Siggi Kinski er kvikmyndagerðarmaður, tónlistarmaður og listrænn stjórnandi. Hann er einn af stofnendum fjöllistahópsins GusGus en hefur búið og starfað við kvikmyndagerð erlendis síðastliðin 18 ár. Á síðustu árum hefur Siggi samið tónlist á ný með GusGus og er afrakstur þeirrar samvinnu plata ársins hjá Íslenskum tónlistarverlaunum, Mobile Home.
Hann rekur framleiðslufyrirtækið Kjól & Anderson, ásamt Stefáni Árna og Baldri Stefánssyni. Kjól & Anderson er að undirbúa framleiðslu á heimildarmyndinni Impossible Band, sem fjallar um langan, dramatískan og litríkan feril GusGus. Siggi og Stefán Árni hafa unnið sem leikstjórar um heim allan undir nafninu Arni & Kinski. Þeir safna nú fyrir verkefninu á Karolina Fund.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Við Stefán vorum einir af stofnendum GusGus og meðlimir í um sex ár. Þetta tímabil var allt í senn skemmtilegt, spennandi, grátbroslegt, fáránlegt, sorglegt og ógleymanlegt. Sem kvikmyndagerðarmönnum hefur okkur lengi langað til að gera þessu skil á einhvern hátt. Ein hugmynd var að gera leikna gamanþætti, enda voru þarna skrautlegir karakterar, stór egó, sérvitringar; flestir sjálfumglaðir og klikkaðir snillingar.
Árið 2019, þegar ég byrjaði að vinna tónlist aftur með GusGus, hafði Biggi Veira búið um sig sem nokkurs konar einræðisherra. Mér datt í hug að gera mynd um það hvernig GusGus fór frá því að vera 9 manna útópískt lýðræðisríki í það að vera einræðisríki þar sem Veiran veður yfir allt og alla á skítugum pinnahælunum, sáldrandi brjáli yfir hógværan séntilmanninn Daníel Ágúst, sem á þessum tíma var orðinn einn eftir í kotinu með harðstjóranum,“ segir Siggi.
En GusGus hafi alltaf verið á stöðugu breytingaskeiði. Hugar og hjörtu hafi opnast á síðustu árum, kærleikurinn hafi vaxið, heilun átt sér stað, og nú síðast hafi Biggi Veira fengið langþráð Íslensk tónlistarverðlaun fyrir bestu plötuna. „Það misræmi hefur nú verið lagað,“ segir Biggi. „Nú er hægt að fara gera eitthvað skemmtilegt.“
Þannig að í myndinni munu áhorfendur kynnast GusGus í dag en á sama tíma kynnast sögunni með viðtölum við alla fyrrum meðlimi hópsins og upplifunum þeirra í GusGus.
Segðu okkur frá þema verkefnisins.
„Mín tilfinning og ósk er að þessi mynd verði einhvers konar heilunarferli fyrir alla sem hafa lagt hönd á plóginn í GusGus, eða fyrir alla þá sem hafa „farið í gegnum hakkavélina,“ eins og Veiran orðaði það einhvern tímann. Ást og frelsi er þemað í öllum okkar verkum á einn eða annan hátt. Vonandi snertir þessi saga jafn djúpt við áhorfendum eins og GusGus snerti við, eða braut, hjarta hvers og eins sem hefur verið meðlimur í þessu óútreiknanlega fyrirbæri. Impossible Band,“ segir Siggi.