Magga Stína hefur lagt stund á tónlist frá unga aldri og hefur í gegnum langan tónlistarferilinn spilað með hljómsveitum á borð við Risaeðluna, sem var bæði iðin við tónleikahald hérlendis og ferðaðist einnig vitt og breitt um heiminn, Funkstrasse og Jazzhljómsveit Konráðs Bé, polkasveitinni Hr. Ingi. R. svo einhverjar séu hér nefndar.
Hóf hún svo sinn eigin feril og hefur gefið út eigin tónlist, sem og túlkað annarra tónlist inn á fjöldann allan af hljómplötum.
Hún hefur komið á óteljandi tónleikum í gegnum tíðina og má þá ekki gleyma trylltum dansleikjum áðurnefndrar polkahljómsveitar hennar, Hr. Ingi. R. og Möggu Stínu sem eru mörgum eftirminnilegir en með þeim söng og skemmti Magga Stína í mörg ár. Hún lagði stund á nám í fiðluleik sem barn hjá Helgu Óskarsdóttur og svo tónsmíðar sem fullorðin við LHÍ. Hún hefur unnið sem höfundur tónlistar og hljóðmynda við leikverk, bæði i Borgarleikhúsinu, hjá Leikfélagi Akureyrar og við Nemendaleikhúsið.
Tónlist er einfaldlega, inntak og alltumlykjandi neisti í lífi Möggu Stínu og mun svo verða um ókomna tíð. Nú vinnur hún að því að koma flutningi sínum á lögum Megasar út á vínylplötu.
Hvernig kviknaði hugmyndin að verkefninu?
„Hún kom nú einhvern veginn alveg kýrskýr og lógísk í kjölfar „Magga Stína syngur Megas” – tónleikanna sem ég hélt í Eldborg í Hörpu í febrúar síðastliðnum. Þar fann ég að eitthvað einstakt gerðist í samhljómi allra sem komu að, einhver galdrastund átti sér stað sem mér fannst vera ofboð mikils virði og mér fannst að hana mætti alveg varðveita. Vínylplata er jú fallegasta formið og það form sem ég lærði að hlusta á tónlist af, svo það var algerlega við hæfi að velja útgáfu á tvöfaldri vínylplötu!“
Segðu okkur frá þema verkefnisins?
„Í raun eins og ég sagði áðan þá er þemað kannski jafn einfalt og að breiða út fagnaðarerindið um íslenskar tónsmíðar, að þessu sinni tón og textasmíðar Megasar en það vill til að ég hef fundið mig í þeirri predikun undanfarin ár.“
Hvers vegna varð tónlist Megasar fyrir valinu?
„Mér finnst það mjög verðugt að túlka tónlist Megasar því hún á sífellt erindi. Hann hefur til að bera tímaleysi, dýpt og frumleika í verkum sínum sem gerir mörg laga hans sígild.
Lög sem hann hefur samið jafnvel fyrir löngu síðan, og þá við lítinn fögnuð eða skilning nema örfárra áheyrenda öðlast allt í einu áheyrn fleira fólks og þar með bullandi tilgang. Persónulega þá er því þannig háttað að ég finn mig í henni.“
Hvernig gengu tónleikarnir?
„Það er eitt um þá að segja að þeir voru mér heilög stund, fyrir þær sakir að þar voru saman komnar mjög margar manneskjur sem gáfu allt það fagra sem þær áttu til. Tónlistarfólkið allt allt allt. Áheyrendur allt og það er ekki síður hjartans list að njóta og taka inn tónlist en að flytja hana.“
Hvers vegna ætti fólk að næla sér í plötuna og styðja við verkefnið?
„Mér fyndist það bara yndislegt að fá stuðning sem þennan sem er í raun svo eðlileg leið, að fólk kaupi sér fyrirfram plötuna (svo er margt annað líka í boði) og að geta safnað fyrir framleiðslu á þessari tvöföldu tónleikaplötu sem inniheldur tónleikana í heild sinni, myndir og texta, svo jafnvel fleiri en þeir sem komu fái notið þess sem þar fór fram.“
Hvað er framundan hjá Möggu Stínu?
„Nú er ég að vinna að sönglögum við ljóð íslenskra, nánar til tekið reykvískra kvenskálda. Það er algerlega stórkostlegt að fá að veltast um í ljóðheimi þeirra, daginn langan og stuttan.“