Tónlistarmaðurinn Snorri Helgason gefur út sína sjöundu sólóplötu sem ber heitið Víðihlíð. Lög af plötunni eins og Haustið '97, Ingileif og Hæ Stína hafa ómað á öldum ljósvakans síðastliðið ár og nú kemur platan loks út á vínyl og hópfjármögnun er í gangi á Karolina fund vegna þessa.
„Ég samdi slatta af lögum á frekar stuttu tímabili sem voru dálítið af sama meiði, þ.e. .au áttu það sameiginlegt að fjalla um hugarheim minn sem unglingur og fílinginn að vera unglingur í kringum aldamótin,“ segir Snorri spurður um hvernig hugmyndin að lögunum kviknaði. „Þetta voru svona nostalgísk popplög sem ég átti allt í einu á lager. Ég ákvað að skipta þessum lagabunka í tvennt og taka þau upp með tveimur mismunandi upptökustjórum og gera tvær EP plötur.“
Sú fyrri kom út stafrænt í október í fyrra og stjórnaði Guðmundur Óskar Guðmundsson upptökum á henni en sú seinni kom út nú í apríl og Daníel Friðrik Böðvarsson stýrði henni. Nú er svo komið að „físískri útgáfu“ á þessum tveimur EP-plötum sameinuðum í eina stóra vínylplötu.
„Lögin fjalla flest um einhvers konar bjagaðar minningar frá unglingsárum mínum,“ segir hann um tónlistina. „Lög eins og Ingileif sem fékk töluvert mikla útvarpsspilun síðasta haust fjallar um ímyndaða vinsælustu stelpuna í skólanum sem ég mæti svo tuttugu árum seinna bugaða og þrotaða á Eiðistorgi. Sömuleiðis lagið Hæ Stína sem fjallar um fólk sem fór í leynilegan sleik sem unglingar á Reykjum í Hrútafirði en svo gerðist ekkert meira fyrr en þau hittast aftur löngu seinna.“
Snorri leitaði til hönnuðarins Bobby Breiðholts varðandi plötuumslagið sem hann hef unnið með að síðustu útgáfum sínum. „Við fórum að „brainstorma“ hvað gæti hentað fyrir plötu sem er svona kyrfilega „plasseruð“ í íslensku samfélagi um seinni hluta níunnar og strax eftir aldamótin. Við fórum að hanga inn á tímarit.is og kasta milli okkar nostalgíuboltum og fljótlega kviknaði sú hugmynd að vísa í plötuumslög skosku hljómsveitarinnar Belle & Sebastian sem við hlustuðum mikið á á þessum tíma.“
Umslög hennar eru yfirleitt ljósmyndir af fólki í tvílit. „Við fórum þá að máta þetta við okkar pælingar og þá kom ekkert annað til greina en að fókusera á nokkrar vel valdar 90’s/early 00’s drollur eins og Ingibjörgu Stefáns í Pís of Keik, Steinunni Ólínu, Þóru Dungal í Blossa, Brynju X og Önnu Rakel,“ útskýrir Snorri.
Hér er hægt að taka þátt í söfnuninni.