Fjóla Sigríður er 31 árs kona úr Skagafirði búsett með manninum sínum í Kópavogi. Nú skrifar hún sína fyrstu bók og safnar fyrir á Karolina Fund. Hún missti nýverið móður sína úr krabbameini. Í mörg ár töluðu þær mæðgur saman um að gefa út uppskrifarbók sem væri frábrugðin öllum öðrum bókum og er Fjóla að vinna í því núna að skrifa fallega persónulega og öðruvísi uppskriftarbók eftir móður sína.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Hugmyndin vaknaði fyrir mörgum árum, en mamma handskrifaði uppskriftir í stílabók og safnaði. Hún bjó til margar sjálf og við töluðum oft um það að hún myndi gefa út sína eigin uppskriftarbók, en vegna veikinda var aldrei hægt að fara í það að gera bók.“
Segðu okkur frá þema verkefnisins
„Ég ætla að láta þessa bók verða að veruleika en hún verður frábrugðin öllum öðrum uppskrifarbókum. Bókin mun innihalda handskrifaðar og prentaðar uppskriftir eftir mömmu ásamt ýmsum sögum og fróðleik inn á milli. Bókin verður á persónulegum nótum og gefur innsýn inn í líf krabbameinssjúklings sem komst í gegnum svo margt með því að skapa í eldhúsinu. Það verður líf og húmor í bókinni því mamma hafði alltaf húmor og ég veit að margir hefðu gaman af því að lesa hana.“
Fjóla Sigríður ætlar að láta hluta af ágóðanum renna til göngudeildar krabbameinssjúkra á Akureyri en þar var móðir hennar meira og minna síðustu ár í meðferðum.
„Mig langar að láta draum mömmu verða að veruleika og um leið heiðra minningu hennar. Ég ætla mér að gera þessa bók í hennar anda og eins og hún var búin að tala sjálf um. Ég yrði svo rosalega þakklát fyrir það að fá ykkar stuðning og um leið þakka ég fyrir allan stuðninginn.“