Lilja Tryggvadóttir, sjálfboðaliði í Konukoti, stefnir að því að styrkja Konukot og Frú Ragnheiði með sölu ljóðabókar. Ljóðabókin sprettur sem úrvinnsluljóð úr sjálfboðaliðareynslunni í Konukoti. Konukot er athvarf fyrir konur í húsnæðisvanda rekið af Rótinni en Frú Ragnheiður er verkefni rekið af Rauða Krossinum sem veitir heilbrigðisþjónustu og nálaskiptiþjónustu. Báðir staðir leggja ríka áherslu á skaðaminnkun og aðstoða fólk sem enn í dag er jaðarsett í samfélaginu. Það er mikil vakning í þessum málum búin að eiga sér stað á síðustu árum.
Reykjavíkurborg styrkir reksturinn en hluti af rekstrinum hjá bæði Konukoti og Frú Ragnheiði er rekinn af sjálfboðaliðum og fjárframlögum úr söfnunum og gjöfum. Því er fjármögnun mikilvæg og von Lilju að þetta verk geti veitt silfurkant inn í sumarið og haustið. Í bókinni er magnað samspil ljóða og mynda en bókina myndskreytir Ingibjörg Huld Halldórsdóttir. Myndirnar eru gerðar eftir lestur ljóðanna og heimsókn í Konukot og endurspegla túlkun listamannsins á tilfinningunum í ljóðunum og umhverfinu í Konukoti. Ingibjörg Huld hefur haldið sýningar á verkum sínum í Danmörku og á Íslandi. Verkin í bókinni „Skugga mæra – skjáskot af jaðrinum“ eru einnig glæsileg stök og eru öll til sölu hjá listamanninum. Útgáfa bókarinnar er fjármögnuð á Karolina Fund og söfnunin þar var að hefjast. Bókin er kynnt bæði á facebook og instagram undir nafninu.
Ljóðin eru sprottin úr reynslu Lilju sem sjálfboðaliði í Konukoti. „Ég er bæði að skila tilfinningum mínum frá mér á blað og einnig að reyna að skilja betur stöðuna, setja mig í spor gesta og aðstandenda og sjá heiminn út frá þeim. Það eru skjáskotin sem ég vísa í með seinni helming titilsins á bókinni, skjáskot af jaðrinum. Sterkt þema í bókinni er því heimilisleysi og allt það sem getur tengst því, svosem áfallasaga, fíknivandi, geðrænn vandi og bara það að vera stundum svolítið einn í tilverunni. En það eru einnig fallegar stundir í og við Konukot, samstaða og samkennd jafnvel þó það taki á að vera nánast allslaus og jaðarsettur í samfélaginu. Það er svo mikilvægt að muna að við erum öll í þessu saman. Við erum öll að upplifa margar af þessum sömu tilfinningum og eigum margt sameiginlegt þrátt fyrir að vera kannski á mismunandi stað í lífinu.“
Hún segir að það að ágóðinn af bókinni renni beint inn í starf Konukots og Frú Ragnheiðar sé henni eðlilegt og mikilvægt þar sem ekkert ljóðanna væri til án þeirra. „Þakklætið gagnvart fólkinu sem sækir þjónustu þangað og starfar þar er óendanlegt. Það kennir manni svo margt um lífið og tilveruna að kynnast fólki út fyrir sína eigin litlu „jólakúlu“.“