjórn: Þórunn Lárusdóttir

Danshöfundur: Viktoría Sigurðardóttir

Höfundar lagatexta: Anna Bergljót Thorarensen og Baldur Ragnarsson

Höfundar tónlistar: Baldur Ragnarsson, Rósa Ásgeirsdóttir, Þórður Gunnar Þorvaldsson

Leikmyndahönnun: Andrea Ösp Karlsdóttir og Sigsteinn Sigurbergsson

Búningahönnun: Kristína R. Berman

Hljóðhönnun og útsetningar: Þórður Gunnar Þorvaldsson

Leikarar: Andrea Ösp Karlsdóttir, Huld Óskarsdóttir, Júlí Heiðar Halldórsson, Sigsteinn Sigurbergsson, Stefán Benedikt Vilhelmsson, Viktoría Sigurðardóttir.


Það þarf ekki að óttast um menningararfinn, ef litið er til þess hvaða viðfangsefni ungt leiklistarfólk taka sér fyrir hendur og gera úr skemmtilegar leiksýningar. Síðasta sýning sem undirritaður fjallaði um áður en samkomubann skall á var sýning Miðnættis leikhúss í samvinnu við Leikfélag Akureyrar á Djáknanum á Myrká og varla er búið að opna fyrir samkomur á borð við leikhúsviðburði fyrr en Leikhópurinn Lotta kallar til sýningar á Lottutúni í Elliðaárdal og frumsýnir sýningu sem byggir á þjóðsögunum um Bakkabræður.

Auglýsing

Um báðar þessar sýningar má segja að tekið er á viðfangsefninu af virðingu fyrir bæði menningararfinum og áhorfendum og er það vissulega vel – en það sem skiptir kannski öllu meira máli er að í báðum tilvikum er viðfangsefnið tekið frjálslegum tökum, aðlagað að þeim fjölmiðli sem leikhúsið er og unnið útfrá þeim frásagnarmeðulum sem leiklistin hefur upp á að bjóða. Með öðrum orðum: í báðum tilvikum er um að ræða vel gert leikhús ef svo má að orði komast.


Hver þekkir ekki sögurnar af þeim Bakkabræðrum, eða eins og þeir eru líka kallaðir, Bakkaflónum, og sögunum af því þegar faðir þeirra kallaði kútinn, þegar þeir báru inn ljósið í húsið gluggalausa, Þegar þeir keyptu köttinn sem þeir svo drápu af ótta við að hann myndi éta þá alla, þegar þeir drápu hestinn Brúnku með því að hlaða grjóti á hana til að koma í veg fyrir að hún fyki í óveðrinu og þegar þeir óttuðust að ruglast á fótum sínum þegar þeir sátu með fæturna í lauginni ... Það má gera listann með bjálfalegum og ánalegum uppátækjum þeirra Bakkabræðra býsna langan.


Raunar eiga Bakkabræður sér fleiri bræður – bæði hér á Íslandi og eins víðar um heim. Þær sögur sem Anna bergljót Thorarensen styðst við í sinni leikgerð og sem Leikhópurinn Lotta styðst við í sýningu sinni eru Bakkabræður frá bænum Bakka í Svarfaðardal, en þar bjuggu forðum – að því er sagan segir – þrír bræður sem þóttu hver öðrum heimskari, vissu sjaldnast hver þeirra væri hver og ávörpuðu sjálfa sig ávallt með hinni klassísku kveðju, „Gísli, Eiríkur Helgi“ og átu hana hver upp eftir öðrum. Þessir bræður voru einfaldir og auðtrúa og sögurnar um þá byggja allar á þessum einkennum.


Hins vegar voru einnig til bræður á bænum Bakka í Fljótum. Þeir voru fjórir, hétu Eiríkur, Þorsteinn, Gísli og Jón og eru taldir hafa búið í Fljótunum um 1600. Einn þessara bræðra var giftur og hét kona hans Gróa og var kölluð Gróa einsýna af því hún var eineygð. Reyndar kemur Gróa fyrir í leikverki Önnu Bergljótar, en Gróa sú er læknir og býr á Leiti og við hana eru kenndar gróusögur. Það er ákaflega vel til fundið af Önnu Bergljótu að tengja Gróu á Leiti við Bakkabræðraminnið eins og hún vinnur úr því, en ég vík að því betur síðar.


