Sigurbjörg A Sæm er skáldkona og skrifari, fædd árið 1981. Hún er aktivisti og áhugakona um hættulegar hugmyndir um breyttan heim. Eftir hana hafa komið út tvær ljóðabækur; Mjálm (2015) og Tileinkanir (2020). Þá var ljóð hennar, Skammtarinn, birt í TMM snemma árs 2016. Eins var hún með ljóð í safnverkinu Viljaverk í Palestínu sem kom út árið 2014 á vegum vefritsins Starafugls.
Hún deilir heimili með 7 ára fræðimanni, 15 ára listakonu, þrítugum hippa og þrem einstökum köttum.
Nú er hún að leggja lokahönd á sína fyrstu skáldsögu sem ber titilinn Moldviðri. Höfundur er með Facebook-síðu sem hægt er að sjá hér.
Sett hefur verið af stað söfnun fyrir útgáfukostnaði á Karolina Fund.
Sigurbjörg segir að Moldviðri hafi byrjað sem stutt prósaljóð árið 2014. „Hugmyndin að prósaljóðinu kviknaði því ég fékk einhverja djúpstæða þörf til að segja sögu stúlkna og kvenna sem lifa við meðfædda skömm. Kvenna sem eru beittar órétti og ofbeldi. Kvenna sem eru sterkari en allt sem sterkt er. Og mig langaði að blanda súrrealisma, poppkúltúr ásamt óhefluðu orðbragði í þetta mengi. Ljóðið varð svo að nokkurs konar ljóðabálki sem varð að smásögu sem sprengdi svo loks þann kvóta. Og ég fann að þetta yrði mín fyrsta skáldsaga. Byrjaði svo markvisst að skrifa þessa sögu eftir erfiðan skilnað árið 2017. Skriftirnar urðu að nokkurs konar catharsis eftir erfið ár.“
Sigurbjörg segir að eftir 7 ára vinnslu á sögunni finnist henni tímabært að hún komi út. „Hún hefur gengið ansi nærri mér á þessum árum, en ég finn svo sterkt að þetta er mikilvæg saga að segja. Ég skrifaði söguna fyrir okkur baráttukonur allra kynslóða og okkur sem erum orðin þreytt á að berjast. Þetta er skáldsaga fyrir fólk af öllum kynjum sem fílar grótesk sögur, þetta er bók fyrir unnendur Undralands, þetta er bók fyrir karlréttindasinna. Því öll höfum við upplifað örlítið moldviðri.“