Karítas Óðinsdóttir er söngkona, lagahöfundur og plötusnúður fædd og uppalin í Borgarfirðinum. Hún gaf út sína fyrstu EP plötu haustið 2019 sem nefnist „Songs 4 Crying” og má lýsa tónlistinni sem dimmri popptónlist með R&B ívafi. Karítas hefur komið víða að í tónlistarsenunni bæði hér á landi sem plötusnúður og erlendis með hljómsveitinni sinni, Reykjavíkurdætur, en sú samvinna hvatti hana til þess að sækjast eftir sólóferli og hefur fengið bæði góðar viðtökur og hún skrifaði undir dreifingarsamning við Sony Denmark. Í byrjun apríl 2020 gaf hún út fyrsta síngúlinn af komandi breiðskífu sem nefnist „Shame” og er núna söfnunin fyrir plötunni í fullum gangi inná Karolina fund.
Karítas segist hafa verið í tónlist síðan hún muni eftir sér. „Þegar ég var 4 ára þá sendi mamma mig í Suzuki skólann til þess að læra á fiðlu og gerði það í nokkur ár. Hugmyndin að sóló verkefni hafði alltaf verið efst í huga hjá mér en ég átti alltaf erfitt með að láta vaða þar sem að ég byrjaði ekki að semja mína eigin tónlist fyrr uppúr tvítugt. Ég hélt að ég hefði það bara ekki í mér en svo í kjölfar af miklum missi opnaðist fyrir eitthvað og lögin byrjuðu að flæða. Síðan í janúar er ég búin að vera að vinna í nýrri tónlist ásamt góðu fólki og er mjög spennt að koma henni frá mér. Er ótrúlega þakklát fyrir allt fólkið í kringum mig og góðu hlutina sem að hafa verið að gerast, þar á meðal að hafa skrifað undir samninginn hjá Sony. Þetta ýtir verulega undir drifkraftinn til að gefa út og gera meira.“
Stefnt er að því að hefa plötuna út í byrjun árs 2021 ef allt gengur eftir!
Hægt er að forpanta plötuna á vínyl á Karolina fund með því að styrkja og fleira.