Bakkabræður í Fljótum eru þekktir fyrir álíka aulaskap og kjánaskap og frændur þeirra úr Svarfaðardal, en sennilega hafa þeir þríbræður orðið þekktari vegna þess að talan þrír á sér langa og gróna hefð í sagnamennsku og svo hugsanlega einnig vegna hins, að örlög þeirra fjórbræðra eru öllu harmþrungnari en þríbræðranna úr Svarfaðardal, þannig að almenningi hefur sennilega þótt auðveldara að hlæja að bræðrunum úr Svarfaðardal.


Bakkabræður eiga sér einnig skyldmenni erlendis og liggur þá beinast við að nefna Molbúana í Danmörku, enda hafa þær sögur átt auðvelt með að rata til Íslands sakir langtíma menningartengsla Íslands og Danmerkur. Molbúar munu einnig hafa verið hafðir að skotspæni í Noregi, enda heyrði Noregur undir Danmörku þegar Molbúasögurnar kviknuðu til lífs með útgáfu bókarinnar „Beretning om de vidtbekiendte Molboers vise Gierninger og tapre Bedrifter“ árið 1771, en þar mátti finna 13 molbúasögur, hverri annarri kostulegri. Molbúar búa í Mols á Suður-Jótlandi og voru löngum sagðar sögur um þá af svipuðu tagi og um Bakkabræður og má finna margar sögurnar lítt breyttar beggja vegna Atlantshafs; þá má finna svipaðar sögur um svokallaða „Täljetokar“, sem bjuggu í bænum Södertälje nokkru sunnan Stokkhólmsborgar í Svíþjóð en sögurnar um Täljetokar fóru á flug eftir að byggt hafði verið geðsjúkrahús í Södertälje. Það má þannig leiða að því nokkur rök að sögurnar um Bakkabræður, hvort sem er úr Svarfaðardal eða Fljótum, Molbúa og Täljetokar eiga rætur að rekja til ótta okkar við hið óþekkta, hið afbrigðilega og hið framandi.


Afrek Bakkabræðra eru vandlega skjalfest í Þjóðsögum Jóns Árnasonar og hafa lifað góðu lífi meðal okkar Íslendinga uppfrá því. Jóhannes úr Kötlum gerði um þá frægt kvæði sem kom út 1941. Árið 1951 framleiddi einn af frumkvöðlum íslenskrar kvikmyndagerðar, Óskar Gíslason, myndina „Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra“, í leikstjórn Ævars R. Kvarans en handrit gerði Loftur Guðmundsson. Þá las Sigurður Sigurjónsson, leikari sögurnar um Bakkabræður árið 1983 inn á hljómplötu. En fljótlega eftir það hurfu þeir Bakkabræður af sjónarsviðinu og við hlutverki aulabárðanna, „hinna“, tóku Hafnfirðingar og áður en nokkur gat rönd við reist urðu Hafnfirðingabrandarar móðins, rétt eins og sögur af Norðmönnum tóku við af sögunum af „Täljetokarna“ í Svíþjóð.

