Það er ánægjulegt að hafa náð kjarasamningum við allt að 80 þúsund manns á almennum vinnumarkaði. Það var ekki auðvelt og allir aðilar þurftu að sýna mikinn sveigjanleika og ákveðni til að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Samningarnir nú taka beint við af Lífskjarasamningnum sem náði frá 2019 til loka nóvember sl.
Samningarnir tryggja launafólki hækkanir sem koma til framkvæmda strax og vinna þannig upp á móti kaupmáttarrýrnun sem hefur orðið frá því að verðbólgan komst á skrið. Þrátt fyrir það hefur Lífskjarasamningurinn fært launafólki aukinn kaupmátt launa sem hefur aukist mjög á tíma samningsins og langt umfram það sem gerist í helstu nágrannalöndum.
Kjarasamningarnir nú gilda til loka janúar 2024 og styðja við kaupmátt launafólks og brúa bil yfir í nýjan langtímasamning í anda Lífskjarasamningsins. Þar var áhersla lögð á að tryggja efnahagslega velsæld, aukna verðmætasköpun, betri lífskjör og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta.
Grunnur að nýjum langtímasamningi
Markmiðið með skammtímasamningunum er að verja árangur undanfarinna ára og skapa grundvöll til að lífskjör geti batnað enn frekar á komandi misserum. Samningarnir eru gerðir við krefjandi aðstæður sem einkennast af mikilli verðbólgu og vaxtahækkunum. Það er nauðsynlegt að ná sem fyrst jafnvægi í hagkerfinu og lækka verðbólgu og skapa skilyrði til að vextir geti lækkað að nýju. Það eru mikilvægir hagsmunir fyrir launafólk en ekki síður fyrirtækin. Fyrir alla er stöðugleiki, lág verðbólga og hóflegir vextir nauðsynlegir til að eyða óvissu og gera heimilum og fyrirtækjum kleift að gera áætlanir sem standast.
Með því að verja kaupmátt í samningi til skamms tíma er það ásetningur samningsaðila að skapa fyrirsjáanleika á óvissutíma til hagsbóta fyrir fjölskyldur og fyrirtæki. Þá hafa stjórnvöld gefið fyrirheit um tilteknar aðgerðir í tengslum við skammtímasamninga, ekki síst til að styrkja stöðu þeirra sem minnst hafa.
Með samningunum fylgir tímasett viðræðuáætlun um að samningur taki við af samningi og tryggja með því samfellu milli Lífskjarasamningsins frá 2019 og nýs langtímasamnings. Takist að gera nýjan langtímasamning snemma árs 2024 til þriggja eða fjögurra ára felst í því mikilvægt framlag til að stuðla að efnahagslegum stöðugleika stóran hluta þessa áratugar. Meginatriði sem horfa þarf til við þessa vinnu liggja fyrir og aðilar samninganna hafa ætlunin er að tryggja launafólki frekari kaupmáttaraukningu og fyrirtækjunum fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi þannig að verðmætasköpun aukist og standi undir launahækkunum.
Opinber fjármál
En það er ekki nægjanlegt að samningsaðilar á almennum vinnumarkaði sýni ábyrgð og geri sitt til að stuðla að stöðugleika.
Í síðustu kjaralotu samdi hið opinbera um launahækkanir langt umfram það sem gilti á almennum vinnumarkaði. Á sama tíma hefur starfandi hjá hinu opinbera fjölgað umfram almenna vinnumarkaðinn. Þessi þróun er ekki sjálfbær enda leiðir hún að óbreyttu til þess að æ minna svigrúm er fyrir fjárfestingu og annan rekstur. Ótækt er að opinberir aðilar leiði launaþróun á vinnumarkaði. Nauðsynlegt er að ríki og sveitarfélög sýni aðhald til að draga úr þenslu og skapa skilyrði til að verðbólga geti lækkað og vextir sömuleiðis. Hið opinbera skuldar gríðarlegt fé og stendur frammi fyrir hærri vaxtakostnaði til framtíðar en gert hefur verið ráð fyrir. Haldist vaxtastig óbreytt er um að ræða tugi milljarða króna. Þessi þróun endurspeglast í nýsamþykktum fjárlögum og fjárhagsáætlunum sveitarfélaga.
Nauðsynlegur stöðugleiki næst ekki einungis með ábyrgum samningum á almennum vinnumarkaði heldur verða ríki og sveitarfélög einnig að sýna ábyrgð til að verðbólga geti farið lækkandi og Seðlabankinn lækkað vexti að nýju.
Vissulega erum við háð þróun mála erlendis eins og ljóst má vera af þróun efnahagsmála í kjölfar COVID-faraldursins og innrásar Rússa í Úkraínu. En okkur ber skylda til að gera það sem til okkar friðar heyrir. Enginn getur skorast undan.
Efling
Það er engin ástæða til að óttast að ógerður kjarasamningur við Eflingu verði í grundvallaratriðum öðruvísi en aðrir samningar sem búið er að gera. Hagsmunir félagsmanna Eflingar eru þeir sömu og annars launafólks sem mun njóta kjarabóta strax þegar samþykki félagsmanna liggur fyrir. Með því að skoða nákvæmlega hvernig þegar gerðir samningar gagnast félagsfólkinu þá verður reynt til hins ítrasta að semja sem allra fyrst. Langdregnar samningaviðræður munu einungis valda tjóni ekki einungis þeim sem þær draga heldur einnig þeim sem þegar hafa samið.
Friður á vinnumarkaði er allra hagur.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.