Leiksigur!

Leiklistargagnrýnandi Kjarnans fjallar um sýninguna Vertu úlfur sem Þjóðleikhúsið sýnir um þessar mundir.

Vertu úlfur
Vertu úlfur
Auglýsing

Þjóðleikhúsið: Vertu úlfur

Leikverk eftir Unni Ösp Stefánsdóttur byggt á samnefndri bók Héðins Unnsteinssonar

Leikstjóri: Unnur Ösp Stefánsdóttir

Leikmynd og myndbandshönnun: Elín Hansdóttir

Búningar: Filippía I. Elísdóttir

Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson og Halldór Örn Óskarsson

Dramatúrg: Hrafnhildur Hagalín

Tónlist í leiksýningu: Valgeir Sigurðsson

Hljóðhönnun: Elvar Geir Sævarsson

Leikari: Björn Thors

Það er auðvelt að hrífast af leiksýningunni Vertu úlfur. Hún fjallar um áleitið efni, geðsjúkdóm, byggir á samnefndri sannsögulegri frásögn Héðins Unnsteinssonar, sem í sögu sinni segir frá eigin reynslu, sem á stóra sviði Þjóðleikhússins er túlkuð í leikgerð og leikstjórn Unnar Aspar Stefánsdóttur af leikaranum Birni Thors – sem er einn á sviðinu í um eina og hálfa klukkustund, sem eitt og sér er aðdáunarvert afrek.

Þegar áhorfendur koma sér fyrir í sal Þjóðleikhússins röltir Björn Thors um forsviðið, tjaldið er dregið fyrir og brátt gefur hann til kynna að hann ætli að segja sögu sína og ekki einungis það – hann sker úr um það, að við, áhorfendur, séum hluti af því samfélagi sem fór illa með hann, beitti hann alvarlegu ranglæti og hann ætlar að segja sögu sína hér – á stóra sviði Þjóðleikhússins og ekki verður skilið annað en hann ætli að renna stoðum undir ákæru sína og sannfæra okkur um sekt samfélagsins. Okkar.

Auglýsing

Í leikskrá er hann aðeins nefndur „leikari“, og ég skil það þannig að reynt sé að færa sýninguna frá uppruna sínum, sögu Héðins, og gera hana að almennara verki; ákæruna er ekki að finna jafn einarðlega orðaða í bókinni og með ákærunni vekur leiksýningin óneitanlega hugrenningar í átt að álíka ákærum – frægust mun trúlega vera „Je‘accuse“ Émile Zola, sem í opnu bréfi til forseta Frakklands ákærði samfélagið fyrir dóminn yfir Alfred Dreyfuss, sem hafði verið ákærður og dæmdur fyrir landráð. Hér talar „leikari“ beint til okkar áhorfenda, dregur okkur inn í atburðarásina og ekki er við öðru að búast en að við munum nú verða sek fundin – samræmi við tilefnið.

Saga „leikara“ hefst á því að hann dregur hring á sviðið með sandi – það er hans punktur, miðpunktur, og inn í þann hring stígur hann til að kjarna sig og ná áttum. Innan skamms er fortjaldið dregið frá og opnar sýn inn í hugarheim hans – galtómt stóra svið Þjóðleikhússins sem hefur sjaldan virst jafn bert og nakið, til vinstri sér í kaðlana sem eru hluti af leikhúsvélinni, ber bakveggurinn blasir við og hringsviðið, sem er greinilega auðkennt, þar er að finna hugarrými „leikara“ og rímar við litla sandhringinn á forsviðinu. Þessi leikmynd er vel hugsuð og þjónar fyllilega þeim tilgangi að skapa skiljanlega mynd af hugarheimi þess sem glímir við geðhvörf – þrívíð mynd af sálrænu ástandi og sú mynd er hugvitsamlega og á köflum snilldarlega samin og nægir að nefna myndina af ökuferðinni um Borgafjörð þar sem „leikari“ tekur bókstaflega flugið upp eftir bakvegg stóra sviðsins. Leikmynd og tilheyrandi myndband er skapað af Elínu Hansdóttur, lýsingin er hönnuð af Birni Bergsteini Guðmundssyni og Halldóri Erni Óskarssyni og á stóran hlut í því að koma sögu „leikara“ til okkar áhorfenda. Við það má bæta búningum Filippíu I. Elísdóttur sem ríma í lit fullkomlega við sal Þjóðleikhússins og staðfesta að annars staðar verður þessi saga og sýning ekki sett niður og sögð.

