Lífshlaup hjónanna Baldvins og Kristínar hefur verið langt í frá hefðbundið, en mikill meirihluti þeirra tíma saman einkenndist af baráttu Baldvins við hinn illvíga sjúkdóm sem krabbamein er. Þrátt fyrir þann skugga sem sjúkdómurinn varpaði á líf þeirra hjóna tókst þeim að eiga dýrmætar stundir saman og breyta ógnum í tækifæri og upplifanir. Baldvin féll frá eftir erfiða baráttu þann 10. september síðastliðinn og var ein af óuppfylltum óskum hans að gefa út bók með völdum ljóðum sem hann hafði samið í gegnum árin. Eftirlifandi eiginkona Baldvins, Kristín Snorradóttir, stefnir á að láta þann draum rætast með góðri hjálp, en söfnun hefur verið sett í gang á Karolina Fund af því tilefni.
Hún segir að þau Baldvin hafi verið saman í 29 ár og á 26 af þeim var krabbamein þriðji aðili í hjónabandinu og eitt af stóru verkefnum lífsins. „Baldvin minn var rólyndismaður og maður fárra orða, en það sem hann sagði var fullt af visku. Hann átti auðveldara með að tjá sig í gegnum ljóð og gerði það snilldar vel. Á okkar 29 árum var það partur af tilverunni að finna bréfssnifsi þar sem hann hafði hripað niður hugsanir sínar og tilfinningar í ljóðum.
Krabbameinið tók toll og hann þekkti svo vel myrkan heim þunglyndis og kvíða, að mörgu leiti skrifaði hann sig frá þunglyndinu og kvíðanum og það má bersýnilega sjá í bókinni. Einnig lýsa ljóðin því svo vel hvernig svartnættið leggst yfir og allt virðist svo vonlaust.“
Kristín segir að sorgin sem Baldvin upplifði þegar elsti sonur þeirra leiddist út í heim fíkniefnaneyslu og ástin vera eitthvað sem hann átti erfitt með að orða án ljóða. „Sonurinn sem var hans þrátt fyrir að hann hafi fylgt konunni inn í líf hans, þá fjögurra ára gamall. Við bættust tvö önnur börn dóttir og sonur, en öll áttu jafnan stað í hjarta hans og svo barnabarnið þegar hann kom í heiminn.
Baldvin starfaði sem lögreglumaður og í starfi sínu sá hann ýmislegt, en hann dæmdi engan því fyrir honum voru menn jafnir í augum almættis. Baldvin var alltaf andlega sinnaður, trúði á eitthvað annað og meira en þessa einu jarðvist. Hann trúði á ljósið í hjörtum mannanna, allra manna líka ógæfumanna.“
Í seinni tíð leyfði Baldvin sér að hleypa út þessari andlegu hlið, lærði reiki og spilaði á Gong og kristalsskálar. „Með því veitti hann fólki hljóðheilun, en ávallt var ljóð með í för og fólk kom aftur og aftur til okkar hjóna í hjartanærandi stundir á sunnudögum, þar sem ég leiddi slökun og hann spilaði og las ljóð.
Baldvin ætlaði að gefa út þessa bók en því miður varð hann undir í barráttunni við krabbameinið þann 10. september 2021, þremur dögum fyrir 59 ára afmælið sitt. Því kom ekkert annað til greina en að eftirlifandi ekkja léti drauminn rætast. Verkefnið snýst því um að heiðra minningu látins eiginmanns og láta drauminn hans rætast.
Draumar geta ræst og allir ættu að trúa því.“