Leikhópurinn Lotta: Bakkabræður Mynd: Aðsend


Við virðumst sem sagt hafa þessa þörf fyrir að gera grín að og hlæja að náunganum, spotta hann og lítillækka. Rótgróið í menningunni, myndi einhver segja og í raun bara græskulaust gaman. En er það svo? Er þetta ekki frekar neikvæður menningararfur (ef tala má um „menningu“ í þessu samhengi – það er ekki alveg óumdeilt hugtak í þessu samhengi – en hins vegar mun óumdeilt að atferlið fer hindrunarlítið frá einni kynslóð til annarrar)? Þessi söguhefð hallar sér að þörfinni fyrir að skilgreina „okkur“ frá „hinum“ og „við“ erum þá „góða fólkið“, sem teljum „okkur góða fólkið“ yfir þá hafna sem eru „öðruvísi“ og þar með „hinir“ (afsakið allar gæsalappirnar, lesendur góðir, en hér er verið að nota hversdagsleg orð yfir það sem kalla má félagsleg fyrirbæri og lýtur að því hvort samfélag okkar er „gott“ eða „vont“ öllum sem það byggja, eða bara sumum!) Það má minna á, að um miðja síðustu öld voru svipaðir „brandarar“ sagðir um gyðinga og í Bandaríkjunum hefur mátt heyra álíka „gamanmál“ sögð um blökkumenn. Og það þarf ekki einu sinni að nefna kvenfyrirlitninguna sem birtist í ljóskubröndurum og svokölluðum skemmtisögum af eiginkonum og tannhvössum tengdamömmum og öðrum slíkum „kjellíngum“.


Leikhópurinn Lotta hefur orðstír fyrir að vera gömlum, viðteknum og íhaldssömum viðhorfum ljár í þúfu. Í verkum sínum hefur hópurinn einatt tekist á við þessi viðhorf, og tekið hiklausa afstöðu gegn þeim. Og það er vel – leikhús á að ögra, leikhús á að gefa áhorfendum sínum færi á að þokast áleiðis í átt til betra samfélags, sem skapað verður af betri manneskjum. Og í sögunni um Bakkabræður tekst höfundinum, Önnu Bergljótu svo sannarlega að snúa upp á söguhefðina um Bakkabræður svo bragð verði að. Í sýningunni allri, leikstjórn Þórunnar Lárusdóttur, danshreyfingum Viktoríu Sigurðardóttur, tónlist þeirra Baldurs Ragnarssonar, Rósu Ásgeirsdóttur og Þórðar Gunnars Þorvaldssonar er tekist á við þessi viðhorf og grunnhugmynd sýningarinnar studd og rökstudd: að allir menn eru jafnir – og enginn á að vera jafnari en annar!


Sýningin um þá Bakkabræður í meðförum Leikhópsins Lottu byggir á Svarfdælingssögunum (og Gróa kemur þar fyrir sem læknir og helsti gróusöguberinn einnig og þannig sett í kórrétt samhengi), en sagan sett í ramma þar sem óðalsbóndi nokkur (Sigsteinn Sigurbergsson) segir dóttur sinni, Lilju (Viktoría Sigurðardóttir) sögur af þeim bræðrum og bjálfum og markmiðið er vitanlega að skemmta sér og henni á sögum af afkáraskap þeirra og heimsku – styrkja og efla hugsunina um muninn á „okkur“ og „þeim, hinum“.


Sögurnar lifna við og bræðurnir og foreldrar þeirra birtast Lilju og þá gerist það sem þurrkar út mörk og mæri milli „okkar“ og „hinna“ – Lilja kynnist þeim bræðrum, lærir að það er munur á þeim Gísla, Eiríki og Helga og að sögurnar, sem af þeim eru sagðar eru ekkert nema gróusögur – eða eins og við myndum orða það á okkar nútímamáli: fake news!


Þetta er snilldarleg vending á Bakkabræðrahefðinni og hæfir nútímanum að öllu leyti – enda varð ekki annað fundið á frumsýningunni á Lottutúni en fjölmennur áhorfendaskarinn, misjafn að aldri, tæki þessum boðskap vel. Honum var líka svo snyrtilega og fagmannlega komið fyrir í fjörugri sýningu þar sem fjörleg tónlist, glaðlegar danshreyfingar og hraðar og snjallar skiptingar milli atriða héldu athygli áhorfenda og miðluðu boðskapnum, að slúður um náungann er aldrei satt.

Í sýningum Leikhópsins Lottu fer allt vel að lokum. Þegar áhorfendur rísa úr sætum – eða upp af teppum sínum og upp úr garðstólum, því hér koma áhorfendur með sín eigin sæti! – er heimurinn orðinn ívið betri og við öll ívið betri manneskjur. Það gildir líka um Bakkabræður – þeir hafa í sögulok öðlast sess á borð við aðra í samfélaginu og jafnréttið hrósar sigri.

