Hljómsveitin Látún skellti sér í Stúdíó Sýrland í sumar og tók upp tíu lög, þar af átta frumsamin. Til að klára fjármögnun á framleiðslu plötunnar ákvað bandið að hefja hópfjármögnun á Karolina Fund.
Hljómsveitin Látún hefur verið starfandi frá 2018 og telur sjö meðlimi, sem eru Eiríkur Stephensen sem spilar á baritonsax, slagverk og syngur bakraddir, Fjalar Sigurðarson á túbu, Halldóra Geirharðsdóttir sem spilar á altosax og syngur bakraddir, Hallur Ingólfsson trymbill sem sér einnig um hróp og köll, Sólveig Morávek á tenórsax og syngur bakraddir, Sævar Garðarsson á trompet og Þorkell Harðarson sem leikur á altósax og klarínett.
Sævar trompetleikari Látúns segir að það hafi ansi fljótt orðið ljóst í hvað stefndi þegar hljómsveitarmeðlimir fóru að mæta með frumsamin lög á æfingar. „Frá byrjun var enginn einn tónlistarstíll undir en einhvern veginn var mest spilað af balkan-klezmer-fönk-salsa skotnum lögum og það varð að lokum stefna hljómsveitarinnar. Flest laganna eru því af hressustu gerð en þó eru tvö þarna inn á milli sem stíga ögn léttar til jarðar. Það mætti kalla þetta balkan-fönk, eða kannski klezmer-ska en inn á milli fléttast karabískir tónar. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að kalla sveitina Klezmer-partývél úr látúni. Það var nokkuð ljóst frá upphafi að þessi lög væru á leiðinni á plötu og með styrk frá Hljóðritasjóði í vor var ráðist í upptökur í Stúdíó Sýrlandi.“
Sævar segir að það hafi ekki verið lagt upp með neitt sérstakt þema í upphafi en þegar horft sé á plötuna og hljómsveitina sjálfa þá sé augljóslega um að ræða einskonar suðupott. „Suðupott af fólki úr mismunandi áttum (tónlistarfólk, leikari, tveir verkfræðingar og kvikmyndaframleiðandi) og suðupott úr tónlistarstefnum og hugmyndum sem mynda þessa plötu. Suðupottur sem upphaflega varð til milli félaga í Lúðrasveitinni Svan en síðan vorum við svo heppin að fá Hall og Dóru með í hópinn. Hljóðfæraskipanin er ansi sérstök og það eitt og sér býr til einstaka stemmningu sem gaman er að hafa náð að fanga í upptökum og núna væntanlega á plötu. Vonandi tekst okkur að fylgja plötunni eftir sem fyrst með tónleikum en tíminn verður að leiða í ljós hvenær það verður hægt, svona í ljósi heimsfaraldursins.
Það bregst ekki þegar Látún spilar á tónleikum að viðstaddir missi vald á fótum sínum og fara út á gólf að sprikla. Enda er þetta afskaplega dansvæn tónlist, uppfull af takti og guðdómlegri innri spennu sem hefur þessi áhrif á þá sem á hlýða. Nú er málið að koma plötunni út og gera sig klár fyrir að heimsfaraldrinum linni, svo hægt sé að hittast, dansa og faðmast. Þá er gott að eiga sveit eins og Látún innan handar sem kemur blóðinu til að ólga og fótum til að bera búkinn á dansgólfið.
Það má meira að segja forkaupa Látún í partý á Karolina Fund síðunni – það loforð verður reyndar ekki uppfyllt fyrr en eftir að faraldurinn rénar og partýhömlur verða teknar af okkur.“