Landnámssetur: Fyrirheitna landið
Sögumaður: Einar Kárason
Landnámssetur er iðið við sinn kola að bjóða upp á sögustundir á Söguloftinu og heiður ber því fyrir að halda í sögumannshefðina; þetta er sennilega það í okkar menningu nútildags sem kemst næst hinni fornu kvöldvöku – afþreyingu sveitasamfélagsins sem eflaust viðgekkst frá landnámi og allt fram til fyrri hluta tuttugustu aldar – og er þá ekki einungis átt við sögumennskuna sjálfa sem leyfir huganum að fara á flug og sækja heim fjarlæga staði og fjarlæga tíma, það er ekki síður notaleg tilfinning að sitja undir súð Söguloftsins og njóta þess arkitektúrs sem minnir á hina fornu baðstofu, heimili kvöldvökunnar. Það vantar bara að áheyrendur allir sýsli við sitt – prjóni, kembi, spinni og hekli til að menningararfurinn lifni við og verði að núi. En það er nú kannski að ætlast til of mikils.
Einar Kárason hefur verið óþreytandi við að segja sögur af fjölskyldunni í Thulekampinum á Melunum. Þrjár bækur hafa komið út – Þar sem Djöflaeyjan rís, Gulleyjan og Fyrirheitna landið – og tvær þær fyrstu hafa verið færðar í búning kvikmyndar, og amk. tveggja verka fyrir leikhús. Og nú flytur Einar Kárason söguna af fólkinu eins og það kemur fyrir í þriðju bókinni, Fyrirheitna landinu, en þar er að finna söguna af því þegar Ásmundur Grettisson, Mundi, og Manni, sonur Fíu og Tóta, halda til Ameríku til að finna þá meðlimi fjölskyldunnar sem hafa farið að leita gæfunnar í hinu fyrirheitna landi.
Það sem einkum einkennir Einar Kárason sem sögumann er hversu gott vald hann hefur á sambandi sínu við áheyrendur. Hann beitir af öryggi og innsæi húmornum sem haldgóðu vopni við að halda áheyrendum við efnið. Þegar hann segir frá sögupersónum sínum hittir hann ávallt á það sem er sérkennilegt og sérstakt við þær, og hann styrkir frásögn sína með því að breyta röddinni eilítið, og þannig lifna persónurnar við fyrir augum okkar – án þess að nokkrum öðrum meðulum sé beitt en rödd og æði sögumanns. Þannig kemst Einar ekki eingöngu í gott og traust samband við áheyrendur, hann nær þannig valdi á þeim að þeir gefa sig sögunni á vald.
Þessum krafti nær Einar og heldur honum allt til enda og þarf þess vegna ekki að beita neinni tilgerð fyrir sig eða stælum – í meðförum hans rennur sagan einsog lygnt stórfljót, nýtur þeirrar epísku breiddar sem örlög þeirra Munda og Manna, Ömmu Gógó og Badda frænda og Bóbó bróður – og allra hinna – krefjast.
Það er líka annað, sem einkennir sagnamennsku Einars Kárasonar, ekki síst þar sem hann stendur sjálfur frammi fyrir áheyrendum sínum og segir frá því fólki, sem sumir myndu nú einfaldlega kalla „white trash“ okkar Íslendingar – fólksins, sem dagaði uppi í hreysum og kofum eftirstríðsáranna og tókst ekki að láta drauminn um betra líf rætast og hvarf á endanum í glitter og glamúr og yfirborðslega afþreyingarmennsku hinnar amerísku menningar – hann dæmir engan.
Einar Kárason hefur engann á stall, hann veltir engum niður sem ekki gæti staðið upp sjálfur. Hann hefur einlæga og djúpa samúð með sínu fólki. Hann lýsir því af nánast klínískri nákvæmni, en tekur enga siðferðislega afstöðu til gjörða þeirra. Hann móralíserar ekki yfir sögupersónunum, vandar ekki um fyrir þeim í okkar eyru. Hann ber persónur sínar fram eins og þær eru – veskú, þetta eru Mundi og Manni, Amma Gógó og Baddi og Bóbó bróðir, með öllum sínum kostum og göllum. Svona eru þau – þau geta vissulega gert ýmsa vitleysuna, þau taka feilstefnu í lífinu en það eru bara ekki allir sem kunna á kompásinn. Gjörðir þeirra, sumar hverjar alveg út í hött og hugsunarlausar, verða að meinlegum, skringilegum og hlálegum uppákomum og við hugsum með okkur að þetta fólk er ekki með öllum mjalla, en alls staðar skín væntumþykja og virðing sögumanns í gegn og verður að okkar afstöðu til þessara persóna.
Þetta er fallegur eiginleiki hjá sögumanni. Slíkur sögumaður beinir ekki aðeins athyglinni að því góða sem býr í sögupersónum hans – hann vekur einnig upp hið besta í áheyrendum sínum.
Það er full ástæða til að hvetja fólk að bregða sér í Landnámssetur í Borgarnesi til að láta snjallan sögumann vekja upp hið besta í manni.