Þar eru hrafnar, lundar og skarfar – Ópera um rétt alls sem lifir

Leiklistargagnrýnandi Kjarnans fjallar um Fuglabjargið sem sýnt er í Borgarleikhúsinu. „Á þeim tímum sem við nú lifum hefur aldrei verið mikilvægara að taka til sín hugmyndina um náttúruna sem á rétt á að vera til á sínum eigin forsendum.“

Fuglabjargið Mynd: Borgarleikhúsið
Auglýsing

Borgarleikhúsið í samvinnu við leikhópinn Hin Fræga Önd

Handritshöfundur: Birnir Jón Sigurðsson

Tónskáld: Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir og Ragnheiður Erla Björnsdóttir

Leikstjóri: Hallveig Kristín Eiríksdóttir

Leikmynd: Hallveig Kristín Eiríksdóttir og Birnir Jón Sigurðsson

Búningar: Sólveig Spillaert

Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson

Hljóð: Kristinn Gauti Einarsson

Flytjendur: Björk Níelsdóttir, Ragnar P. Jóhannsson, Viktoría Sigurðardóttir, Björg Brjánsdóttir, Bryndís Þórsdóttir, Halldór Eldjárn, Tumi Árnason.

Skammt undan ströndum Austurlands er eyja sem heitir Skrúðsey, í daglegu tali kölluð Skrúður. Skrúður stendur eins og klettur uppúr hafinu, sést vel úr Fáskrúðsfirði og einnig Reyðarfirði, hún er erfið uppgöngu en þaðan voru þó stundaðir útróðrar fyrr á öldum og höfðust þá vermenn við í helli, sem þar er og hefur í þjóðsögum verið talinn heimili bergrisa eða hrímþursa þess sem einnig er kallaður Skrúðsbóndinn; um hann segir í þekktu kvæði Ólafs Indriðasonar sem ort var um miðja nítjándu öld:


„Mjög er reisugt í Skrúð,

þar sig bergrisans búð

inn í brimþveginn hamarinn klýfur!“


Í næsta erindi – sem einnig má lesa í leikskrá að Fuglabjarginu – lýsir Ólafur öðrum íbúum Skrúðs, en það eru fuglarnir:


„Þar er hafsúla og már,

Þar er haftyrðill smár,

Þar eru hrafnar, lundar og skarfar.

Þar er æður og örn

Þar sín ótalmörg börn

Elur svartfugl og skegglurnar þarfar.“


Og hérna er í raun komin hlutverkaskrá sýningarinnar Fuglabjargið eða því sem næst; í sýningunni koma fram Súlan, Ritan, Lundinn, Haftyrðillinn, Langvían, Hrafninn, Skarfurinn, Æðarfuglinn og Hafassan og þau segja sína sögu eins og hún birtist á einu ári í lífi Skrúðs með öllum þeim tilbrigðum sem árstíðaskipti og veðraskipti bjóða.

Auglýsing

Höfundur handrits er Birnir Jón Sigurðsson og leitar hann fanga í eðli og hegðunarmynstri fuglanna og mótar og myndar söguþráð útfrá því. Reyndar er kannski ekki rétt að tala um söguþráð í þeim skilningi sem algengastur er, og þó – fer hreyfing og framþróun náttúrunnar og alls þess lifandi sem hana byggir ekki eftir ákveðinni rökfestu sem kalla má þráð sögu? Allt sem lífsanda dregur fæðist, dafnar, vex, nær þroska, hrörnar og deyr og í því má vissulega greina ákveðinn þráð – söguþráð. Sú saga sem þannig er ofin kallar þó á öðruvísi nálgun áhorfenda og áheyrenda – lífssaga af því tagi sem sögð er í Fuglabjarginu skorar á áhorfandann að beita athygli og skilningi á annan hátt en þegar horft er á venjulega frásögn í leikhúsi.

Þær persónur sem hér birtast sjónum haga sér á annan hátt en mannfólkið og það kallar á einbeitingu og hæfileika til innlifunar að taka sögu þeirra til sín. En það er hverju mannsbarni hollt að þjálfa þann eiginleika og hér gefst kostur á því – Fuglabjargið skorar á áhorfendur sína að opna sig fyrir því sem fyrir augu ber og þá sést kannski, þegar allt kemur til alls, að fuglar Skrúðs eru hreint ekkert svo frábrugðnir okkur mönnunum þegar allt kemur til alls. Það er nefnilega ýmislegt líkt með skyldum og öll erum við ábúendur í sama vistkerfi.