Vertu úlfur Mynd: Þjóðleikhúsið

Saga „leikara“ verður æ átakanlegri eftir því sem á líður og hápunktur hennar er þegar kemur að því að hann er tekinn með valdi af föður sínum og nokkrum til og lokaður inni á geðdeild. Allri þessari sögu gerir Björn Thors skil með mestu ágætum, brestur hvergi í úthaldi eða ákefð þar sem við á, hann heldur að því er virðist áreynslulaust jafnvægi á hnífsegg og heldur athygli áhorfanda af öryggi. Þó ekki væri nema til þess eins að sjá Björn Thors vinna leiksigur þá er það góð ástæða til að sjá sýninguna. Hún er auk þess þarfur og skynsamlegur innblástur í umræðu um geðheilbrigðismál á Íslandi.

Björn og leikstjórinn Unnur Ösp notfæra sér sviðsmyndina út í æsar til að gera söguna sýnilega og tekst það alveg með ágætum, enda vinnur allt saman að einu markmiði – leikur, leikmynd, lýsing, búningar, tónlist – og gerir það með þeim virktum sem list augnabliksins krefst. Sýningin situr eftir í huga manns, hinn einmana „leikari“ og átakanleg saga hans lifir löngu eftir að slökkt hefur verið á sviðsljósunum.

Eitt er þó atriði, sem undirritaður vill gera að umræðuefni. Upphaf sýningarinnar minnir sterklega á aðferðafræði þýska leikhúsmannsins Bertolds Brecht, sem einatt notaði þá tækni að láta persónur verka sinna tala beint til áhorfenda og höfða til vitræns skilnings þeirra en ekki tilfinninga. Og það er vel í samræmi við upphafsávarp „leikara“ til okkar áhorfenda – „ég ákæri“. Það er því eðlilegt að búast við átaka- og réttarfarsdrama þar sem sannleikurinn skal dreginn fram í sviðsljósið. Og vissulega ber sýningin með sér ákveðinn sannleik, sem er saga „leikara“ sögð af honum sjálfum. Við trúum því að þarna sé farið með eins og „leikari“ sjálfur man og hefur upplifað, hann er einlægur og sannur í frásögn sinni. En frásögnin verður tilfinningaleg og þegar kemur að lokum er eins og „leikari“ söðli endanlega um. Ákæran líkt og hverfur átakalítið og „leikari“ lítur til þeirra er í salnum sitja og fer með eins konar lykilsetningu: „ég lifi og þér munuð lifa!“ og kveður síðan uppúr með það, að hann fyrirgefi okkur. Það er eins og hrópað hafi verið einum of oft á úlfinn.

Vertu úlfur Mynd: Þjóðleikhúsið

Burtu er hið Brechtska réttardrama og hinn klassíski Aristóteles er leiddur inn á sviðið. Sagan endar á sálfræðilegu nótunum. Messíasartónninn í lykilsetningunni tekur við af ákærunni, sem líkt og hverfur út í buskann. Eftir situr fyrirgefningin eins og antíklímax. Það er mikill ys og þys út af litlu, því miður, og kemur til af því að hér stangast á tvær meginstefnur í leikrænni frásögn, annars vegar hið epíska leikhús Brechts og hins vegar hinn dramatíski harmleikur Aristótelesar. Í harmleiknum í Grikklandi til forna var siðferðilegum boðskap leiksins gjarnan beint til áhorfenda í lokin til að minna þá á, hvaða vegur leiddi til glötunar og hvaða vegur leiddi til farsældar og sáttar við guðina; sagan var dæmisaga og til áminningar um að þær athafnir mannsins sem ekki væru guðunum þóknanlegar leiddu til fordæmingar og tortímingar. Þegar áhorfendur öðluðust innsæi um þetta í leikslok áttu þeir að verða fyrir því sem kallast katharsis, sem túlka má sem eins konar hreinsun hugans, innsæi um það sem rétt er og eftirbreytnivert. Fyrirgefningin er af þeim toga spunnin; sá sem breytt hefur ranglega er fyrirgefið og þar með hlíft við refsingu. En það gengur illa upp í leikhúsfrásögn sem hefst á ákæru í stíl hins epíska leikhúss, því með fyrirgefningunni í lokin eru gjörðir hins seka – okkar áhorfenda – rúnar afleiðingum og merkingu. Samfélagsdramað fer fyrir lítið.

