Jónína Aradóttir er söngkona og lagahöfundur frá Hofi í Öræfasveit sem býr nú í Osló í Noregi þar sem hún fékk tækifæri til að vinna í tónlistinni sinni, ferðast um Norðurlöndin og spila. En Covid hefur haft áhrif á spilamennskuna úti eins og hér heima og því er lag að vinna úr þeim spilum sem eru gefin. Þannig hefur henni gefist tóm til að vinna bæði að nýju efni og bæta það eldra og tónleikum hefur verið streymt.
Við heyrðum fyrst í Jónínu þegar hún gaf út fyrstu sólóplötu sína árið 2017, Remember. Þar setti hún saman nokkur lög úr eigin safni og lög sem hafa haft áhrif á hana á ferlinum. Hún er nú að vinna í nýju verkefni sem er að gefa plötuna út á vínyl og vinnur hún nú að því að fjármagna verkefnið í gegnum Karolina fund.
Að sögn Jónínu mun þessi útgáfa af plötunni Remember innihalda níu lög af þeim tíu sem voru á upprunalegu plötunni. „Breiddin á vinylnum og tíminn leyfa ekki öll lögin og því mun eitt lagið fylgja með á stafrænu formi. Lögin mín eru bæði á ensku og íslensku og í Folk Country stemmningu og eiga það allt sameiginlegt að fanga atvik í gegnum tíðina sem hafa haft áhrif á mig. Sumt er bara þess eðlis að ég vil ekki gleyma, hvort sem það er jákvætt eða neikvætt þá reyni ég að sjá eitthvað gott út úr því. Textarnir fyrir lögin munu fylgja með í plötuumslaginu og myndirnar sem prýða plötuna eru teknar af Erlu Berglindi í náttúrunni í Rangárþingi eystra í bakgrunni. Ég elska að vera úti í náttúrunni og leita ávallt eftir innblæstri þaðan, þó það sé lengra að fara núna eftir íslensku náttúrunni þá eru minningarnar sterkar.“
Hún segist hafa fundið fyrir miklum stuðningi að heiman og víðar með þau verkefni sem hún sé að vinna í með tónlistinni minni og að það sé ómetanlegt. „Mig langar að nota tækifærið og þakka ykkur heima fyrir stuðninginn, góðar kveðjur og innblásturinn.“
Hér er hægt að taka þátt í fjármögnuninni og forkaupa vínylinn.