Brynjar Helgason kallar sig mynd-þeyti og hefur sett saman „listrænt tímarit“ með því sem hann hefur verið að dunda sér við í tölvunni síðastliðin 5 – 10 ár. Áður hefur hann sýnt, og þá helst skúlptúr eða innsetningar, bæði hér heima og erlendis. Þar hafa verið um að ræða bæði samsýningar og einkasýningar.
Stafræn myndvinnsla er gegnum gangandi í hans „vinnu“, eða dútli í gegnum tíðina. Oft er hann að endurvinna verk bæði eftir sjálfan sig og aðra með þessu móti. Og þá gildir einu og sama um hvort heldur að höfundurinn er einhver fægur eða láti frá sér hugmyndir í nafnleysi internetsins. „Ég geri mér mat úr þessu öllu saman,“ segir Brynjar sem safnar nú fyrir útgáfu tímaritsins á Karolina Fund.
Brynjar segir að hugmyndin hafi kviknað þegar hann sá stafrænt tímarit sem listamaðurinn Darren Bader gerði. Þá hafi ljóstrast upp fyrir honum að það sem hann væri sjálfur að gera ætti heima á þessu formi. „Nokkrum áratugum fyrr var Andy Warhol í sinni útgáfustarfsemi. Það hét eða heitir Interview. Ég er ekkert viss um að ég geri reyndar nokkurntímann annað svona verk, frekar að ég einbeiti mér að öðru. Reyndar hef ég gert annað skilt þessu sem er svona Warhol/Mallarméan ljóð og myndverk sem heitir „Morgunblaðið lesið um kvöld“. Það er bara til á stafrænu formi.“
Brynjar segir að það sé nokkurs konar National geographic þema í verkefninu. „Það er að segja að ég fæ lánaðan gula ramman þeirra. Mig vantaði eitthvað smá svona grafískt element sem myndi hnýta þetta saman í eina heild. Og svo er þetta náttúrulega með vísanir í ólíka menningarkima og líka mikið um dýr og plöntur og þannig. Bara hitt og þetta. Kannski er ég að draga upp hliðstæður sem ólík vistkerfi náttúrunnar og vistkerfi listarinnar. Mig vantar rétt rúmar 300.000 kr. til þess að prenta fyrsta upplag. Ég vona að sem flestir sjái sér fært um að leggja verkefninu lið.“