Daníel Páll Jónasson er náttúrulandfræðingur og áhugaljósmyndari. Alla tíð hefur hann haft mikinn áhuga á eldgosum og annarri náttúruvá og skrifaði hann m.a.s. BS ritgerð sína um eldgos á Reykjanesi og hvaða leiðir hraun myndu leita í átt til höfuðborgarsvæðisins.
Þegar eldgosið byrjaði í Fagradalsfjalli var Daníel ekki lengi að koma sér á vettvang og eftir að hafa upplifað ótrúlega krafta náttúrunnar á eigin skinni gat hann einfaldlega ekki fengið nóg. Í þá 6 mánuði sem eldgosið varði áður en goshlé hófst um miðjan september, fór Daníel 30 ferðir að eldgosinu og tók yfir 10.000 myndir og myndbönd.
Hann safnar nú fyrir útgáfu ljósmyndabókar sem inniheldur 100 tilkomumestu og skemmtilegustu myndirnar úr ferðum Daníels á Karolina fund. Staðsetning hverrar myndar er sýnd á litlu korti svo hægt sé að sjá hversu mikið hraunið hefur breyst frá því myndin var tekin.
Daníel segir að hugmyndin hafi sprottið upp úr því að hann var mjög duglegur að pósta myndum og myndböndum af eldgosinu á Facebook síðunni sinni en einnig í hópunum Landið mitt Ísland og Iceland Geology. „Eftir að hafa fengið glimrandi góð viðbrögð við mörgum myndanna áttaði ég mig á því að ég væri farinn að safna efnivið í ljósmyndabók um eldgosið.
Þessi mikla vinna hefur þó klárlega borgað sig því núna er ég kominn með nokkuð flotta ljósmyndabók í hendurnar og risastóran lager af eldgosamyndum og myndböndum.“
Að sögn Daníels er helsti kosturinn við bókina hans að það er ekkert ákveðið þema, þ.e.a.s. annað en eldgosið í heild sinni. „Ég hef séð fólk pósta virkilega glæsilegum myndum af eldgosinu, t.d. drónamyndum fyrir ofan gíginn og myndum af gylltum kvikustrókum að nóttu til. Ég ákvað hins vegar að binda mig ekki eingöngu við slíkar myndatökur, enda hefði það verið leiðinlegt til lengdar.
Ég er mjög hrifnæmur og tók því myndir af öllu sem vakti athygli mína, hvort sem mér þótti það skondið, fallegt, hrikalegt, tilkomumikið eða áhugavert og hugsaði aldrei út í ákveðið þema. Þannig endaði ég með fjölbreytt myndasafn og gat leyft mér að hafa 100 myndir í bókinni sem halda fólki alveg við efnið. Á einni síðunni er mynd af glæsilegum kvikustrók, á annarri er mynd af ferðamönnum sem hættu sér langt út á hraunið og á enn annarri er mynd af hrauni og gasútstreymi sem í sameiningu líkist prumpandi snigli. Ég viðurkenni að ég stillti þeirri mynd dálítið upp, enda geta hugsanirnar orðið dálítið einkennilegar þegar maður er búinn að ganga einn í margar klukkustundir.“
Daníel viðurkennir að 30 ferðir, 10.000 myndir og bókaútgáfa í kjölfarið hafi verið tímafrekt verkefni, en líka mjög skemmtilegt. „Varlega áætlað hafa farið 500 til 600 klukkustundir í þetta verkefni síðustu 6 mánuði og það jafngildir 3 mánuðum af vinnu, samhliða fullri dagvinnu. Það voru nokkur skipti þar sem keyrði að gosinu eftir kl. 17, kom aftur heim kl. 1 eftir miðnætti, vann í ljósmyndunum til kl. 4 og mætti svo í vinnuna kl. 8 morguninn eftir.
Vegna þess hversu skemmtilegt og magnað þetta verkefni var hafði ég einhverja auka orku sem fleytti mér í gegnum þetta allt saman. Konan mín og dæturnar voru einnig ótrúlega skilningsríkar og studdu mig og hvöttu í gegnum allt ferlið, þess vegna er bókin tileinkuð þeim.
Gott dæmi um stuðninginn frá fjölskyldunni var þegar ég hafði farið margar ferðir á stuttum tíma, var lítið búinn að sjá fjölskylduna og kominn með mikinn móral og söknuð yfir því. Þá tók yngri dóttirin á móti mér þegar ég kom heim úr vinnunni með pappaeldfjall sem hún hafði föndrað í leikskólanum, rosalega stolt yfir listaverkinu. Hún sagði mér að ég væri „Eldgosinn“ sinn og að hún hafði búið þetta til fyrir mig. Þetta listaverk er núna uppi á hillu, fyrir framan alla hraunmolana sem ég safnaði og hlýjar mér meira en eldgosið gerði nokkurn tíma.“