Fuglabjargið Mynd: Borgarleikhúsið

Fuglabjargið er fyrst og fremst ópera eða tónverk og tónlistin flutt með lifandi hljóðfæraleik á sviðinu undir söng leikaranna/söngvaranna, sem bregða sér í hlutverk fuglanna sem áður eru nefndir. Tónlistin, líkt og söguþráðurinn, sækir innblástur í atferli fuglanna og notar þau hljóð sem heyra má í fuglabjargi Skrúðs. Úr verður líflegt tónverk, fjölbreytilegt eins og fuglahljóðin í náttúrunni, sem tjáir öll tilbrigði þess lífs sem kviknar, vex, þróast, elskar og játast því lífi sem í boði er. Tónskáldin Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir og Ragnheiður Erla Björnsdóttir eru höfundar tónlistarinnar, en sú síðarnefnda er einnig tónlistarstjóri sýningarinnar. Þær Ingibjörg Ýr og Ragnheiður Erla hafa báðar útskrifast af tónsmíðabraut LHÍ og hafa síðan fengist við nútíma tónsmíðar þar sem unnið er að því að tengja tækni og tónlist á nýjan hátt, en það skilar sér með ágætum í hljóðheimi Skrúðs. Það má nefna hér að í fyrri verkefnum sínum hafa þær leitað í hugarheim þjóðsagna og menningararfs, sem nýtist svo um munar í Fuglabjarginu. Tónlistin er aðlaðandi í þeirri merkingu að hún vekur forvitni og er samtvinnuð þeim vistfræðilega söguþræði sem sýningin fylgir.

Söngvararnir hafa það verkefni að gæða hvern fugl lífi og leysa það af hendi á hrífandi hátt undir styrkri leikstjórn Hallveigar Kristínar Eiríksdóttur. Þarna birtast Súla, Haftyrðill og Langvía, öll leikin og sungin af Viktoríu Sigurðardóttur, Riturnar eru leiknar og sungnar af Halldóri Eldjárn og Bryndísi Þórisdóttur, sem skipa einnig hljómsveit sýningarinnar; þá er þarna kostulegur Lundi, sunginn og leikinn af Björk Níelsdóttur, sem einnig fer með hlutverk Hrafnsins. Þá er ógetið Skarfsins, sem Ragnar Pétur Jóhansson leikur og syngur og Hafassan sem Björg Brjánsdóttir syngur og leikur ásamt því að vera í hljómsveitinni. Tumi Árnason leikur einnig í hljómsveitinni og bregður sér ásamt fleirum í hlutverk Æðarfuglsins. Það má því ljóst vera að lífið í klettum Skrúðs er hið fjölbreytilegasta – en það birtist ekki síst í frábærlega fallegum og hugvitsamlega hönnuðum fuglabúningum Sólveigar Spilliaert. Það er auðfundið, að þessir búningar styðja vel við túlkun leikara og söngvara í hlutverkum sínum og þeir gleðja svo sannarlega augað og eiga sinn þátt í því, ásamt hagnýtri og fallegri leikmynd að gefa sýningunni töfrandi og heillandi yfirbragð. Ónefnd er leikmyndin, sem hönnuð er af leikstjóranum Hallveigu Kristínu og handritshöfundinum Birni Jóni og um hana má segja að hún er nánast eins og áttundi leikarinn, svo vel þjónar hún sögunni og myndar um hana lifandi umgjörð, sem er umbreytileg eftir aðstæðum og þörfum.

Fuglabjargið Mynd: Borgarleikhúsið

Fuglabjargið er heilsteypt og fallegt listaverk sem enginn skyldi láta framhjá sér fara. Á þeim tímum sem við nú lifum hefur aldrei verið mikilvægara að taka til sín hugmyndina um náttúruna sem á rétt á að vera til á sínum eigin forsendum. Fuglabjargið styður þá hugmynd að allt sem lifir fái að gera það á sínum eigin forsendum.

Í kynningu á Fuglabjarginu, t.d. á heimasíðu Borgarleikhússins, er sýningin sögð „tónleikhúsverk fyrir börn“ og „barnaverk“. Það er í sjálfu sér satt, en þó vaknar sú hugsun hvort ekki væri rétt að benda á hversu vel sýningin er fallin til að kveikja samræður milli kynslóða, milli barna og foreldra, milli barna og móður- eða föðurforeldra. Hér er nefnilega ekki aðeins unnið með náttúruna sem þema, heldur einnig og ekki síður með þann menningararf, sem snýr að sambúð manns og náttúru. Öll saga okkar Íslendinga snýst um það og okkur er nauðsynlegt og hollt að kynnast henni og öðlast tækifæri til að móta persónulega afstöðu til hennar.

Kvæði Ólafs Indriðasonar, sem vitnað var til hér í upphafi, og sem hefur nýst höfundum Fuglabjargsins, segir frá hinu þekkta þjóðsagnaminni sem er Skrúðsbóndinn og þeirri mystík sem umvefur hann. Slíkur heimur þjóðsagna og þjóðtrúar umlykur vitaskuld einnig alla þá fugla sem byggja þetta land, Ísland, ásamt okkur mönnunum, og eru til vitnis um sambúskap manna og fugla.

