Hugarró er geisladiskur með 11 vel völdum bænalögum sem hafa verið útsett með það fyrir augum að ná fram ákveðnum hugleiðslublæ og þannig undirstrika tengsl hugleiðslu og bænar. Hugarró er fyrsta sólóplata Margrétar Árnadóttur söngkonu og mun hluti af ágóðanum renna til Píeta samtakanna á Akureyri, sem sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða. Um útsetningar og hljóðfæraleik sá Kristján Edelstein gítarleikari. Kjarninn hitti Margréti og ræddi við hana um þetta spennandi verkefni.
Hún segist hafa starfað lengi sem klassísk söngkona og haldið marga ljóðatónleika og oftar en ekki valið sér eitthvað þema til að vinna út frá. „Mig hefur lengi dreymt um að gera upptökur en langaði þá til að vinna með eitthvað ólíkt því sem ég hef unnið með hingað til. Fyrir mér hafa bæn og hugleiðsla alltaf verið mjög tengd fyrirbæri. Þegar ég fór að velta því meira fyrir mér fékk ég þá hugmynd að gera tengingar þarna á milli með því að láta útsetja sálma í hugleiðslustíl. Ég fékk Kristján Edelstein gítarleikara í lið með mér og við tókum upp nokkra sálma og bænalög við hans undirleik. Fyrsti sálmurinn sem við tókum upp var ,,Vertu Guð faðir” eftir Jón Leifs. Ég varð fyrir miklum hughrifum þegar ég heyrði útsetningu Kristjáns og sá að hann hafði lagt mikinn metnað og alúð í verkefnið. Útsetningin var alveg dásamleg. Hann notaði fjöldann allan af hinum ýmsu strengjahljóðfærum: Langspil, Strumstick, Zither, Stálstrengjagítar, Barítón Klassískan gítar og Monochord. Þannig bjó hann til alveg einstakan hljóðheim sem ég heillaðist af.
Þemað unnið er með á plötunni er hugleiðsla og bæn. „Geisladiskurinn hefur að geyma 11 sálma og bænalög útsett í flæðandi og róandi ambient stíl með söng og minimalískum undirleik hinna ýmsu strengjahljóðfæra. Þegar fólk gengur í gegnum erfiðleika er oft líkt og hugurinn hætti að starfa rétt. Hugsanir koma í belg og biðu og erfitt reynist að beisla þær. Í kjölfarið á fólk oft erfitt með að hafa stjórn á líðan sinni og upplifir ef til vill eirðarleysi, einbeitingarskort, kvíða, ótta, depurð, pirring o.fl. Þetta getur haft alvarlegar afleiðingar ef ekkert er að gert. Hugleiðsla er góð leið til að þjálfa hugann og hefur hjálpað mörgum við að takast á við erfiðleika í lífinu. Að iðka hugleiðslu getur bætt andlega heilsu og dregið úr streitu og áhrifum áfalla og erfiðleika. Hugleiðsla og bæn eiga margt sameiginlegt. Þegar við biðjum erum við í raun að setja fókus á ákveðnar hugsanir, orða þær og þannig koma skipulagi og ró á hugann. Margir leita til bænarinnar þegar erfiðleikar steðja að og sennilega hefur bænin verið eitt að fáum verkfærum sem fólk fyrr á öldum hafði til að takast á við áföllin í lífinu; barnamissi, makamissi, uppskerubrest og hamfarir. Bænin á sér því djúpar rætur í menningunni. Að þjálfa hugann, líkt og með iðkun hugleiðslu eða bænagjörð, hefur hjálpað mörgum við að takast á við erfiðleika og ná tökum á huganum og hugsunum og þar með ná betri stjórn á andlegri heilsu og líðan. Því er útgáfa á efni sem þessu ekki síst viðeigandi á þessum fordæmalausu tímum sem við lifum á.“
Hluti ágóðans kemur til með að renna til Pieta samtakanna. Margrét segir þau vera að gera stórkostlega hluti fyrir fólk með sjálfsvígshugsanir og aðstandendur þeirra í Reykjavík og víða um heim. „Í Reykjavík bjóða Píeta samtökin upp á allt að 15 viðtöl við sálfræðing fyrir þá sem eru að glíma við sjálfsvígshugsanir. Einnig bjóða þau upp á viðtöl fyrir aðstandendur. Meðferðin er skjólstæðingum að öllu gjaldfrjáls.
Starf þeirra er því gífurlega mikilvægt samfélaginu, sérstaklega á þessum tímum þar sem sjálfsvígum fer fjölgandi.“