Myndlistarkonan Jóna Hlíf er löngu orðin kunn fyrir verk sín, ekki síst áherslu sína á efniviðinn sem hún vinnur með, mótun hans, tæringu, veðrun og aðrar umbreytingar. Textar hafa ætíð verið stór hluti af myndlist hennar: gamalkunnug orð í nýju samhengi; andstæð orð sem teflt er saman; orðaleikir, heimspekilegar pælingar um merkingu orða; stafir sem skúlptúrar, ljóðræn textabrot.
Nú er væntanleg bókin Brim Hvít Sýn þar sem verður að finna samantekt á afrakstri tilrauna hennar með margvíslegt samspil texta og myndlistar: um 100 ljósmyndir af verkum auk sýningartexta og umfjöllunar um verkin. Ritstjóri er Auður Aðalsteinsdóttir og segir hún að þegar úr svo umfangsmiklu höfundarverki sé að moða þurfi að ákveða megináherslur og velja út frá því svo að úr verði bók með afmarkaðri heildarsýn og þema.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Í gegnum árin hefur Jóna Hlíf ekki aðeins haldið til haga verkum og textum tengdum sýningum sínum heldur einnig umfjöllun um verkin. Hún hefur um nokkurt skeið velt því fyrir sér hvort hér gæti verið komið efni í heila bók og þegar ég frétti af því stakk ég strax upp á að hún gæti gefið slíka bók út hjá útgáfufyrirtækinu mínu, Ástríki ehf, sem ég rek ásamt Ástu Gísladóttur. Við höfum reyndar unnið að ýmsum verkefnum með Jónu Hlíf í gegnum tíðina, meðal annars tekið að okkur að þýða og lesa yfir texta Störu, tímariti Sambands íslenskra myndlistarmanna, sem hún ritstýrði á þeim tíma. Við erum því vanar að vinna saman allar þrjár og það ríkir bæði traust og vinátta í þessu verkefni sem öðrum. Það hefur síðan verið gefandi og áhugavert að fara með Jónu Hlíf í gegnum höfundarverkið hennar og kafa í einstaka þætti – en aðeins erfiðara auðvitað að vinsa úr, því bókin er ekki heildaryfirlit heldur hefur ákveðið meginþema.“
Segðu okkur frá þessu þema?
„Jóna Hlíf hefur unnið mikið með texta í myndlistinni sinni, á ótrúlega fjölbreyttan hátt, og eins og kemur fram í viðtali sem ég tók við hana og er meðal efnis í bókinni þá eru bækur eins konar kjörheimili texta. Það lá því beint við að koma textaverkunum hennar út í bókarformi og halda með því áfram þessari skapandi vinnu í kringum textana; skapa enn eitt og nýtt verk upp úr öllum textaverkunum. Það má því segja að samspil myndlistar og texta sé meginþemað en inn í það fléttast svo aðrir sterkir þræðir í myndlist Jónu Hlífar, til dæmis ímyndasköpun og sjálfsímynd, forgengileiki efnis og orða, tenging okkar við náttúruna, með orðum og myndum, og kannski ekki síst öll pólitíkin og sögulega samhengið bak við texta og framsetningu þeirra.“
Hvers vegna völduð þið að gefa þessa bók út núna?
„Eins og áður kom fram mun Jóna Hlíf halda áfram að þróast sem listamaður og skapa þótt hún hafi ákveðið að nú væri komið að þeim punkti á ferlinum að gott væri að staldra aðeins við og líta til baka á allt það sem hún hefur þegar lagt af mörkum. Í víðara samhengi held ég að þessi bók hafi einmitt mikið erindi bæði sem heimild og sem framlag í listumræðuna sem fram fer núna. Það er nefnilega afar mikilvægt að halda samtímalist og samtímalistamönnum á lofti, að efla umfjöllun og umræðu um þá og beina
þannig reglulega kastljósinu að því sem listamenn eru að gera hér og nú.“