Sýningar Leikhópsins Lottu eru fjörlegar, skemmtilegar og vel gerðar. Atburðarásin er hröð og sögur Lottu hafa jákvæðan boðskap fram að færa. Það eitt og sér er ærin ástæða til að hvetja alla sem vettlingi geta valdið að fjölmenna á Lottutún í Elliðaárdal – eða hvar sem Lotta ákveður að reisa leikmynd sína og hefja sýningu.

 


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Frá fundi Norðurskautsráðsins í Rovaniemi í Finnlandi árið 2019 þegar Ísland tók við formennsku í ráðinu. Rússar taka við keflinu á fundi ráðsins sem fram fer í Reykjavík í maí.
Ísland lætur af formennsku í Norðurskautsráðinu
Sjálfbær þróun og umhverfismál eru grundvallarstef norðurslóðasamvinnu en mega þessi mjúku mál sín einhvers þegar Rússar eru að efla hernaðarlega uppbyggingu og Bandaríkjamenn bregðast við með aukinni viðveru, m.a. á Íslandi?
Kjarninn 16. maí 2021
Um það bil helmingur Dana afþakkar fjölpóst.
100 þúsund tonn af auglýsingapésum
Mánaðarlega fá Danir samtals átta til níu þúsund tonn af auglýsingapésum inn um bréfalúguna. Stór hluti pésanna fer ólesinn í ruslið. Nú ræðir danska þingið breytingar á reglum þannig að borgararnir þurfi að biðja um að fá pésana.
Kjarninn 16. maí 2021
Tony Blair segist vera með lausnir á vanda Verkamannaflokksins og raunar annarra stjórnmálaafla frá miðjunni og til vinstri.
Tony Blair segir að Verkamannaflokkurinn þurfi að fara alveg á byrjunarreit
Fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands segir að sinn gamli flokkur eigi sér ekki viðreisnar von ef hann haldi áfram á sömu braut. Algjörrar endurræsingar sé þörf, bæði í efnahagsmálum og umræðum um samfélagsmál, þar sem þeir róttækustu vaði uppi.
Kjarninn 15. maí 2021
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra.
„Við eigum að færa þessa verslun heim í hérað – frá Búrgundí í Bústaðahverfið“
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins spyr hvers vegna íslensk stjórnvöld viðhaldi einokunartilburðum varðandi áfengissölu.
Kjarninn 15. maí 2021
Davíð Helgason, stofnandi og fyrrum forstjóri Unity.
Vorblað Vísbendingar er komið út
Vísbending hefur gefið út sérstakt vorblað þar sem nýsköpun er í brennidepli. Blaðið er opið öllum, en í því má meðal annars finna viðtal við Davíð Helgason, stofnanda Unity.
Kjarninn 15. maí 2021
Þótt almennt atvinnuleysi hafi dregist saman fjölgar í hópi langtímaatvinnulausra
Þeir sem hafa verið atvinnulausir í meira en tólf mánuði fjölgaði um 288 í síðasta mánuði þrátt fyrir að stjórnvöld hafi ráðist í átak til að draga úr atvinnuleysi hópsins. Atvinnuleysi hjá þeim sem hafa verið án vinnu skemur en sex mánuði dregst saman.
Kjarninn 15. maí 2021
Jarðfræði á mannamáli
Eigendur Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal skrifa reglulega hraunmola á Kjarnann. Þetta er sá sjötti. Markmiðið er að útskýra hin ýmsu fyrirbæri íslenskrar eldvirkni á einfaldan og áhugaverðan hátt.
Kjarninn 15. maí 2021
Hjarðónæmi sífellt fjarlægari draumur
Fjölmargar hindranir þyrfti að yfirstíga svo hjarðónæmi gegn COVID-19 verði að veruleika. Nýju og meira smitandi afbrigðin breyta jöfnunni og hækka nauðsynlegt hlutfall bólusettra til að ónæmi samfélags náist.
Kjarninn 15. maí 2021
Meira úr sama flokkiFólk