Ásgeir Höskuldsson er ávallt kallaður Geiri. Hann er búinn að vera að djöflast á snjóbrettum síðan hann var ellefu ára, eða í rúm 30 ár. Geiri bjó erlendis í átta ár en flutti heim til Íslands, og Akureyrar, 16 ára gamall. Þar kynnist hann íslensku snjóbrettasenunni.
Síðan þá hefur Geiri verið virkur þátttakandi í flestu sem viðkemur þeirri menningu sem skapast hefur í kringum snjóbrettaiðkendur hérlendis. Hann var til að mynda formaður Brettafélags Íslands í þrjú ár, starfaði hjá Nikita Clothing, sem framleiðir snjóbrettafatnað, í átta ár og tók þátt í að endurvekja AK Extreme hátíðina á Akureyri.
Síðastliðin ár hefur Geiri tekið að sér leiðsöguverkefni fyrir erlend snjóbrettafyrirtæki ásamt því að stunda íþróttina af kappi með fjölskyldu sinni. Hann kynntist Eika og Halldóri Helgasyni, og hinum sem mynda Team Divine framleiðsluteymið í gegnum snjóbrettasenuna og safnar nú, ásamt þeim, fyrir því að komu fyrstu íslensku „bretta“ myndunum yfir á stafrænt form í gegnum Karolina fund.
Geiri segir að hugmyndin að verkefninu hafi vaknað við aðstæður sem margir aðrir kannast við úr nútíma veruleika. „Ég var í sóttkví í vetur að endurskipuleggja geymsluna og rakst á allt gamla myndefnið sem ég og Team Divine framleiddum frá 2000 til 2005. Í heildina voru þetta sex myndir ásamt fullt af aukaefni. Mér fannst kjörið að dusta rykið af þessu öllu saman, færa þetta yfir á stafrænt og deila þannig gleðinni.·
Tilgangurinn er ekki flókinn: vilji til að varðveita þennan hluta af íslenskri snjóbrettamenningu. „Ég er mjög þakklátur og lánsamur að hafa tekið þátt í þessari framleiðslu með strákunum í Team Divine. Þeir eiga mikið hrós skilið fyrir að hafa lagt vinnu, metnað og gleði í að skapa þessi meistaraverk á sínum tíma. Góðir hlutir gerast ef hjartað ræður för.“