Flestir þekkja Hörð Torfason líklega sem tónlistarmann, trúbadúr sem hefur verið áberandi á því sviði í áratugi. Hann hefur samið og sungið lög sem notið hafa vinsælda, gefið út plötur og haldið óteljandi tónleika.
Þrátt fyrir augljósa hæfileika á tónlistarsviðinu liggja rætur Harðar þó í leiklistinni, nokkuð sem allir þeir þekkja sem hafa séð hvernig hann fléttar saman leiklist og tónlist á tónleikum. Þar leikur hann á strengi gleði og gáska eða trega og sorgar og áhorfendur sitja ýmist hugsandi og þegjandalegir, syngjandi með, eða skellihlæjandi.
Hörður hefur oft verið nefndur nestor íslenskra trúbadúra — sá sem ruddi brautina, fór fyrstur um landið sem syngjandi skáld, söngvaskáld eins og hann kaus að kalla starf sitt fyrir óralöngu. Hann var þó ekki bara syngjandi skáld heldur boðberi nýrra viðhorfa þar sem hann nýtti tækni og anda sviðslista til að skapa umgjörð og stígandi fyrir sögurnar sem hann segir okkur með tónum og textum, sögur af sér, sögur af okkur og okkar samfélagi með mannréttindi sem áhersluatriði, en er hann margverðlaunaður fyrir mannréttindabaráttu sína og list.
Hörður segist oft hafa haft það til siðs að fara í hljóðver og taka upp tug söngvaskissa í einni lotu. „Ein taka á söng og ekkert lagað eftir á. Síðan hef ég valið úr þeim fyrir heilstæða plötu. Síðastliðið vor fór ég í hljóðver Vilhjálms Guðjónssonar til að taka upp nokkrar söngvaskissur. Þá bar svo við að Villi finnur upptökur frá 1 júlí 2010. Þetta voru 16 söngvar, allir fjölluðu þeir um baráttu og ég hafði hreint út sagt steingleymt þessum upptökum. Kannski engin furða þar sem ég var stuttu seinna kominn á ferð og flug víða um heiminn með fyrirlestra um starfsaðferðir mínar. Það sér ekki fyrir endann á þeirri iðju.
En í sumar tók ég upptökurnar með mér heim og hlustaði vel á söngvana, valdi úr þeim til hljóðblöndunar og stefni nú að því að koma þeim út á plötu sem ég kalla DROPAR.“
- hlustaðu á mig
- baráttusöngur
- gjaldið
- kuldi
- valdið er okkar
- hvað varðar mig um þig veröld?
- venjulegur maður
- þessvegna verð ég kyrr
- landi minn
- til hvers?
- uppgjörið
- nöldurskjóða
Hörður segir þessa söngva falla að þeirri hugmynd sem hann var með í kollinum um að senda frá sér 3-4 verk á þessu afmælisári þegar hann fagnar 75 ára aldri. „Verk sem myndu kallast á við bækur mínar Bylting og Tabú. Ég byrjaði á því að senda frá mér bókina „75 sungnar sögur“ þann 1 ágúst í tilefni þessa að þá voru nákvæmlega 50 ár frá því að ég hóf að beita mér í mannréttindabaráttu. Fram að því hafði ég aðeins verið að þreifa fyrir mér sem listamaður. Þarna öðlaðist ég djúpstæðan tilgang í lífinu og fékk að launum listrænt frelsi.
Ég velti útgáfumálum plötunnar fyrir mér og fann Karolina Fund. Það var rétta lausnin. Ég hafði kynnst slíkum fjáröflunarleiðum á ferðalögum mínum sérstaklega á Nýja Sjálandi þar sem komin er löng og góð reynsla á þessa fjármögnunaraðferð. Karolina Fund er snöll lausn og á örugglega eftir að fara vaxandi í framtíðinni.“
Vinylplatan DROPAR verður gefin út í 250 eintökum og verður ekki sett á tónlistarveitu.