Stuttmyndin „Drink My Life” segir frá Steina, óvirkum alkohólista sem hætti að drekka þegar hann eignaðist son með kærustunni sinni. Hann vinnur í tveim vinnum til að ná endum saman fyrir fjölskylduna en á sama tíma vanrækir hann sjálfan sig, tilfinningalega og andlega, enda ekki mikið fyrir að ræða tilfinningar né takast á við þær. Steini er í hálfgerðu aukahlutverki í eigin lífi. Þegar afleiðingar þess holdgerfast í raunheimi fer Steini að stíga dans við varhugaverðan dansfélaga. Myndin er eftir Marzibil Sæmundardóttur og með aðalhlutverkið fer Ársæll S. Níelsson.
Marzibil segir að „Drink My Life“ sétragíkómísk mynd vafin lykkju töfraraunsæis með smá skvettu af súrrealisma. Myndin er að hennar sögn um margt í anda fyrri stuttmynda Marzibilar þar sem hún nýtist frekar við myndmálið en samtöl, farið er út fyrir raunveruleikann inn í töfraraunsæi, súrrealisma og skilin milli ólíkra heima eða vídda eru oft óljós.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Ég byrjaði að skrifa þessa sögu fyrir u.þ.b. 9 árum þegar ég var í kvikmyndanámi. Ég hætti við að gera hana þá enda fannst mér nokkuð öruggt að hún væri flóknari í framleiðslu en svo að hægt væri að framkvæma vel í námi fyrir engan pening. Það var alveg rétt ályktað hjá mér. Handritið hef ég svo heimsótt og breytt af og til í gegnum tíðina og er lokaútgáfan frá 2018.
Marzibil segir að Karolina Fund söfnunin snúist um að fjármagna síðustu metrana í eftirvinnslunni. „Við stefndum á að fara inn á Karolína Fund í mars s.l. en okkur fannst það ekki alveg málið eins og staðan var þá vegna Covid 19. Bíóhúsum var lokað, kvikmyndahátíðum aflýst og samfélagið allt fór í pásu. Þannig lá kannski ekki heldur eins mikið á að klára myndina þar sem ekki hefði verið hægt að sýna hana í neinu bíói. Nú vitum við svo sem að þetta ástand verður líklega viðvarandi í einhvern tíma og engar forsendur fyrir því að reyna ekki að klára myndina og sýna hana þegar aðstæður skapast, hér heima og á kvikmyndahátíðum erlendis. Við stefnum á að hafa sérstaka forsýningu í bíó þegar myndin er tilbúin með aðstoð velunnara í gegnum Karolína Fund. Ég hlakka mikið til að sýna þeim og öðrum sem koma að verkinu myndina í bíó, það verður alveg 23 mínútna rússíbani. Það er ekki mikið logn í myndinni ef svo má að orði komast.“