Stafrænn Hákon (einnig þekktur sem Ólafur Jósepsson) vaknaði eins og púpa til lífsins vorið 2001 þegar platan „Eignast jeppa” var gefin út af tónlistarmanninum sjálfum. Henni var dreift í helstu hljómplötuverslanir á þeim tíma eins og Hljómalind, 12 Tóna og Japis. Nokkuð snögglega vakti hún töluverða athygli meðal tónlistarmanna og áhugamanna við útgáfu sína. Platan þótti hrá, sveimandi og naumhyggjuleg því músíkin féll vel inn í tónlistarumhverfið, en hið svokallaða „síð/sveimrok” hafði gert vart um sig á þessum tímum. Stafrænn Hákon hafði með plötunni sýnt fram á að hver sem er gæti unnið sitt efni alfarið á eigin spýtum. Upptökur voru framkvæmdar í kjallara foreldra hans, vopnaður 4-rása kasettutæki, hljóðfærum og þar til gerðum verkfærum sem nauðsynleg þóttu til slíks heimabrúks.
Platan var svo gefin út af tónlistarmanninum sjálfum sem kepptist við að „brenna” geisladiska, líma saman plötuhulstur til að annast eftirspurn sem hafði myndast, þá sérstaklega í hinni sálugu Hljómalind. Lítill fugl hvíslaði því að hátt í 300 diskar hafi rokið þaðan út, sem þótti prýðis árangur hjá slíkum nýgræðingi á sviðinu. Tónlistin sem Stafrænn Hákon hafði skapað á þessari plötu hefur seint talist líkleg til vinsældar á samtíma-vinsældalistum hljóðvakans, en hún þótti athyglisverð og þar við sat. Síðan þá hefur Stafrænn Hákon gefið út með þó nokkru jöfnu millibili 11 stórar plötur ásamt því að leggjast þó nokkrum sinnum í stuttar spilaferðir erlendis. Plötur hans hafa komið út á vegum erlendra útgáfufyrirtækja í gegnum árin og mætti segja að platan „Eignast jeppa” hafi opnað fyrir tónlistarmanninum þá gátt. Bandaríska útgáfan Secret Eye gaf svo „Eignast jeppa” plötuna út árið 2003 í mjög takmörkuðu upplagi.
Þema verkefnisins er nokkuð skýrt að sögn Stafræns Hákonar; 20 ára afmælisútgáfa á fyrstu plötunni með tilheyrandi efni og aukaefni. „Þegar ég opnaði spóluskúffuna fannst við grandskoðun ýmislegt efni sem ekki rataði á plötuna í upphafi. Miklar vangaveltur hófust varðandi innihald skyldi prýða þessa veglegu viðhafnarútgáfu. Stafrænn Hákon hefur verið síðustu árin starfað sem hljómsveit, en ekki ég einsamall eins og það var fyrstu svona 10 árin eða svo. Ég ræddi því við núverandi hljómsveitarmeðlimi Stafræns Hákonar og bar undir þá hugmynd að taka upp plötuna í nýrri útgáfu bara eins og við værum að fara að gera splunkunýja plötu, leyfa því svo að vera sem aukaefni á þessari endurútgáfu. Sú hugmynd var snarlega sópuð af borðinu. Mér fannst hún afbragðs hugmynd þó hinir voru ekkert sérstaklega sammála mér um það. Þeir voru heiðarlegir og fannst þessi fyrsta plata Stafræns vera eingetið hugverk sem tilheyrði mér, sem það réttilega er. Ég tók því þessa pælingu bara áfram eins míns liðs og endurhljóðritaði lögin öll aftur ásamt öðrum gömlum ókláruðum óheyrðum hugmyndum, endurhljóðblönduðum lögum frá nokkrum af mínum eftirlætis íslensku raftónlistarmönnum, og fá þau að njóta sín hér. Það var viss áskorun að fara í slíka aðgerð að hljóðrita lög aftur, því ég hefði getað farið langt út fyrir rammann og farið í einhverja allt aðra átt með þetta. Það væri óheiðarleg nálgun á þetta verk, sökum einfaldleikans sem býr á bakvið plötunnar. Ég viðurkenni fúslega að ég hefði alveg þegið nokkrar auka rásir á kasettutækið á sínum tíma. Þá var bara að koma sér eftir fremsta megni í sama ástand og árið 2001 og gera þessum lögum eins góð skil og ég gat eftir þeirri uppskrift sem upphaflega var gerð. Sveigjanleikinn var meiri og nú skildi vanda sig örlítið meira við lögin og hver veit nema að nýju útgáfurnar hafi sama sjarma og heiðarleika og gömlu útgáfurnar. Það kemur í ljós.
Hér er hægt að taka þátt í fjármögnuninni og forkaupa vinyl plötuna.