Það má hugsanlega segja það áhugaverða dramtúrgíska tilraun að tefla þeim saman í sömu sögu, Aristótelesi og Brecht, en hún gengur illa upp. Leiklistarsagan er til vitnis um það að annar þeirra reyndi af öllum mætti að forðast hinn.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Davíð Helgason, einn stofnenda og fyrrum forstjóri Unity.
Segir Ísland geta orðið „einhvers konar tilraunasetur fyrir framtíðina“
Frumkvöðullinn og milljarðamæringurinn Davíð Helgason flytur til Íslands í sumar og ætlar að fjárfesta í fyrirtækjunum sem vinna gegn loftslagsvandanum. Að hans mati er margt sem gerir landið að góðum fjárfestingarkosti.
Kjarninn 18. maí 2021
Palestínumennirnir fimm fyrir utan húsnæði Útlendingastofnunar í Hafnarfirði í dag.
„Við viljum frekar deyja á götunni á Íslandi en að fara aftur til Grikklands“
„Íslensk yfirvöld hlusta ekkert á okkur. Þó að þau viti hvernig ástandið er í okkar heimalandi og þær áhyggjur sem við höfum. Ég meina, húsin sem við bjuggum í hafa sum verið jöfnuð við jörðu.“ Þetta segir Palestínumaður sem er lentur á götunni á Íslandi.
Kjarninn 18. maí 2021
Fasteignaverð hækkar meira með hverjum mánuðinum sem líður, þar sem eftirspurn er mikil og minna er um nýbyggingar.
Ekki meiri hækkun síðan árið 2017
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 13,7 prósent í apríl á ársgrundvelli, miðað við vísitölu Þjóðskrár. Vísitalan hefur ekki hækkað jafnmikið milli ára síðan í desember 2017.
Kjarninn 18. maí 2021
Þröstur Ólafsson
Var þanþolið rofið?
Kjarninn 18. maí 2021
„Þegar mikil eftirspurn er eftir húsnæði getur fyrirvari um ástandsskoðun fasteignar talist kauptilboði til frádráttar,“ segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni.
Ástandsskýrslur fylgi öllum seldum fasteignum
Nýsamþykkt þingsályktunartillaga felur ráðherra að móta frumvarp um ástandsskýrslur fasteigna. Slíkum skýrslum er ætlað að auka traust í fasteignaviðskiptum en ábyrgð vegna galla sem ekki koma fram í ástandsskýrslum mun falla á matsaðila.
Kjarninn 18. maí 2021
Allir hljóta að hafa skoðun á vegferð Ísraelsmanna að mati Hönnu Katrínar Friðriksson þingmanns Viðreisnar.
„Við Íslendingar höfum sterka rödd á alþjóðavettvangi“
Íslensk stjórnvöld þurfa að láta í sér heyra og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama vegna átaka milli Ísraels og Palestínu að mati þingmanna Viðreisnar og Framsóknarflokks. Þó svo að íslenska þjóðin sé fámenn hafi hún sterka rödd og hana þurfi að nota.
Kjarninn 18. maí 2021
Samkvæmt ASÍ og BSRB er skuldasöfnun ríkisins ekki áhyggjuefni þegar vextir eru lágir
Gagnrýna „afkomubætandi ráðstafanir“ og vilja breyta fjármálareglum
Sérfræðingahópur á vegum ASÍ og BSRB varar stjórnvöld við að beita niðurskurði í yfirstandandi kreppu og segir að fjármálareglur hins opinbera þurfi að vera sveigjanlegri í nýrri skýrslu um efnahagsleg áhrif faraldursins.
Kjarninn 18. maí 2021
Græni miðinn er aftur kominn upp á gafl Hafnarborgar.
Listaverk sem fjarlægt var af bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði komið upp á nýjan leik
Listaverk þeirra Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar var fjarlægt af gafli Hafnarborgar fyrr í þessum mánuði að beiðni bæjaryfirvalda. Listaverkið er nú aftur komið upp en líklega hafa bæjaryfirvöld látið undan þrýstingi fagfélaga að mati listamannanna.
Kjarninn 18. maí 2021
Meira úr sama flokkiFólk