Hanna Þóra Helgadóttir er 32 ára matarbloggari sem hefur verið að sérhæfa sig í ketógenísku mataræði. Hún hefur ákveðið að gefa út sína fyrstu uppskriftabók fyrir jólin og er að safna fyrir prentkostnaði á Karolina Fund.
Hanna Þóra segir að hugmyndin að verkefninu hafi komið til sín þegar hún missti vinnuna sem flugfreyja hjá Icelandair í sumar. Þá hafi hún farið að hugsa um hvaða draumar hefðu verið látnir sitja á hakanum undanfarin ár sökum anna. „Þá kom þessi hugmynd strax upp í kollinn á mér. Þetta var í raun fullkominn tími til að láta gamla drauma rætast og henda sér í djúpu laugina.“
Allir geta nýtt sér uppskriftirnr hennar, óháð því hvort sem þeir eru á ketó eða ekki, en þær eiga þær sameiginlegt að vera allar sykur og hveitilausar.
Hanna Þóra segir að bókin ætti líka að vera tilvalin jólagjöf, enda sé alltaf gaman að fá harða pakka og góða bók í jólagjöf. „Ég segi alltaf að lífið sé of stutt til að borða vondan mat og ég stend við það á hverjum einasta degi. Ég vil hafa uppskriftirnar einfaldar og þægilegar og ekki með of flóknum innihaldsefnum. En þær
verða að vera góðar!“
Hér er hægt að taka þátt í verkefninu og eignast eintak af bókinni.