Flosi Þorgeirsson hefur um langt skeið verið viðloðandi íslenskt tónlistarlíf. Hann er líklega þekktastur sem gítarleikari HAM en hefur ljáð mörgum öðrum verkefnum krafta sína. Nú hefur hann hafið upptökur á sinni fyrstu sólóplötu.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Fyrir rúmum áratug síðan ákvað ég að beina öllum mínum kröftum gegn kvíða- og þunglyndisröskun sem var langt komin með að gjöreyðileggja líf mitt. Í gegnum langt ferli sem innihélt bæði einstaklings- og hópameðferð, þá fór ég að leita í auknum mæli á náðir tónlistarinnar. Ég lokaði mig af löngum stundum inni á baðherbergi (þar er besta „sándið“ í húsinu!) með gítarinn og spilaði látlaust. Eftir nokkurn tíma fór ég að átta mig á að lög voru að fæðast. Það kom mér nokkuð á óvart.
Ég hef aldrei verið mikill lagasmiður en þar hefur eflaust óöryggi og deyfð sem fylgir þunglyndinu spilað inn í. Nú hafði sjálfsöryggið batnað til muna og kominn einhver metnaður sem var ekki til staðar áður. Tengslin við tónlistina voru einnig önnur, skýrari og meira gefandi. Ég fékk þá hugdettu að gera eitthvað við þessi lög og sú hugmynd vildi ekki hverfa. Þvert á móti þá óx hún svo í huga mér að um síðir varð mér bara ljóst að ég yrði að kýla á þetta.“
Segðu okkur frá þema verkefnisins
„Það er í raun einfalt. Þetta eru 10 lög eftir mig. Ég sem lög og texta, syng og leik á öll hljóðfæri nema trommur en félagi minn úr HAM, Arnar Geir Ómarsson, bauð sig strax fram í það hlutverk. Þessi plata er einhvers konar óður til allrar þeirrar tónlistar og flytjenda sem hafa haft áhrif á mig í gegnum tíðina. Þarna má finna áhrif jafnt frá Sonic Youth, Hüsker Dü, Dinosaur Jr. en einnig klassísku rokki og jafnvel iðnaðarrokki eins og Foreigner! Þetta verður gítarplata.
Mig langar bara að leggja mitt af mörkum til tónlistararfs þjóðarinnar en einnig er ég einfaldlega að gera þetta því ég er gríðarlega sáttur við þessi lög og vill sjálfur fá að heyra þau í góðum gæðum. Þegar þessu ófremdarástandi sem veiran hefur skapað, lýkur loksins þá ætla ég auðvitað að fylgja þessu eftir með spilamennsku opinberlega. Það er skemmtilegast að spila tónlist „læf“.“