Fuglabjargið er kjörin fjölskyldusýning, þar sem kynslóðirnar geta útfrá sýningunni og því sem þar segir frá, leyft sýningunni að lifa áfram í minningunni og glætt hana nýjum fróðleik og nýjum upplifunum, t.d. með því að fletta í nýútkominni bók Sigurðar Ægissonar, Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin, sem segir frá sömu fuglum og sýningin (og allmörgum til viðbótar) og þar að auki í sama anda, þótt í öðruvísi miðli sé. Bók Sigurðar kemur út eftir að höfundar hafa samið handrit og tónlist, en það er eins og það sé ekki tilviljun að Fuglabjargið og bók Sigurðar komi út á sama tíma – bæði verkin horfa til heildar og bera með sér anda virðingar og réttar alls til lífs á eigin forsendum.

Fuglabjargið er sýning sem engin ætti að láta framhjá sér fara – og það væri hreint ekki verra ef von væri á framhaldi; af nógu er að taka í dýraríki lofts, láðs og lagar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Davíð Helgason, einn stofnenda og fyrrum forstjóri Unity.
Segir Ísland geta orðið „einhvers konar tilraunasetur fyrir framtíðina“
Frumkvöðullinn og milljarðamæringurinn Davíð Helgason flytur til Íslands í sumar og ætlar að fjárfesta í fyrirtækjunum sem vinna gegn loftslagsvandanum. Að hans mati er margt sem gerir landið að góðum fjárfestingarkosti.
Kjarninn 18. maí 2021
Palestínumennirnir fimm fyrir utan húsnæði Útlendingastofnunar í Hafnarfirði í dag.
„Við viljum frekar deyja á götunni á Íslandi en að fara aftur til Grikklands“
„Íslensk yfirvöld hlusta ekkert á okkur. Þó að þau viti hvernig ástandið er í okkar heimalandi og þær áhyggjur sem við höfum. Ég meina, húsin sem við bjuggum í hafa sum verið jöfnuð við jörðu.“ Þetta segir Palestínumaður sem er lentur á götunni á Íslandi.
Kjarninn 18. maí 2021
Fasteignaverð hækkar meira með hverjum mánuðinum sem líður, þar sem eftirspurn er mikil og minna er um nýbyggingar.
Ekki meiri hækkun síðan árið 2017
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 13,7 prósent í apríl á ársgrundvelli, miðað við vísitölu Þjóðskrár. Vísitalan hefur ekki hækkað jafnmikið milli ára síðan í desember 2017.
Kjarninn 18. maí 2021
Þröstur Ólafsson
Var þanþolið rofið?
Kjarninn 18. maí 2021
„Þegar mikil eftirspurn er eftir húsnæði getur fyrirvari um ástandsskoðun fasteignar talist kauptilboði til frádráttar,“ segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni.
Ástandsskýrslur fylgi öllum seldum fasteignum
Nýsamþykkt þingsályktunartillaga felur ráðherra að móta frumvarp um ástandsskýrslur fasteigna. Slíkum skýrslum er ætlað að auka traust í fasteignaviðskiptum en ábyrgð vegna galla sem ekki koma fram í ástandsskýrslum mun falla á matsaðila.
Kjarninn 18. maí 2021
Allir hljóta að hafa skoðun á vegferð Ísraelsmanna að mati Hönnu Katrínar Friðriksson þingmanns Viðreisnar.
„Við Íslendingar höfum sterka rödd á alþjóðavettvangi“
Íslensk stjórnvöld þurfa að láta í sér heyra og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama vegna átaka milli Ísraels og Palestínu að mati þingmanna Viðreisnar og Framsóknarflokks. Þó svo að íslenska þjóðin sé fámenn hafi hún sterka rödd og hana þurfi að nota.
Kjarninn 18. maí 2021
Samkvæmt ASÍ og BSRB er skuldasöfnun ríkisins ekki áhyggjuefni þegar vextir eru lágir
Gagnrýna „afkomubætandi ráðstafanir“ og vilja breyta fjármálareglum
Sérfræðingahópur á vegum ASÍ og BSRB varar stjórnvöld við að beita niðurskurði í yfirstandandi kreppu og segir að fjármálareglur hins opinbera þurfi að vera sveigjanlegri í nýrri skýrslu um efnahagsleg áhrif faraldursins.
Kjarninn 18. maí 2021
Græni miðinn er aftur kominn upp á gafl Hafnarborgar.
Listaverk sem fjarlægt var af bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði komið upp á nýjan leik
Listaverk þeirra Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar var fjarlægt af gafli Hafnarborgar fyrr í þessum mánuði að beiðni bæjaryfirvalda. Listaverkið er nú aftur komið upp en líklega hafa bæjaryfirvöld látið undan þrýstingi fagfélaga að mati listamannanna.
Kjarninn 18. maí 2021
Meira úr sama flokkiFólk