Linus Orri er tónlistarmaður og annar helmingur Vökufélagsins ásamt Chris Foster. Hann er virkur í þjóðlagasenu Reykjavíkur sem stjórnarmaður Kvæðamannafélagsins Iðunnar, kórstjóri Kvæðakórsins og skipuleggjandi samspilskvölda á Kex Hostel. Syrpan kyndilberar er hans frumraun sem leikstjóri.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Fyrir tveimur árum stofnuðum við Chris Foster Vökufélagið til þess að halda utan um viðburði tengdum þjóðlagatónlist og þjóðdönsum en þá komu akkúrat takmarkanirnar svo að það var ekki hægt að skipuleggja neina viðburði. Þá datt okkur í hug að nota tímann í að gera myndbönd af fólkinu sem við hefðum annars sett upp á svið.
Þegar að ég fékk fyrst áhuga á þessum sönghefðum Íslendinga vissi ég ekki hvert ég átti að leita og gúgglaði mig inn á alls konar misgott efni og þess vegna hefur það verið mér ofarlega í huga að bæta flóruna og auka þannig líkurnar á því að fólk sem er að leita að kvæðum og rímum rambi inn á góð gæði,“ segir hann.
Segðu okkur frá þema verkefnisins
„Syrpan Kyndilberar er stiklur sem fanga hinar lifandi hefðir í sínu náttúrulega umhverfi. Við vildum sýna flytjendur í afslöppuðu umhverfi og í þetta skipti einbeittum við okkur að tvísöng og kvæðum. Sjálfum finnst mér alltaf áhugaverðast að sjá fólk í sínu eigin umhverfi því að öll list gerist í einhverju samhengi. Þetta er í raun portrett af flytjendum.
Það tók okkur ekki nema fjóra daga að ná söfnunarmarkmiði okkar og það er yndislegt að finna fyrir hversu mikill áhugi er á þessari framsetningu. Ég held að það séu margir sem eru forvitnir um þjóðlagatónlist sem vita bara ekki hvert þau eiga að beina áhuganum þannig að okkar hlutverk er bara að skapa þann vettvang. Ég hlakka bara til að sjá sem flesta þann 14. maí klukkan 16:00 þegar við höldum fögnuð og frumsýningu í Bíó Paradís!“ segir hann að lokum.
Miðar eru í boði á söfnunarsíðunni á Karolina Fund.